Leiðsöguhundar

Flýtileið beint í umsóknir
Undir flokknum Fróðleikur má finna ýmsan annan fróðleik um leiðsöguhunda.

Hvað gera leiðsöguhundar?

Leiðsöguhundar aðstoða blinda og sjónskerta einstaklinga við að komast leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt. Leiðsöguhundurinn er sérþjálfaður í því að:

 • forðast hindranir á gönguleið, bæði á jörðu og í höfuðhæð (t.d. trjágreinar og skilti).
 • hindra að notandinn hrasi um vegkanta eða tröppur.
 • stöðva við öll gatnamót.
 • fara yfir umferðargötur á öruggan hátt með því að forðast að ganga í veg fyrir bíla og önnur farartæki.
 • fylgja fjölda fyrirmæla sem notandinn gefur.

Rétt eins og hvíti stafurinn er leiðsöguhundur skilgreindur sem hjálpartæki í umferli. Ákvarðanir um hvert skal farið eru alfarið í höndum notandans sem stýrir hundinum. Notandinn er í stöðugu sambandi við hundinn til þess að stýra ferðinni að áfangastað. Þess vegna er nauðsynlegt að notandinn sé vel áttaður í umhverfinu sem gengið er um, viti hvar hann er og hvert skuli haldið.

Hverjir geta nýtt sér leiðsöguhund?

Blindir og sjónskertir einstaklingar, sem hafa náð góðum tökum á notkun hvíta stafsins og hafa gott ratskyn út frá kennileitum og allskyns áreiti í umhverfinu, geta nýtt sér leiðsöguhund.

Þegar ákveðið er hverjir skulu fá leiðsöguhundi úthlutað er tekið tillit til eftirfarandi atriða:

 • Fötlunar umsækjanda af völdum blindu eða sjónskerðingar og þeirra erfiðleika sem hún veldur viðkomandi í því að sinna störfum sínum, áhugamálum og skyldum.
 • Þarfar fyrir leiðsöguhund vegna virkrar þátttöku í samfélaginu.
 • Ratskyns og færni í notkun hvíta stafsins.
 • Fjölda og fjölbreytni leiða sem einstaklingur hefur þegar tileinkað sér með notkun hvíta stafsins.
 • Líkamsstyrks, úthalds og jafnvægisskyns umsækjanda.
 • Ákveðni og getu til að viðhalda stjórnunarhlutverki í samskiptum við hundinn.
 • Aðstæðna sem bjóða upp á reglubundna og fjölbreytta notkun á hundinum í því hlutverki sem hann hefur verið þjálfaður fyrir.
 • Áreiðanleika umsækjanda og getu til að mæta þörfum hundsins með tilliti til hreyfingar, umhirðu, félagsskaps og hlýju.
 • Úthlutun leiðsöguhunda sbr. reglugerð um hjálpartæki.

Umsókn um leiðsöguhund

Hér er að finna eyðublöð sem skal fylla út þegar sótt er um leiðsöguhund. Notandi fyllir út umsóknareyðublaðið en læknir fyllir út læknisvottorðið.

Umsóknareyðublað (word-skjal)

Læknisvottorð (word-skjal) Læknisvottorð sem pdf-skjal (opnast í nýjum flipa)

Í reglugerð um úthlutun hjálpartækja segir eftirfarandi um leiðsöguhunda:

Leiðsöguhundum, sem aðstoða við rötun og umferli, er úthlutað til einstaklinga sem taldir eru, að undangengnu mati, geta nýtt sér hunda til aukins sjálfstæðis við umferli. Úthlutun er fylgt eftir með þjálfun hjá sérþjálfuðum hundaþjálfurum og umferliskennurum. Úthlutun fylgir mat á aðstæðum einstaklinga og mat á pörun einstaklings og leiðsöguhunds.

Úthlutun og endurúthlutun er tekin fyrir hverju sinni á Miðstöðinni. Fjöldi hunda sem er úthlutað á hverju ári er ákveðinn af Miðstöðinni fyrir eitt ár í senn. Þeir sem sækja um leiðsöguhund verða að vera eldri en 19 ára á því ári sem úthlutun fer fram.

Samkvæmt reglugerð um úthlutanir hjálpartækja, auglýsir Miðstöðin úthlutun leiðsöguhunda fyrir hvert ár í senn. Þá fylla umsækjendur út umsóknareyðublað og skila inn læknisvottorði sem fer til úthlutunarnefndar. Tekið skal fram að þegar sótt er um leiðsöguhund þarf notandinn ekki endilega að vera búinn að taka lokaákvörðun um hvort hann vilji fá leiðsöguhund. Með umsókn er einfaldlega verið að opna fyrir möguleikann á því að fara í umfangsmikið könnunar- og kynningarferli.

Eftir að umsókn hefur verið lögð inn er umsækjendum boðið að sækja kynningarnámskeið með hundaþjálfara með fullri viðveru í þrjá daga. Áður en umsækjandi verður hugsanlega paraður saman við hund er farið í gegnum umfangsmikið mats- og kynningarferli þar sem þarfir einstaklingsins eru betur skilgreindar og endanlegt mat er lagt á getu hans til að fullnýta leiðsöguhund og mæta þörfum hundsins. Mikilvægt er að hundaþjálfarar kynnist væntanlegum notendum vel, hvað varðar meðal annars líkamsstyrk, gönguhraða, skapgerð og heimilisaðstæður. Í þessu ferli kynnist umsækjandinn líka betur hvað felst í því að halda og nýta leiðsöguhund. Endanleg ákvörðun um það hvort einstaklingur fái, eða vilji þiggja, leiðsöguhund er því ekki tekin fyrr en mats- og kynningarferli lýkur.

Eftir að kynningarnámskeiði lýkur mun úthlutunarnefnd fara yfir umsóknir og matið og umsækjendum verður tilkynnt um niðurstöðu. Ef umsókn umsækjanda er samþykkt hefst þjálfun með hundinum. Sú þjálfun á sér stað með hundaþjálfaranum og er í fyrstu töluvert umfangsmikil. Að henni lokinni fer notandinn að nýta leiðsögn hundsins í umferli daglegs lífs. Notandi fær heimsókn hundaþjálfara mánuði eftir að hundur er afhentur, til frekari stuðnings. Hundaþjálfari heimsækir notendur síðan einu sinni á ári til að meta árangur og veita frekari leiðsögn og endurþjálfun eftir þörfum.

Úthlutun leiðsöguhunda fer fram samkvæmt reglugerð um hjálpartæki sem má finna á www.midstod.is. Einnig veita starfsmenn Miðstöðvarinnar aðstoð og upplýsingar um umsóknarferli og aðstoð við útfyllingu umsóknareyðublaða, sé þess óskað.