Stundum er hægt að finna leiðir til að gera matreiðslu auðveldari. Hér eru nokkur einföld ráð til hagræðingar við að skera, hella, baka, steikja og mæla. 

Að skera: 

  • Gúrku er gott að skera með ostahníf. 
  • Þegar ávextir og grænmeti er afhýtt er hægt að nota „skrælara“ og gott er að hafa eldhúsblað undir svo auðvelt sé að koma afskorningunum í ruslið. 
  • Þegar skorið er með hnífi er best að beygja fingurna þannig að hnúarnir nemi við hnífsblaðið. Þá verða fingurnir síður fyrir hnífnum. 
  • Best er að skera tómata með lítilli sög; skera tómatinn fyrst í tvennt og láta skurðinn snúa niður þegar skorið er í sneiðar. 
  • Stórir beittir hnífar eru oft betri en litlir hnífar. 

Að hella: 

  • Látið stút könnunnar nema við glas- eða bollaröndina á meðan hellt er.  Færið ílátið upp eftir könnunni þar til þið finnið stútinn, haldið ílátinu þar og hallið könnunni. 
  • Til eru skynjarar sem segja til um hvenær bollinn eða glasið er hæfilega fullt. 
  • Þegar blanda skal saman heitum og köldum vökva borgar sig að hella kalda vökvanum fyrst og svo þeim heita, t.d. kaffi með mjólk. 

Að baka og elda í ofni: 

  • Best er að setja ofngrindina á réttan stað áður en kveikt er á ofninum; gott er að setja matinn í kaldan ofninn. 
  • Ferköntuð, djúp föt er auðveldara að eiga við en kringlótt, grunn form. 
  • Gott er að breiða klút yfir hrærivélina svo ekki slettist upp úr skálinni. 
  • Grillvettlingar eru öruggari en pottaleppar. 
  • Hægt er að fá ódýrar klukkur sem stilltar eru til að segja til um hvenær kakan er bökuð eða maturinn eldaður. 
  • Til eru áhöld til að skilja egg. 
  • Mældu lengd vísifingurs eða lengdina frá útréttum þumli til útrétts litla fingurs. Þá hefur þú alltaf málband við höndina. 

Að steikja: 

Panna með hárri brún og loki er þægileg að steikja á. Það má líka steikja í potti. Gott getur verið að raða á pönnuna eftir klukkukerfi (kl.12, 3, 6 og 9). 
Steikarspaði eða klemmuspaði eru hentug tæki til að snúa matnum og taka hann af pönnunni. 
Hægt er að setja tannstöngla í matinn og taka þá úr þegar matnum er snúið. Þá gleymist ekki að snúa neinum bitanna. 
Þegar egg eru spæld er gott að nota steikarhring. Eggið er brotið í bolla og síðan hellt í hringinn. 
Hægt er að nota handfangið á hringnum til að halda við þegar eggið er tekið af pönunni með spaða. 

Að elda í potti: 

  • Þungir pottar með þykkum botni eru stöðugri á eldavélarhellu. Setjið pottinn á kalda eldavélarplötu svo hægt sé að finna hvort hann sitji rétt á plötunni og þeki hana alla. 
  • Notið frekar of stóra potta en of litla svo auðveldara sé að hræra án þess að sullist úr þeim. 

Að mæla: 

  • Hægt er að fá eldhúsvogir með skýrum stöfum, einnig talandi vogir. 
  • Gott er að eiga bæði desilítramál og ½ dl-mál því stundum er erfitt að lesa af mæliglasinu. 
  • Hægt er að nota fingurna sem viðmið þegar mælt er af smjörstykki. 

Að matast: 

  • Ljós matur sést betur á dökkum diski og dökkur matur á ljósum. Gott getur verið að koma sér upp kerfi við að raða á diskinn, t.d. má nota klukkuaðferðina (kl.12, 3, 6 og 9), áttirnar hægri eða vinstri, að og frá o.s.frv. 
  • Hnífapör og glös er betra að hafa alltaf á sama stað við diskinn. 
  • Hægt er að setja eitt horn servíettu undir diskinn svo ekki fari neitt niður. 

Ýmis nytsamleg ráð:

  • Gott er að blanda grænmetissalat í plastpoka. 
  • Þægilegt er að hræra egg í hristiglasi.
  • Best er að nota dökkt skurðarbretti til að skera ljósan mat, t.d. fisk og ljóst skurðarbretti fyrir dökkan mat, t.d. kjöt. 
  • Þegar ísmolar eru losaðir úr ísmolaboxi er gott að hafa boxið í plastpoka svo molarnir fari ekki á flakk á borðinu. 
  • Bökunarpappír situr kyrr á bökunarplötu ef örlitlu vatni er úðað á plötuna fyrst. 
  • Gott er að merkja hitastillinn á eldavélinni með upphleyptum merkjum sem hægt er að þreifa á. 
  • Ef steikt er í brauðmylsnu eða hveiti er gott að hrista kryddið saman við í plastpoka. 
  • Auðveldara er að sjá diskinn ef hann er í öðrum lit en dúkurinn/borðið. 
  • Lituð glös sjást betur en glær.