Stefna, hlutverk og gildi

Stefna

Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin er ábyrg og framsækin stofnun sem veitir framúrskarandi heildstæða þjónustu með jafnrétti í fyrirrúmi. Miðstöðin  veitir hæfingu og endurhæfingu sem miðar að þátttöku og sjálfstæði notenda í daglegu lífi sem byggist á óskum einstaklingsins. 

Hlutverk

Markmið Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu er að auka möguleika þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu til virkni og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra, með áherslu á stuðning til náms, sjálfstæðs heimilishalds, virkra tómstunda og atvinnuþátttöku.

Stofnunin skal veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar. Jafnframt skal hún þjóna hlutverki þekkingarmiðstöðvar sem aflar og miðlar þekkingu á aðstæðum notenda í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum.

Stofnunin skal hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru blindir eða sjónskertir og gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Hún skal einnig sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.

Stofnunin veitir einstaklingum með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og aðstandendum þeirra þjónustu til samræmis við þau verkefni sem talin eru upp í 4. gr. á grundvelli fötlunar þeirra. Þjónustan er einungis á þeim sérfræðisviðum sem stofnunin býr yfir og er veitt í samstarfi við aðra aðila og stofnanir sem veita einstaklingum með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu þjónustu.  

Gildi

Virðing

Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin leggur áherslu á að samvinna við notendur sé í fyrirrúmi og viðhorf þeirra og óskir séu virtar.
Starfsmenn bera virðingu hver fyrir öðrum og stuðla þannig að góðri liðsheild.

 

Þekking

Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin, með þekkingu að leiðarljósi, stuðlar að fordómaleysi, fagmennsku, frumkvæði og framsækni.

 

Jafnrétti

Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin vinnur að því að skapa jöfn tækifæri fyrir alla í námi, vinnu og tómstundum og jafnt aðgengi til þátttöku í samfélaginu.

 

Þjónusta

Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin leitast við að veita bestu mögulegu þjónustu fyrir alla sem til hennar leita. Framúrskarandi þjónusta með þarfir notenda að leiðarljósi er kjarninn í starfseminni.

 

Framsækni

Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin vinnur að stöðugum umbótum og leitar tækifæra til framfara og nýjunga og samvinnu við einstaklinga og fagaðila.