Börn 0-6 ára

Í langflestum tilvikum er sjónskerðing meðal barna meðfædd og kemur því fljótt í ljós. En í sumum tilvikum á greining sér ekki stað fyrr en barnið er komið á grunnskólaaldur. Þar sem skerðingin kemur snemma í ljós er brugðist við með snemmtækri íhlutun. Þjónustan er sniðin að þörfum barns og fjölskyldu og tekur m.a. mið af aldri barnsins og sjónskerðingu þess. Lögð er áhersla á ráðgjöf, stuðning og samstarf við foreldra barnsins enda gegn þeir lykilhlutverki í umönnun og uppeldi.

Mikilvægt er að finna leiðir til að vekja áhuga blindra og sjónskertra barna á umhverfinu og kenna þeim markvissar aðferðir við að rannsaka og uppgötva það sem er í kringum þau. Einnig þarf að hafa áhrif á virkni þeirra og samskipti við önnur börn. Ráðgjöfin felst í beinni íhlutun með barninu, samstarfi við foreldra og aðra sem að þjónustu við barnið og fjölskylduna koma.

Áhersla er lögð á mat á sjón- og sjónnýtingu, skynfæraörvun og áhrif sjónskerðingar á þroska barns. Ráðgjöf er veitt um val á leikföngum sem nýtast til sjón- og þroskaörvunar og aðferðir kenndar við rýmisskynjun og rötun (umferli). Metin er þörf fyrir gagnleg hjálpartæki og lýsingu. Þá fer fram undirbúningur fyrir leikskóla.

Leikskóli

Þjónustan felst í fræðslu og ráðgjöf til starfsfólks leikskóla og annarra þjónustuaðila, fjölskyldna og samnemenda. Eftir þörfum er unnið í nánu samstarfi við aðra sem sinna sérfræðiþjónustu við nemendur hverju sinni.
Ráðgjafar Miðstöðvarinnar leggja mat á stöðu nemandans í leikskólanum m.t.t sjónskerðingarinnar, að undangenginni athugun á sjón og sjónnýtingu á Miðstöðinni. Á grundvelli þessa mats er unnin áætlun í samstarfi við leikskólann og fjölskyldu nemandans. Framkvæmd áætlunarinnar er síðan á ábyrgð viðkomandi skóla en ráðgjafar Miðstöðvarinnar koma að málum eftir þörfum hverju sinni. Innihald áætlunarinnar fer eftir þörfum nemandans. Til að óska eftir þjónustu við leik- og grunnskólanemendur er haft samband við tengilið nemandans hjá Miðstöðinni.

Meðal þeirrar þjónustu sem Miðstöðin veitir vegna leikskólanemenda er:

 • athugun og mat á sjónnýtingu nemanda og stöðu hans í leikskólanum
 • fræðsla um sjónskerðingu og áhrif hennar á þroska
 • athugun á umhverfi og aðgengi m.t.t. kennslu og sjálfstæðis nemanda
 • hvernig best er að örva þá sjón sem barnið hefur
 • hvernig barnið getur orðið sjálfbjarga í daglegum athöfnum (ADL)
 • áhrif sjónskerðingar fyrir samskipti og samspil við leikfélagana
 • val á leikföngum sem nýtast til sjón- og þroskaörvunar
 • val á kennslu og þjálfunarefni
 • undirbúningur og kennsla punktaleturs þegar við á
 • hvaða hjálpartæki og lýsing eru gagnleg fyrir barnið
 • aðstoð við gerð einstaklingsnámsskrár
 • undirbúningur fyrir næsta skólastig

Grunnskóli

Þjónustan felst í fræðslu og ráðgjöf til starfsfólks grunnskóla og annarra þjónustuaðila, aðstandenda og samnemenda. Eftir þörfum er unnið í nánu samstarfi við aðra sem sinna sérfræðiþjónustu við nemendur hverju sinni.

Ráðgjafar Miðstöðvarinnar leggja mat á stöðu nemandans í náminu og innan skólans m.t.t. sjónskerðingarinnar, að undangenginni athugun á sjón og sjónnýtingu á Miðstöðinni. Á grundvelli þessa mats er unnin áætlun í samstarfi við skólann, nemandann og aðstandendur hans. Framkvæmd áætlunarinnar er síðan á ábyrgð viðkomandi skóla, en ráðgjafar Miðstöðvarinnar koma að málum eftir þörfum hverju sinni. Innihald áætlunarinnar fer eftir þörfum nemandans stöðu hans í náminu og í skólanum. Til að óska eftir þjónustu við grunnskólanemendur er haft samband við tengilið nemandans hjá Miðstöðinni.

Meðal þeirrar þjónustu sem Miðstöðin veitir vegna grunnskólanemenda er:

 • mat á sjónnýtingu nemanda og stöðu hans í skólanum
 • fræðsla um sjónskerðingu og sjónnýtingu
 • athugun á umhverfi og aðgengi m.t.t. kennslu og sjálfstæðis nemanda
 • mat á hjálpartækjaþörf við nám
 • aðlögun á námskrá eða þátttaka í gerð einstaklingsnámskráa
 • aðstoð við val á námsefni og mat á leturstærð og leturgerð
 • innlögn punktaleturs og ráðgjöf til kennara og aðstandenda
 • ráðgjöf og kennsla á hjálpartæki og forrit í tölvum í samvinnu við tölvuráðgjafa Miðstöðvarinnar
 • ráðgjöf til kennara og nemenda um rafræna kennsluhætti
 • fræðsla og aðstoð við að styrkja félagsfærni og félagsstöðu nemandans
 • hvernig nemandinn getur orðið sjálfbjarga í daglegum athöfnum (ADL)
 • aðstoða við undirbúning nemanda á milli skólastiga
 • fræðsla um kennsluaðferðir sem nýtast blindum, sjónskertum og nemendum með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu

Framhaldsskóli

Þjónustan felst í fræðslu og ráðgjöf til nemandans, starfsfólks framhaldsskóla og annarra þjónustuaðila, aðstandenda og samnemenda. Eftir þörfum er unnið í nánu samstarfi við aðra sem sinna sérfræðiþjónustu við nemendur hverju sinni. Ráðgjafar Miðstöðvarinnar leggja í upphafi mat á stöðu nemandans m.t.t. aðgengis í námi og námsefni. Í flestum tilfellum vinnur sérfræðingur Miðstöðvarinnar náið með námsráðgjafa.

Meðal þeirrar þjónustu sem Miðstöðin veitir framhaldsskólanemendum er:

 • athugun og mat á sjónnýtingu nemandans
 • fræðsla um sjónskerðingu og sjónnýtingu til starfsfólks skólans og samnemenda í samráði við nemandann
 • mat á hjálpartækjaþörf við nám
 • mat á leturstærð og leturgerð
 • útvegun og milliganga námsgagna á aðgengilegu formi
 • ráðgjöf og kennsla á hjálpartæki og forrit í tölvum í samvinnu við tölvuráðgjafa frá Miðstöðinni
 • fræðsla og aðstoð til nemandans til að styrkja og efla félagsfærni hans
 • aðstoð við glósutækni námstækni í samvinnu við námsráðgjafa skólans
 • fræðsla til starfsmanna skólans um uppsetningu aðgengilegra prófa

Við 19 – 20 ára aldur færast þeir notendur sem hafa verið í sérkennsluráðgjöf yfir á fullorðinssvið og heyra þá undir náms- og starfsráðgjöf hjá Miðstöðinni. Tengiliður/sérkennsluráðgjafi sér til þess að boða til skilafundar innanhúss með þeim ráðgjöfum frá Miðstöðinni sem við á, ásamt notanda og eru aðstandendur eða persónulegur talsmaður velkomin á fundinn. Á þeim fundi er farið yfir mál notanda, hvernig gengið hefur og fyrirkomulagið á fullorðinssviði. Þá er þetta kjörið tækifæri til að fræðast um þá margvíslegu þjónustu sem Miðstöðin býður upp á fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu á fullorðinsaldri.