Dagana 11.-13. október munu Blindrafélagið, Sjónstöðin, Íþróttafélag fatlaðra og Reykjadalur, undir leiðsögn Háskólans í Reykjavík, halda færnibúðir fyrir börn og ungmenni á aldrinum 9 til 25 ára (athugið að búðunum verður skipt upp með tilliti til aldurs þátttakenda).

Búðirnar verða haldnar í Reykjadal og boðið verður upp á fæði og gistingu, en einnig er hægt að taka þátt án þess að gista. Kostnaður fyrir hvern þátttakanda er 5000 kr.

Til að halda færnibúðirnar höfum við fengið stofnanda búðanna, Lauren Lieberman, ásamt gestum frá Bandaríkjunum til að stýra þeim ásamt þeim Inga Þór frá HR og Kaisu frá Blindrafélaginu. Þau hafa heimsótt búðirnar í Bandaríkjunum til þess að koma með hugmyndafræðina hingað heim.

Hvað eru færnibúðir?

Færnibúðir felast fyrst og fremst í því að valdefla þátttakendur. Í þeim gefst börnum og ungmennum sem eru blind/sjónskert/með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, tækifæri til að spreyta sig í ýmsum íþróttum eða leikjum sem þau hefðu annars ekki haft tækifæri til að prófa. Unnið er með einstaklingnum maður á mann og þátttakendur fá að miklu leyti tækifæri til að velja sjálfir áskoranir. Á sama tíma fer fram færnimat sem Háskólinn í Reykjavík mun sjá um. Færnimatið er svo hægt að nýta í áframhaldandi þjálfun, t.d. með íþróttakennurum.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í búðunum eru beðnir um að senda póst á sjonstodin@sjonstodin.is þar sem fram kemur nafn og fæðingarár þátttakenda, símanúmer sem hægt er að hafa samband við þátttakendur og netfang.

Ekki er um mörg pláss að ræða og því eru áhugasamir beðnir um að skrá sig sem fyrst. Staðfesting á þátttöku fer svo fram fyrir 31. ágúst.

Umsjónarmenn búðanna

Ingi Þór er lektor við Háskólann í Reykjavík og hefur unnið í mörg ár með íþróttafólki með margskonar fatlanir, skrifað bókarkafla um íþróttir einstaklinga með fatlanir á Íslandi og stundað rannsóknir.

Kaisu Hynninen hefur verið sjónskert alla ævi. Hún hefur spilað markbolta í kvennalandsliði Finnlands síðan 2009 og unnið í sumarbúðum fyrir blint og sjónskert ungt fólk í Finnlandi. Hún hefur um 20 ára reynslu af mismunandi kennslustörfum og er í framhaldsnámi til að verða tónmenntakennari.

Lauren Lieberman er doktor í íþróttafræðum frá Háskólanum í Oregon í Bandaríkjunum með áherslu á að kenna börnum með skynúrvinnsluvanda. Hún hefur verið meðhöfundur fjölda bóka um aðlagaða íþróttakennslu, eða íþróttakennslu ætlaða öllum.

Upplýsingar um Camp abilities: https://www.campabilities.org/