Sjónathugun

Þjónusta hjá sjónfræðingum og augnlækni Sjónstöðvarinnar er veitt þeim sem eru:

  • með sjón sem er minni en 30% á betra auga, með venjulegum sjónglerjum, og sjónsvið innan við 20 gráður
  • að glíma við erfiðleika vegna sjónskerðingar t.d. við lestur 10 punkta leturs með venjulegum sjónglerjum, við athafnir daglegs líf og umferli
  • með sjón sem er minni en 5% með venjulegum sjónglerjum og innan við 10 gráðu sjónsvið

Í athugun á sjón og sjónnýtingu felst meðal annars:

  • athugun á augnbotnum, sjóntaugum, augnhreyfingum og sjónlagsgöllum.
  • mæling á sjónskerpu. Sjónskerpa er mælikvarði á getu augans til að sundurgreina smáatriði. Notuð eru viðurkennd sjónprófunarspjöld og töflur, bæði til athugunar á sjón í fjarlægð sem og nær.
  • mæling á sjónvídd. Með orðinu sjónvídd er átt við það svæði sem viðkomandi sér í einu án þess að hreyfa til augu eða höfuð.
  • könnun á blæbrigðanæmi. Blæbrigðanæmi er hæfileiki augans til að greina misgrá tákn/rendur. Það skiptir ekki síst máli þegar ferðast er um í rökkri.
  • athugun á litaskynjun, þ.e. hæfileikanum til að greina liti og litaafbrigði.
  • könnun á hæfileika til ljósaðlögunar, þ.e. hversu fljótt viðkomandi getur aðlagast myrkri og birtu.

Sjónnýting byggir á notkun allra þeirra þátta sem skráðir eru hér að ofan. Auk þess er metinn hæfileikinn til að geta unnið úr þessum þáttum sér til gagns, þ.e. hvernig heilinn vinnur úr ljósáreiti sem berst til miðtaugakerfis. Slík úrvinnsla nær yfir atriði eins og sjónskerpu, birtutemprun, litasamsetningar, rýmisskynjun, samhæfingu augna og handa og stjórn hreyfinga. Tenging við önnur skynfæri skiptir auk þess máli til að skilja betur merkingu sjónáreitis.

Augnlæknaþjónusta

Þjónustan felst meðal annars í því að meta stig og orsakir sjónskerðingar.

Stuðst er við tilmæli Alþjóða heilbrigðismálastofnunar (WHO).

Upplýst er um nýtingu skertrar sjónar og hvers vænta má í framtíðinni hvað hana varðar.

Haldið er utan um skráningu blindra, sjónskertra og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Miðlað er upplýsingum um fjölda sjónskertra og orsakir sjónskerðingar til þeirra sem málið varðar, svo sem ráðuneytis, landlæknis, nema og fræðimanna.

Einnig gefur augnlæknir út þau vottorð sem falla undir verksvið Sjónstöðvarinnar.

Sjóntækjaþjónusta

Þjónusta Sjónstöðvarinnar felst í mati á þörf fyrir sjónhjálpartæki. Sjónhjálpartæki eru notuð þegar bestu venjulegu gleraugu eða snertilinsur hjálpa ekki lengur ein og sér. Þau hafa flest öll það hlutverk að stækka með einum eða öðrum hætti það sem horft er á og framkalla þannig betri mynd.

Dæmi um sjónhjálpartæki eru t.d. sterk lesgleraugu, stækkunargler til lestrar og nærvinnu, sjónaukar og kíkisgleraugu til að horfa lengra frá sér. Einnig er um að ræða gleraugu og linsur fyrir börn sem búið er að fjarlægja augasteina úr. Þessi sjónhjálpartæki er bæði hægt að nota ein og sér eða saman, allt eftir því hvernig sjóninni er háttað. Þá eru prófuð sérstök lituð gleraugu til ljóssíunar fyrir þá sem eru birtufælnir en hafa ekki gagn af venjulegum sólgleraugum.

Sjónfræðingar Sjónstöðvarinnar aðstoða við mælingar og útvegun sjónhjálpartækja.