Tölvu- og tækniráðgjöf

Miðstöðin annast úthlutun á tölvutengdum hjálpartækjum sem blindir, sjónskertir og einstaklingar með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu geta nýtt sér til daglegra verka, starfs, náms og afþreyingar. Bæði er um vélbúnað og hugbúnað að ræða, sem bætast þá við tölvu eða önnur almenn heimilistæki sem fyrir eru. Reglur um úthlutanir og uppfærslur eru mismunandi eftir hverjum búnaði fyrir sig. Nánar um það á hjálpartækjasíðunni.

Dæmi um tæknibúnað:

  • Stækkunarforrit sem stækkar það sem er á skjánum með hjálp myndavélar, allt að 32 sinnum, auk þess að bjóða upp á fjölbreytilega litamöguleika
  • Hugbúnaður til að skanna svartleturstexta, breyta í textaskjöl og lesa með skjálestrarhugbúnaði.
  • Talgervill fyrir þá sem eiga og nota tölvur en geta ekki nýtt sér hefðbundinn tölvuskjá.
  • Talbúnaður í farsíma fyrir þá sem ekki geta lesið á hefðbundinn farsímaskjá. Notandi kaupir sjálfur símtæki.
  • Hugbúnaður til að stækka texta og myndir á tölvuskjá og farsímaskjá. Rétt til úthlutunar hafa þeir sem eiga og nota tölvur og farsíma en geta ekki nýtt sér hefðbundinn skjá, ef sýnt er fram á að innbyggðir stækkunarmöguleikar stýrikerfis dugi ekki til almennrar notkunar
  • Skjálúpa og stækkunarmús, tengd skjá eða tölvu fyrir þá sem eiga í erfiðleikum með að lesa með gleraugum og/eða stækkunarglerjum. Miðað er við að viðkomandi þurfi meira en þrefalda stækkun til að geta lesið 10 punkta letur eða geti ekki haldið á stækkunargleri vegna líkamlegs atgervis.

Hvað felst í tölvuráðgjöf?

Notandinn þarf að hafa aðgang að tölvu til að geta nýtt sér tölvutengdu hjálpartækin. Þar sem hjálpartækin virka ekki við hvaða aðstæður sem er, þá ráðleggur tölvufræðingur Miðstöðvarinnar þeim sem þess óska um kaup og uppsetningu á almennum tölvubúnaði.

Til að geta fengið slíkum búnaði úthlutað fer fram mat á getu, aðstæðum og þörfum notandans og er slíkt mat unnið af ráðgjöfum stofnunarinnar. Þegar úthlutun hefur verið staðfest sendir ráðgjafinn beiðni á tölvufræðing Miðstöðvarinnar sem pantar hlutinn, setur hann upp í tölvu notandans og tryggir að hann virki. Að því loknu kennir ráðgjafinn notandanum á búnaðinn.