Persónuverndarstefna

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, hér eftir kölluð Miðstöðin, starfar samkvæmt lögum nr. 160/2008. Hlutverk Miðstöðvarinnar er að auka möguleika þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu til virkni og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra.
Miðstöðin hefur yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru blindir eða sjónskertir og gegnir samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu.
Miðstöðin skal samkvæmt lögum halda skráningu yfir alla sem eru blindir, sjónskertir og með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu hér á landi í þeim tilgangi að bæta þjónustu við þá, tryggja gæði þjónustunnar og hafa með henni eftirlit og til tölfræðiúrvinnslu og vísindarannsókna.

Um persónuverndarstefnu Miðstöðvarinnar

Miðstöðinni er umhugað um persónuvernd og ber virðingu fyrir réttindum einstaklinga. Markmið Miðstöðvarinnar er að leggja áherslu á persónuvernd með því að tryggja lögmæta, sanngjarna og gagnsæja meðferð allra persónuupplýsinga og að öll vinnsla sé í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 90/2018 (hér eftir nefnd persónuverndarlög).
Persónuupplýsinga skal einungis aflað í skýrt tilgreindum tilgangi og vinnsla þeirra takmörkuð við það sem nauðsynlegt er. Þá skulu upplýsingar vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum og varðveittar á öruggan hátt.
Í persónuverndarstefnu þessari eru veittar upplýsingar og fræðsla um vinnslu persónuupplýsinga hjá Miðstöðinni.
Miðstöðin leggur áherslu á að hafa persónuverndarstefnu sína gagnorða, skýra og á einföldu máli.

Ábyrgðaraðili

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, Hamrahlíð 17, 105 Reykjavík, kt. 480109-1390 ber ábyrgð á vinnslu persónuupplýsinga sem unnið er með hjá stofnuninni og telst því ábyrgðaraðili samkvæmt persónuverndarlögum.
Miðstöðin leggur ríka áherslu á vitund og ábyrgð allra starfsmanna og þeirra sem starfa á vegum Miðstöðvarinnar við vinnslu persónuupplýsinga.
Persónuverndarfulltrúi Miðstöðvarinnar hefur eftirlit með því að farið sé að lögum og reglum um persónuvernd hjá Miðstöðinni og að verklagsreglum sé framfylgt.

Hvaða persónuupplýsingar vinnur Miðstöðin með?

Þær tegundir persónuupplýsinga sem Miðstöðin skráir og varðveitir um notendur og tengiliði þeirra eru almennar persónuupplýsingarnar, s.s. nafn, kennitala, heimilisfang, símanúmer og netfang. Persónuupplýsingarnar um notendur geta verið viðkvæmar, s.s. heilsutengdar upplýsingar sem snúa að sjón og sjónnýtingu og/eða annarri fötlun sem getur haft áhrif á sjónnýtingu notandans.
Miðstöðin vinnur með persónuupplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna starfsumsókna og mats á umsóknum s.s. tengiliðaupplýsingar og upplýsingar úr ferilskrá. Þar sem Miðstöðin er opinber stofnun, sem er bundin að lögum um opinber skjalasöfn, er ekki heimilt að eyða þessum upplýsingum þótt viðkomandi sé ekki ráðinn til starfa.

Nánar er fjallað um meðferð persónuupplýsinga starfsmanna Miðstöðvarinnar í innri persónuverndarstefnu stofnunarinnar.
Engum persónugreinanlegum upplýsingum er safnað í gegnum vefsíðu Miðstöðvarinnar.

Tilgangur og heimild fyrir vinnslu persónuupplýsinga

Miðstöðin hefur lagalega skyldu til að halda skrá yfir alla sem eru blindir, sjónskertir og með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu hér á landi. Megintilgangur með vinnslu á persónugreinanlegum upplýsingum er að veita notendum Miðstöðvarinnar þá þjónustu sem stofnuninni ber skv. lögum um stofnunina.
Notanda eða forsjáraðila hans er boðið að skrifa undir upplýst samþykki við fyrstu komu á Miðstöðina, sem veitir Miðstöðinni leyfi til að afla og miðla upplýsingum frá þriðja aðila til að auka gæði og bæta þjónustu við notandann. Börnum er kynnt innihald samþykkisins eins og unnt er.
Vinnsla persónuupplýsinga tengd starfsumsóknum byggist á að  nauðsynlegt er   til að geta gert ráðstafanir vegna umsóknar viðkomandi og til að undirbúa gerð ráðningarsamnings ef við á.

Hvernig eru persónuupplýsingar varðveittar?

Persónuupplýsingar eru skráðar í tölvuskráningarkerfi Miðstöðvarinnar og varðveittar þar á meðan notandi nýtur þjónustu stofnunarinnar. Miðstöðin er opinber stofnun og fellur því undir lög um opinber skjalasöfn nr.77/2014 og ber að varðveita upplýsingar og gögn í samræmi við ákvæði þeirra laga. Gögnum er því ekki eytt heldur flutt á Þjóðskjalasafn Íslands innan við 5 árum eftir lát notandans.

Afhending persónuupplýsinga til þriðja aðila

Persónuupplýsingum er ekki miðlað til þriðja aðila nema notandinn eða forsjáraðili hans hafi undirritað upplýst samþykki þar að lútandi. Þetta á við í tilvikum þar sem einstaklingurinn fær þjónustu annarsstaðar og þriðji aðili þarf upplýsingar um sjón og sjónnýtingu. Upplýsingum er ekki miðlað til þriðja aðila umfram það sem heimilt er samkvæmt upplýstu samþykki.

Réttindi notandans

Miðstöðin leggur áherslu á að virða þann rétt sem einstaklingar eiga samkvæmt persónuverndarlögum, m.a. rétt til að fá staðfestingu á hvaða persónuupplýsingar unnið er með, rétt til að óska leiðréttinga á persónuupplýsingum ef viðkomandi telur þær rangar eða ófullkomnar og rétt til að gera athugasemdir við vinnslu persónuupplýsinga.
Ef óskað er eftir að nýta þennan rétt skal hafa samband við Miðstöðina eða persónuverndarfulltrúa hennar. Miðstöðin skal bregðast við slíkum óskum innan eins mánaðar.
Notandi sem skrifað hefur undir upplýst samþykki til að leyfa öflun og miðlun persónuupplýsinga til þriðja aðila getur hvenær sem er afturkallað eða breytt leyfi sínu. Slík afturköllun tekur gildi strax en getur ekki verið afturvirk og hefur því ekki áhrif á lögmæti vinnslu fram að afturkölluninni.

Öryggi persónuupplýsinga

Miðstöðin leggur ríka áherslu á að tryggja öryggi persónuupplýsinga og varðveita öll gögn með öruggum hætti, hvort sem um útprentuð eða rafræn skjöl er að ræða.
Miðstöðin stuðlar að virkri öryggisvitund starfsmanna og allra þeirra sem starfa á vegum stofnunarinnar, meðal annars með reglulegri fræðslu.
Miðstöðin hefur sett sér öryggisstefnu og starfsmenn undirrita þagnareið við upphaf starfs.
Miðstöðin er með skýra verkferla um hvernig brugðist skuli við ef öryggisbrot á sér stað. Dæmi um öryggisbrot gæti til dæmis verið ef persónuupplýsingar glatast eða þær verða aðgengilegar óviðkomandi aðilum.

Hafa samband

Til að fá frekari upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga, koma á framfæri athugasemdum eða afturkalla samþykki geta notendur haft samband við Miðstöðina í síma 545-5800 eða persónuverndarfulltrúa hennar á netfanginu personuvernd@midstod.is.

Komi upp ágreiningur um vinnslu persónuupplýsinga getur notandi sent kvörtun eða athugasemdir til Persónuverndar á tölvupóstfangið postur@personuvernd.is.

Miðstöðin áskilur sér rétt til að breyta persónuverndarstefnu sinni, meðal annars ef breytingar verða á lögum og reglum um persónuvernd eða á starfsemi stofnunarinnar. Ef um veigamiklar breytingar er að ræða verða þær kynntar sérstaklega á vef Miðstöðvarinnar.