Ráðgjöf fyrir fullorðna

Þegar einstaklingur sem hefur verið í þjónustu Sjónstöðvar verður lögráða færist hann frá sérkennsluráðgjöf yfir á fullorðinssvið og því fylgja nokkrar breytingar.

Fullorðnum notendum Sjónstöðvar býðst margvísleg þjónusta. Helst ber að nefna samtal og samvinnu við ráðgjafa Sjónstöðvar þar sem gerð er áætlun um þjónustu í tengslum við virkni notandans. Í samráði við notandann er þörf fyrir sjónhjálpartæki metin og tækjum úthlutað eftir hjálpartækjareglugerð. Hjálpartæki geta verið tölvuforrit, hvíti stafurinn eða í formi sérútbúinna gleraugna eða stækkunarglerja/ tækja, eða annars konar sjónhjálpartækja.

Notendum býðst einnig ráðgjöf varðandi athafnir daglegs lífs (ADL) og ýmis gagnleg ráð sem fólk getur nýtt sér í daglegu lífi. Símar og tölvur eru mikilvæg hjálpartæki í lífi blindra og sjónskertra, og á Sjónstöðinni geta notendur fengið aðlagaðan tæknibúnað og aðstoð við stillingar eftir þörfum hvers og eins. Þessi aðstoð getur farið fram á Sjónstöðinni, á heimili eða vinnustað/skóla.

Ráðgjöf vegna merkinga og skipulags umhverfis/ heimilis/ skóla/ vinnu er einnig í boði. Notandi getur fengið kennslu í umferli, svo sem áttun og að rata í nýju umhverfi, og kennslu á notkun hvíta stafsins þegar það á við.

Notendur Sjónstöðvar geta fengið aðstoð við að afla félagslegra réttinda sem tengjast sjónskerðingunni, svo sem umsóknarferli og samskipti við aðrar stofnanir. Þeir notendur sem hafa hug á því að auka virkni geta fengið aðstoð við að kynna sér hvað er í boði og aðstoð við samskipti við ráðningarstofur og virkniúrræði. Notendur í námi eiga rétt á aðlögun námsaðstæðna og um það þarf að gera samning í viðkomandi skóla. Notendur geta fengið aðstoð Sjónstöðvar vegna þess.