Athafnir daglegs lífs (A.D.L.)

Markmið með kennslu í athöfnum daglegs lífs er að auka sjálfstæði og færni notanda.

Í samvinnu við sérfræðinga Sjónstöðvarinnar er fundin lausn á vandamálum tengdum sjónskerðingu. Lausnin getur falist í að nota sérstök hjálpartæki og læra tækni við að gera hlutina á nýjan hátt.

Meðal þess sem sérfræðingar Sjónstöðvarinnar veita aðstoð við er:

  • matargerð
  • borðhald
  • þvottur
  • þrif
  • persónuleg umhirða
  • skipulag
  • innkaup
  • skrift og lestur

Einnig eru veittar ráðleggingar um lýsingu og litaskil ásamt vali á tækjum.

Til þess að árangur náist þarf viðkomandi að vinna með sérfræðingum í að nota hjálpartæki rétt og beita vinnubrögðum sem kennd eru.

Aðgengi

Til að blindir, sjónskertir og einstaklingar með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu geti lifað sjálfstæðu lífi og stundað fjölbreytta þátttöku í námi og starfi og leik er gott aðgengi mikilvægt. Gott aðgengi vísar til þess að auðvelt sé fyrir alla að ferðast um jafnt innandyra sem utan. Þetta á til dæmis við um skýrar merkingar, góð litaskil og lýsingu. Aðgengi getur líka átt við upplýsingar á rafrænu formi. Einn liður í þjónustu Sjónstöðvarinnar er að leggja mat á aðgengi fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og veita ráð um úrbætur. Aðgengisúttektir eru gerðar til að kanna hvernig bæta megi aðgengi í byggingum og við aðkomu að þeim s.s. skólum, vinnustöðum og verslunum. Ráðleggingar varðandi hönnun á nýjum byggingum á svæðum eru einnig veittar.

Ýmis lög og reglugerðir hafa verið innleiddar til að tryggja jafnt og öruggt aðgengi fyrir allt fólk í samfélaginu. Í lögum nr. 144 frá 1998 er til dæmis kveðið á um umferðarleiðir í byggingum. Þar segir í grein 199.1 að tryggja eigi „góðar og öruggar umferðaleiðir við hæðaskil og aðgang fyrir alla inn í og fyrir innan bygginga“. Grein 199.2 kveður á um að í þeim byggingum sem almenningur hefur aðgang að skulu umferðaleiðir þannig gerðar að hreyfihamlaðir í hjólastól, sjónskertir og aðrir sem eiga erfitt með að rata geti notað þær.

Til að tryggja að lögum um aðgengi fyrir alla sé framfylgt getur verið nauðsynlegt að fá faglega aðstoð vegna aðgengis fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Slík fagleg ráð og úttektir má sækja til Sjónstöðvarinnar.

Sérfræðingar Sjónstöðvarinnar geta einnig veitt upplýsingar um leiðir til að uppfylla þarfir blindra, sjónskertra og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu varðandi aðgengi að upplýsingum.

Fjölskylda og aðstandendur

Þjónustan er sniðin að þörfum fjölskyldu og aðstandenda. Þjónustan tekur mið af einstaklingnum og sjónskerðingu hans. Lögð er áhersla á ráðgjöf, stuðning og samstarf. Leitast er við að skapa aðstæður í umhverfi fjölskyldunnar sem aðgengilegastar fyrir sjónskerta einstaklinginn. Þjónusta við aðstandendur felst meðal annars í upplýsingamiðlun um sjónskerðingu og afleiðingar hennar í daglegu lífi. Lögð er áhersla á fræðslu um mismunandi orsakir sjónskerðingar og blindu, hvernig er að lifa með sjónskerðingunni og hvað er hægt að gera til að aðstoða og styðja einstaklinginn. Félagsráðgjafi er mikilvægur í allri þjónustu við fjölskyldur og aðstandendur.

Vinnustaðurinn

Sjónskertir og blindir einstaklingar eru við vinnu í mörgum og fjölbreyttum störfum í samfélaginu. Sjónstöðin veitir leiðbeiningar og ráðgjöf til notenda þjónustu og vinnuveitenda um aðlögun vinnuumhverfis. Veittar eru leiðbeiningar varðandi staðsetningu á vinnuaðstöðu og lýsingu, aðgengi fyrir alla og ráðleggingar varðandi hjálpartæki. Einnig er þjálfun í umferli um vinnustaðinn mikilvægur þáttur.

Bæklingar og fróðleikur

Stuðningur við eldra fólk með sjónskerðingu (pdf)

Áttun og umferli, ýmsar upplýsingar og fróðleikur (pdf)

Verkefni til að bæta félagsfærni sjónskertra einstaklinga á fullorðinsaldri (pdf)

Leiðsögn fyrir sjónskerta kennara um kennslu á netinu (pdf)

A.D.L. – matur og matreiðsla (textafærsla á vef).

A.D.L. – umhverfið og ferðalög (textafærsla á vef).

.