Ýmislegt um leiðsöguhunda

Leiðsöguhundar eru öflugt hjálpartæki fyrir blint og mikið sjónskert fólk og veita þeir notendum aukið frelsi og öryggi. Notandi leiðsöguhunds öðlast frelsi til þess að komast um í umhverfi sínu, jafnt innandyra sem utan. Hundarnir leiða notendur sína fram hjá hindrunum sem á vegi þeirra verða. Leiðsöguhundar eru ekki síður góðir félagar og mörg dæmi eru um að þeir hafi rofið félagslega einangrun notenda sinna og stuðlað að virkari þátttöku þeirra í samfélaginu.

Þjálfun leiðsöguhunda er afar sérhæfð og krefst ákveðinna aðstæðna. Því er mikilvægt að þeir sem umgangast leiðsöguhunda fari eftir þeim reglum sem settar eru um umgengi og aðbúnað þeirra

Leiðsöguhundar eru skilgreindir sem hjálpartæki samkvæmt reglugerð um úthlutanir hjálpartækja fyrir blinda og sjónskerta. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu hefur það hlutverk að úthluta leiðsöguhundum samkvæmt ákveðnu úthlutunarferli. Á umsóknarsíðunni má lesa um hvaða kröfur eru gerðar til umsækjaenda.

Um leiðsöguhunda

Leiðsöguhundar aðstoða blinda og sjónskerta einstaklinga við að komast leiðar sinnar á öruggan og sjálfstæðan hátt. Rétt eins og hvíti stafurinn er leiðsöguhundur skilgreindur sem hjálpartæki. Leiðsöguhundurinn er þjálfaður í því að:

  • forðast hindranir á gönguleið, bæði á jörðu og í höfuðhæð
  • hindra að notandinn hrasi um vegkanta eða tröppur
  • fara yfir umferðargötur á öruggan hátt
  • fylgja fjölda fyrirmæla sem notandinn gefur

Blindir og sjónskertir einstaklingar, sem hafa náð góðum tökum á notkun hvíta stafsins og hafa gott ratskyn út frá kennileitum og allskyns áreiti í umhverfinu, geta nýtt sér leiðsöguhund.

Frá hvolpi til leiðsöguhunds

Ræktun

Miðstöðin leitar reglulega að góðum hvolpum hjá ræktendum um allt land. Verið er að leita að ákveðnum eiginleikum sem góðir leiðsöguhundar fyrir blint og mikið sjónskert fólk þurfa að hafa til að bera, s.s. skapgerð og rólyndi.

Fósturfjölskylda

Um eða eftir átta vikna aldur flytja hvolparnir til fósturfjölskyldna þar sem þeir búa fyrsta árið. Á þessu fyrsta ári fer hundaþjálfari reglulega í heimsókn til fjölskyldnanna og veitir aðstoð og góðar leiðbeiningar um hundahald.

Prófun

Þegar hundarnir eru orðnir hálfs annars árs gamlir er kominn tími til að kanna hvort þeir séu efni í leiðsöguhund. Þá þurfa þeir að standast strangar heilbrigðiskröfur og fara í heilbrigðispróf hjá dýralækni.

Þjálfunarferlið

Næstu 6-8 mánuði gengur hundurinn í gegnum stranga þjálfun. Hundinum er þá kennt að þegar hann er með leiðsöguhundabeislið á sér er hann tveir metrar á hæð og tveir metrar á breidd. Þetta tryggir að hinn sjónskerti geti á öruggan hátt gengið framhjá hindrunum og forðast hættur.

Fornámskeið

Umsækjendur leiðsöguhunda taka þátt í vikunámskeiði. Þar fá þeir greinargóðar upplýsingar um leiðsöguhunda, þjálfunarferlið og umhirðu hundanna. Þá er farið vel í gegnum kosti þess og galla að hafa leiðsöguhund og þá vinnu sem það krefst.

Umsóknarferli

Samkvæmt reglugerð um úthlutanir hjálpartækja, auglýsir Miðstöðin úthlutun leiðsöguhunda fyrir hvert ár í senn. Þá fylla umsækjendur út eyðublað, sem fer til nefndar sem metur hvort viðkomandi uppfylli öll skilyrði til að sækja námskeið um leiðsöguhunda og fara í formlegt mat á hæfni og pörun við hund.

Áður en umsækjandi er paraður saman við hund er farið í gegnum umfangsmikið mats- og kynningarferli. Þar eru þarfir einstaklingsins betur skilgreindar og endanlegt mat lagt á getu hans til að fullnýta leiðsöguhund og mæta þörfum hundsins. Komi í ljós að umsækjandi hafi vilja og getu til að nýta sér leiðsöguhund er næsta skref að para saman mann og hund.

Eiginleikar, skapgerð og þarfir leiðsöguhunda eru ólíkar á milli hunda, rétt eins og eiginleikar fólksins sem notar þá eru ólíkir.

Leiðsöguhundar og réttindi þeirra

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga gefur út skírteini með úthlutun hvers leiðsöguhunds og leiðsöguhundar eru ávallt skráðir sem slíkir hjá sveitarfélagi þess notenda sem hundurinn er hjá.

Samkvæmt 19. gr. reglugerðar um hollustuhætti (nr. 941/2002) má notandi fara með leiðsöguhund á alla staði sem opnir eru almenningi. Í reglugerðinni segir jafnframt:
„Heimilt er fötluðu, blindu eða sjónskertu fólki að hafa með sér hjálpar-/leiðsöguhunda á gististaði, veitingastaði, í skóla, á snyrtistofur og hársnyrtistofur, heilbrigðisstofnanir, íþrótta- og baðstaði, fangelsi og samkomuhús. Hundurinn skal merktur sem hjálpar-/ leiðsöguhundur og hinn fatlaði skal hafa leyfi fyrir honum í samræmi við ákvæði í samþykktum einstakra sveitarfélaga. Heilbrigðisnefnd er heimilt, að fenginni beiðni hlutaðeigandi stofnunar að veita undanþágu til að halda hunda, ketti og önnur gæludýr á heilbrigðis- og meðferðastofnunum.“

Notandi á ekki að þurfa að borga undir leiðsöguhundinn þegar ferðast er með hann í samgöngutækjum (t.d. flugvél). Þegar ferðast er með leiðsöguhund, á hann ávallt að vera hjá notenda sínum.

Réttindi leiðsöguhunda í fjölbýli

Breytingar á lögum um fjöleignarhús voru samþykkt á Alþingi í apríl 2011. Sú breyting var gerð á lögunum að heimilt er að hafa leiðsöguhund í fjölbýli án þess að samþykki þurfi frá öðrum íbúum hússins. Í lögunum segir:

„Sé eigandi, eða annar varanlegur íbúi í hans skjóli, blindur eða fatlaður á annan máta þannig að hann þurfi á sérþjálfuðum leiðsögu- eða hjálparhundi að halda er honum heimilt að halda slíkan hund óháð fyrirmælum og takmörkunum laga þessara“.

Starfsævi leiðsöguhunda

Leiðsöguhundar eru yfirleitt tilbúnir til að hefja störf um tveggja og hálfs árs aldur. Hundarnir eru sérvaldir með tilliti til skapgerðar og hæfileika til að læra. Þegar grunnþjálfun lýkur eru aðeins þeir hundar sem þykja vænlegir til að ná árangri sem leiðsöguhundar þjálfaðir frekar. Meðalstarfsaldur þeirra er á milli 8 til 10 ár en sumir geta unnið í allt að 12 ár.

Að klappa leiðsöguhundi

Það má ekki klappa leiðsöguhundi þegar hann er að vinna. Þegar leiðsöguhundur er með beisli bendir það undantekningarlaust til þess að hann sé að vinna. Leiðsöguhundar eru mjög mannelskir og vilja gjarnan láta klappa sér. Hinsvegar eru þeir þjálfaðir til að viðhalda mikilli stillingu og sýna lágmarks viðbrögð við fólki og öðrum dýrum þegar þeir eru við störf.

Gott að hafa í huga:

  • Leiðsöguhundur er fyrst og fremst hundur
  • Leiðsöguhundur í beisli er í vinnunni
  • Fáið samþykki eiganda leiðsöguhunds áður en þið klappið honum
  • Ekki gefa leiðsöguhundum mat
  • Ef þú vilt aðstoða manneskju sem er með leiðsöguhund skaltu spyrja fyrst „get ég aðstoðað?“

Kostnaður við að fá og vera með leiðsöguhund 

Notendur sem fá leiðsöguhundi úthlutað, greiða ekki fyrir hundinn eða þjálfun hans. Þeir greiða hins vegar fóðurkostnað og almennt uppihald á hundinum. Hundarnir eru eign Miðstöðvarinnar og þess vegna á ábyrgð hennar. Í því felst að Miðstöðin sér um lækniskostnað og skráningar hjá sveitarfélögum.

Ábyrgðin að vera með leiðsöguhund

Öllum heimilisdýrum fylgir mikil ábyrgð og eru leiðsöguhundar þar engin undantekning. Vel starfandi leiðsöguhundi líður vel og er þá líkamlegum og tilfinningalegum þörfum hans mætt. Huga þarf vel að réttri fóðrun og umhirðu á feldi og klóm hundsins. Nauðsynlegt er að tryggja reglubundna og fjölbreytta útivist daglega. Eins er mikilvægt að hrósa hundinum reglulega, sýna honum hlýju og væntumþykju. Til að standa undir ábyrgð þeirri er fylgir því að eiga leiðsöguhund þarf notandinn að sinna ákveðnum verkefnum nánast undantekningarlaust. Það að sinna þessum verkefnum reynist þó yfirleitt jafn gefandi fyrir mann og hund.

Umsagnir um leiðsöguhunda

Leiðsöguhundurinn Exo hefur bætt líf Svanhildar Önnu Sveinsdóttur mikið en hann fékk hún vorið 2010. Hann er hennar hjálpartæki þegar hún þarf að komast á milli staða og gerir henni kleift að komast af án annarrar aðstoðar til að sinna sínum daglegu og félagslegu störfum.

„Samvinna okkar hefur gengið mjög vel, ég dáist að því hvað hann er mikill snillingur í sinni vinnu. Hjálpin sem hann veitir mér er gulls ígildi,“ segir Svanhildur ánægð. Svanhildur segist vera miklu meira úti eftir að hún fékk leiðsöguhundinn og kunningjar hennar segjast alltaf sjá hana alls staðar. „Hann er farinn að rata á þá staði sjálfur sem ég vil fara til. Ég segi bara „Bónus“ og þá fer hann með mig þangað. Hann er m.a.s. farinn að rata inni í búðinni. Líf mitt eftir að ég fékk Exo er ekki sambærilegt við það sem það var áður, hann er mér svo mikil hjálp.“ Hún segir leiðsöguhundinn vera fyrst og fremst hjálpartæki og að hann hafi sannað gildi sitt margsinnis. Hann er jafnframt vinur hennar og hún segir hann veita sér mikinn félagsskap.

„Samstarfið hefur gengið vonum framar og hann er ekki bara orðinn einn af fjölskyldunni heldur er hann orðinn að eftirlæti allrar stórfjölskyldunnar,“ segir alþingismaðurinn Helgi Hjörvar sem fékk leiðsöguhundinn X vorið 2009.

X var einn af fjórum leiðsöguhundum sem komu hingað til lands frá leiðsöguhundaskóla norsku blindrasamtakanna. Helgi segist hafa ákveðið það árið 1996, þegar hann var framkvæmdastjóri hjá Blindrafélaginu, að fá sér leiðsöguhund þegar hann væri alveg búinn að tapa sjón, en hann er með hrörnunarsjúkdóm í augum. „Síðan ákvað ég að það væri gott að fá leiðsöguhund á meðan ég hefði enn smá ratsjón til að það yrði auðveldara að læra á hundinn og átta sig betur á breyttum aðstæðum og aðlagast. Í björtu og reglulegu umhverfi hef ég enn ágæta ratsjón en hann hjálpar mér mikið þegar það er farið að skyggja og þegar eitthvað óvænt eða óreglulegt er í umhverfinu, eins og t.d. kassi á miðjum gangi eða barn að leika sér á gangstétt,“ segir Helgi. Hann nefnir það einnig að með hjálp X hafi hann aftur getað farið út að hlaupa sem honum finnst sérlega mikilvægt af því að hann var hættur að geta farið einn.

Spurt og svarað um leiðsöguhunda

Hvað er starfsævi leiðsöguhundsins löng?

Leiðsöguhundar eru yfirleitt tilbúnir til að hefja störf um 2 1/2 árs aldur. Hundarnir eru sérvaldir með tilliti til skapgerðar og hæfileika til að læra. Sem hvolpar eru þeir útsettir fyrir allskyns áreiti og þannig undirbúnir til að takast á við fjölbreyttar aðstæður sem þeir komast í kynni við þegar þeir hefja störf. Hlýðniþjálfun er vissulega mikilvæg. Þegar forþjálfun lýkur eru aðeins þeir hundar sem þykja vænlegir til að ná árangri sem leiðsöguhundar þjálfaðir frekar. Meðalstarfsaldur þeirra er á milli 8 til 10 ár en sumir geta unnið í allt að 10 ár.

Mega leiðsöguhundar fara hvert sem er?

Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti (nr. 941/2002) má starfandi leiðsöguhundur fara með notanda sínum á alla þá staði sem opnir eru almenningi. Má þar nefna allar verslanir, veitingastaði, gististaði, sundstaði, íþróttahús, leikhús, strætisvagna og flugvélar. Notandi á ekki að þurfa að borga undir hundinn þegar ferðast er með hann í samgöngutækjum (t.d. í flugvél) og skal hundurinn ávallt fylgja notanda, og má ekki  vera settur í farangursgeymslu.

Má klappa leiðsöguhundum?

Það má ekki klappa leiðsöguhundi þegar hann er að vinna. Þegar leiðsöguhundur er með beisli bendir það undantekningarlaust til þess að hann sé að vinna. Þegar hann er aðeins í ól og ekki með beisli má sennilega klappa honum, en þá er engu að síður góður siður að fá leyfi til þess hjá notandanum. Leiðsöguhundar eru mjög mannelskir og vilja gjarnan láta klappa sér. Hinsvegar eru þeir þjálfaðir til að viðhalda mikilli stillingu og sýna lágmarks viðbrögð við fólki og öðrum dýrum þegar þeir eru við störf.

Eru leiðsöguhundar gáfaðari en aðrir hundar?

Leiðsöguhundar eru valdir með ákveðna eiginleika í huga. Þeir eru húsbóndahollir og láta vel að stjórn. Þeir eru þó ekki endilega gáfaðari en aðrir hundar en þeir eru vissulega þjálfaðri. Mikilvægt er að hafa í huga að góður leiðsöguhundur tekur fáar sjálfstæðar ákvarðanir. Hann fylgir fáum en afar mikilvægum reglum, svo sem að ganga í ákveðinni fjarlægð frá vegkanti, fara í kringum hindranir og fylgja ekki eðlishvötum sínum um að veita öðrum dýrum eða lykt athygli þegar hann er við vinnu. Hann fylgir fáum og einföldum fyrirmælum, til dæmis um að taka næstu hægri eða vinstri beygju eða að stöðva við næstu gatnamót, bekk eða ákveðnar dyr þegar hann nálgast hús. Ákvarðanir um hvert skal farið og hvernig skuli komast þangað eru alfarið í höndum notandans. Notandi leggur ekki af stað frá heimili sínu og biður hundinn um að fara fyrst í mjólkurvörudeildina í kjörbúðinni með viðkomu í pósthúsinu og stuttu innliti hjá vini sínum á leiðinni heim. Notandinn leiðbeinir hundinum nánast hvert skref leiðarinnar með hvatningu og fyrirmælum.

Eru leiðsöguhundar alltaf í vinnunni?

Leiðsöguhundar eru mjög agaðir og hlýðnir þegar þeir eru með beislið og í vinnunni. Þess á milli eru þeir eins og eðlilegir heimilishundar. Þeir hafa mikið gaman af því að hlaupa frjálsir um, þefa eða leika sér við aðra hunda og við eigendur sína. Vissulega eru leiðsöguhundar mjög húsbóndahollir. Þar sem notandi og hundur verja miklum tíma saman myndast yfirleitt sterk vinatengsl. Notendum þykir yfirleitt ákaflega vænt um hund sinn og margir segja hann vera sinn besta og tryggasta vin. Í þjálfun hundsins og stuðningi hundaþjálfara við notendur er lögð rík áhersla á vinasambandið við hundinn. Mikilvægt er að notandi sé fær um að sýna mikla ákveðni og fastheldni við vissar aðstæður en mikla hlýju og kærleik við aðrar. Án vinasambandsins er vinnusambandið ómögulegt til langs tíma. Ef leiðsöguhundur býr með notanda sem á fjölskyldu er mikilvægt að notandinn sjálfur komi fyrst og fremst að ánægjulegustu stundunum í lífi hundsins, svo sem í kringum matargjöf, frjálsa útivist og umhirðu.

Fylgir því mikill kostnaður að fá og vera með leiðsöguhund?

Notendur sem fá leiðsöguhundi úthlutað, greiða ekki fyrir hundinn eða þjálfun hans. Þeir greiða hins vegar fóðurkostnað og almennt uppihald á hundinum. Hundarnir eru eign Miðstöðvarinnar og þess vegna á ábyrgð hennar. Í því felst að Miðstöðin sér um dýralækna- og lækniskostnað og skráningar hjá sveitarfélögum. 

Fylgir því mikil ábyrgð að vera með leiðsöguhund?

Öllum heimilisdýrum fylgir mikil ábyrgð og eru leiðsöguhundar þar engin undantekning. Vel starfandi leiðsöguhundi líður vel og er þá líkamlegum og tilfinningalegum þörfum hans mætt. Huga þarf vel að réttri fóðrun og umhirðu á feldi og klóm hundsins. Nauðsynlegt er að tryggja reglubundna og fjölbreytta útivist daglega. Eins er mikilvægt að hrósa hundinum reglulega, sýna honum hlýju og væntumþykju. Til að standa undir ábyrgð þeirri er fylgir því að eiga leiðsöguhund þarf notandinn að sinna ákveðnum verkefnum nánast undantekningarlaust. Það að sinna þessum verkefnum reynist þó yfirleitt jafn gefandi fyrir mann og hund.

Má hafa leiðsöguhund í fjölbýli?

Breytingar á lögum um fjöleignarhús (1994 nr. 26) voru  samþykkt á Alþingi í apríl 2011. Sú breyting var gerð á lögunum að heimilt er að hafa leiðsöguhund í fjölbýli án þess að samþykki þurfi frá öðrum íbúum hússins. Eftirfarandi grein var bætt inn í lögin:

„Sé eigandi, eða annar varanlegur íbúi í hans skjóli, blindur eða fatlaður á annan máta þannig að hann þurfi á sérþjálfuðum leiðsögu- eða hjálparhundi að halda er honum heimilt að halda slíkan hund óháð fyrirmælum og takmörkunum laga þessara. Slíkur hundur skal vera sérþjálfaður og skráður sem leiðsögu- eða hjálparhundur og fyrir skulu liggja vottorð sérfræðinga um þörf hans og þjálfun. Skulu gögn um það afhent húsfélaginu ásamt fróðleik og leiðbeiningum um slíka hunda, þjálfun þeirra og hvernig beri að umgangast þá. Stjórn húsfélagsins skal láta þinglýsa yfirlýsingu um að leiðsögu- eða hjálparhundur sé í húsinu. Einnig skal stjórnin láta þess getið í yfirlýsingu húsfélags í tengslum við sölu íbúða. Sé eigandi eða einhver í hans fjölskyldu með ofnæmi fyrir hundum á svo háu stigi að sambýliðvið leiðsögu- eða hjálparhund sé óbærilegt og læknisfræðileg gögn staðfesta það skal kærunefnd húsamála leita lausna að fengnu áliti ofnæmislækna, leiðsögu- eða hjálparhundaþjálfara og sérfræðinga á öðrum sviðum ef því er að skipta.“