Heilatengd sjónskerðing – C.V.I.

Auganu má skipta í þrjá hluta:

• Fremri hluta sem brýtur ljósið sem kemur inn (hornhimna og augasteinn)
• Ljósnæma himnu sem þekur augnbotninn (sjóna)
• Samansafn af taugaþráðum (boðleiðir) sem ganga til heilans (sjóntaugin)

Það sem við sjáum verður að mynd í heilanum. Rafboð berast frá augunum til heilans og gera okkur kleift að sjá.

Hvað er heilatengd sjónskerðing (C.V.I.)?

Heilatengd sjónskerðing, eða CVI (cortical/cerebral visual impairment), er sjónskerðing sem orsakast af skemmdum á sjónbraut og/eða sjónúrvinnslustöðvum í heilanum. Útlit augna er yfirleitt eðlilegt en stundum má sjá leitandi augnhreyfingar eða rangstöðu augna. 

Hvaða áhrif hefur C.V.I. á sjón barns?

Í flestum tilvikum gera börnin sér ekki grein fyrir að sjónupplifun þeirra geti verið frábrugðin sjónupplifun annarra þar sem þau þekkja ekki annað. Áhrif skaðans á sjónbraut og/eða sjónúrvinnslustöðvar heilans eru mismunandi eftir einstaklingum. Því meiri sem skaðinn er, því meiri áhrif hefur hann á sjónina. Áhrifin geta birst hjá börnunum á eftirfarandi hátt:

 • Erfiðleikar í umferli, t.d. að rata á milli staða.
 • Skert dýptarskynjun, sem hefur áhrif á hvernig þau nálgast hluti.
 • Erfiðleikar við að þekkja hluti, myndir og andlit.
 • Sjónskerðing.
 • Sjónsvið getur verið takmarkað þannig að þau sjá ekki það sem er til hægri eða vinstri, fyrir ofan og/eða fyrir neðan þau.
 • Hjá sumum börnum er miðjusjón best en fleiri sjá betur með jaðarsjón. Þess vegna getur verið erfitt að átta sig á hvað þau eru að horfa á.
 • Ljósfælni, barninu getur liðið illa í mikilli birtu, en um þriðjungur barna með CVI er ljósfælinn.
 • Erfiðleikar við að aðgreina bakgrunn frá forgrunni; þá er betra að sýna þeim einn hlut í einu.

Það getur verið mismunandi eftir börnum hvaða þættir valda erfiðleikum. Sjónin getur líka verið mismunandi frá degi til dags og geta þreyta, veikindi eða álag haft áhrif.

Hvað er til ráða?

Ef barnið notar gleraugu á að hvetja það til að nota þau. Ennþá hefur ekki fundist nein læknisfræðileg meðferð sem getur bætt úr skemmdum sem hafa orðið á sjónbraut eða sjónúrvinnslustöðvum heilans.

Hvað þarf að hafa í huga?

 1. Kynntu þér hvað það er sem einkennir sjónskerðingu barnsins og að hverju þarf að huga í umhverfi þess.
 2. Sjónörvun með ljósi og skærum hlutum getur hjálpað ungum börnum að bæta sjónnýtingu.
 3. Í skólanum ætti barnið alltaf að sitja sem næst kennaranum og töflunni og snúa baki eða hlið að glugga til að forðast mikla birtu.
 4. Skynjun og aðgreining lita er yfirleitt í góðu lagi og mikilvægt að nota sterka liti og huga að því að hafa góðar andstæður í litavali.
 5. Oft nýtist sjónin betur þegar horft er á það sem hreyfist í umhverfinu þar sem sjónúrvinnslustöðin sem túlkar hreyfingu hefur ekki skemmst. Sum börn hreyfa augun til að sjá betur hluti sem eru kyrrir. Erfitt getur verið að greina hluti sem hreyfast of hratt.
 6. Gott er nota stærra letur í bókum og ljósritum með skýrum myndum og látlausum bakgrunni.