Miðvikudaginn 8. maí var haldin vinnusmiðja á Sjónstöðinni um punktaleturs-legókubba (LEGO Braille Bricks). 20 manns tóku þátt í vinnusmiðjunni, sem allir tengjast kennslu blindra og sjónskertra barna út um allt land. Kennari var Marc Angelier frá Frakklandi, sem er einn af starfsmönnum LEGO Foundation. Hann er einn af þeim sem þróaði og bjó til kennslufræðilegan grunn fyrir notkun kubbanna og vinnur við að ferðast um allan heim og halda námskeið fyrir kennara.

Fyrir nokkrum árum fór LEGO® af stað með frumkvöðla- og nýsköpunarverkefni við að búa til LEGO-kubba með punktaletri. LEGO Foundation og LEGO Group standa á bak við þetta merkilega verkefni.

Legobraille-settið, „Leikum með punktaletur” er hannað fyrir þá sem læra punktaletur og býður upp á kennslu og rannsókn í gegnum leik. Lögð er áhersla á forvitni og löngun til að rannsaka kubbana og njóta þess að kynnast punktaletrinu á forsendum leiks. Á kubbunum eru bæði punktaletursbókstafir og svartletursbókstafir auk tölustafa og tákna. Í leik með kubbana verður lestrarnámið bæði skemmtilegt og aðgengilegt fyrir alla. Kubbarnir henta einstaklingum á mismunandi aldri og stuðla að jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum í gegnum leik.

LEGO® vann í samstarfi við samtök blindra og sjónskertra og hefur þróað efnivið og hugmyndabanka fyrir kennara og annað fagfólk sem nýtist þeim í kennslu.

Við á Íslandi erum þakklát fyrir að fá tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni sem er að öllu leyti styrkt af LEGO Foundation og er þátttakendum um allan heim þeim að kostnaðarlausu. Búið er að aðlaga kubbana að íslenska stafrófinu og nokkrir skólar eru nú þegar farnir að nota kubbana í skólastarfi.

Á heimasíðu verkefnisins, Youtube og Facebook er að finna fjöldann allan af hugmyndum að leikjum og hvetjum við ykkur til að kynna ykkur kubbana betur þar og notagildi þeirra.

https://legobraillebricks.com/

https://www.youtube.com/channel/UCqeu5UnSaa-8CmcotDKiciQ

https://www.facebook.com/groups/2093544860690025