Hér er stutt yfirlit yfir þau verkefni sem Miðstöðin hefur tekið þátt í.
Print3D (2017-2019)
Tilgangur verkefnisins er að þróa kennsluleiðir fyrir þrívíddarprentun, með sérstakri áherslu á kortagerð. Mennta- og menningarmálastofnun Valencia-héraðs á Spáni leiðir verkefnið, en aðrir þátttakendur eru spænska fyrirtækið BQ sem framleiðir m.a. þrívíddarprentara og farsíma, CERB (Centre of education and rehabilition for the blind) á Grikklandi, Look at me, einkafyrirtæki sem þjónustar blinda og sjónskerta, frá Lettlandi, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð frá Íslandi, auk fimm grunnskóla frá Spáni og Grikklandi. Stærsta hlutverk okkar á Miðstöðinni í þessu verkefni er að búa til kennslubók og leiðbeiningahefti um þrívíddarprentun bæði fyrir kennara og nemendur.
Vefur Print3D – Print3D á Twitter – Print3D á Facebook
Sound of Vision (2015-2019)
Verkefnið miðar að því að búa til skynjunarbúnað fyrir blinda einstaklinga til að auðvelda þeim að komast leiðar sinnar. Hugmyndin er að tækið gefi upplýsingar um umhverfi, annars vegar með hljóði og hins vegar með snertingu. Samstarfsaðilar erlendis eru hátæknifyrirtæki og háskólar í Póllandi, Ungverjalandi, Rúmeníu og Slóveníu. Hér á landi eru það Þjónustu- og þekkingarmiðstöð, og sálfræðideild, iðnaðar- og vélaverkfræðideild og tölvunarfræðideild sem koma að verkefninu fyrir hönd Háskóla Íslands.
Vapet-Vip (2016-2019)
Verkefnið miðar að því að búa til rafrænt kennsluefni fyrir fagfólk í endurhæfingu og þjálfun sjónskertra. Verkefnið stóð yfir frá október 2016 fram til mars 2019. Átta stofnanir frá sjö Evrópulöndum tóku þátt; Íslandi, Portúgal, Þýskalandi, Ítalíu, Búlgaríu, Frakklandi og Spáni. Notað var fyrirkomulag er nefnist Virtual Academy við gerð efnisins.
iExpress (2016-2018)
Markmið verkefnisins er að safna og miðla þekkingu um þróun og nýjungar í notkun hjálpartækja fyrir MDVI notendur. Markhópurinn eru kennarar og fagfólk sem vinnur með MDVI notendum og einnig foreldrar barna sem eru MDVI. Auk Íslands taka þátt í verkefninu stofnanir frá Hollandi, Spáni og Ungverjalandi. Verkefnið er leitt af Visio í Hollandi. Allir þátttakendur eru meðlimir í Enviter og MDVI Euronet.
Helstu áherslur verða að miðla á milli stofnana og Evrópulanda þeim námsskrám, kennsluaðferðum og upplýsingum um notkun hjálpartækja sem til eru fyrir MDVI notendur. Þá verður hollensk námskrá þýdd á ensku og deilt meðal þátttakenda sem munu meta efnið með viðtölum og prófunum við fagfólk og MDVI notendur. Endanlegt markmið verkefnisins er að til verði evrópsk námskrá um notkun hjálpartækja fyrir MDVI notendur og innleiðing slíkrar námskrár.
Teach CVI
Teach CVI er samvinnuverkefni fagfólks frá nokkrum Evrópulöndum sem Þjónustu- og þekkingarmiðstöð stýrir. Verkefnið miðar að því að fagfólk með sérþekkingu á heilatengdri sjónskerðingu hjá börnum, vinni saman að þróun fræðslu- og kennsluefnis og matstækja.
Hér á landi koma tvær stofnanir að verkefninu, Miðstöðin og Greiningar- og ráðgjafamiðstöð ríkisins. Dr. Roxana Cziker, sérfræðingur í greningu sjónskerðingar hjá börnum og Estella Björnsson, fagstjóri í sjónfræði, eru fulltrúar Miðstöðvar í verkefninu og leiða verkefnið og Solveig Sigurðardóttir barnalæknir tekur þátt fyrir hönd Greiningar- og ráðgjafastöðvar ríkisins.
Erlendir samstarfsaðilar eru: Háskólinn í Leuven í Belgíu, Positive Eye sem er breskt ráðgjafarfyrirtæki sem sérhæfir sig í þjálfun fagfólks sem starfar með blindum og sjónskertum börnum, Blindvision sem er írskur skóli fyrir blind og sjónskert börn, Konunglegi blindraskólinn í Edinborg í Skotlandi og sænsk ríkisstofnun, Specialpedagogiska skolmyndigheten, sem sinnir börnum með fötlun.
VISAL (2013-2014)
Markmið verkefnisins er að þróa kennsluaðferðir og koma til móts við þarfir sjónskertra eldri borgara.
Slökkvilið
Námskeiðið „We are also blind in smoke“ var haldið í Búdabest í nóvember 2011. Tveir adl og umferliskennarar frá Miðstöðinni sóttu námskeiðið, Sabína Steinunn Halldórsdóttir og Vala Jóna Garðarsdóttir ásamt tveimur slökkviliðsmönnum frá SHS, Herði Jóhanni Halldórssyni og Óla Ragnari Gunnarssyni. Á námskeiðinu var kennd tækni sem miðar að því að nýta hvíta stafinn í reykköfun. Að námskeiði loknu héldu þessir fjórir þátttakendur áfram með verkefnið og heimfærðu yfir á íslenskar aðstæður. Haldin voru átta námskeið fyrir um hundrað starfsmenn SHS og stóð hvert námskeið yfir í tvo daga. Áætlað er að hvíti stafurinn verði eitt af þeim hjálpartækjum sem SHS mun nýta sér í framtíðinni til viðbótar þeim tækjum sem notuð eru í dag. Áhugi er fyrir því að nýnemar fái kennslu í notkun hvíta stafsins svo og kennslu fyrir slökkviliðsmenn á landsbyggðinni.
Grein um slökkvilið í Víðsjá (pdf, opnast í nýjum glugga)
eVision 55+
eVision55+ er ætlað til að hjálpa fólki að viðhalda lífsgæðum þrátt fyrir að missa sjón. Það miðar að því að hvetja fullorðið fólk til þess að vera félagslega virkt og víkka sjóndeildarhring sinn.
Efni sem tekið er fyrir á vefsíðum eVision55+ varðar athafnir daglegs lífs fyrir fólk sem verður sjónskert á efri árum. Auk þess er sagt frá því hvar hægt er að fá upplýsingar um aðstoð, hvernig hægt er að nota vefinn til þess að nálgast efni um félagsleg tengsl, opinberar upplýsingar og félagsleg samskipti á netinu. Efni sem tekið er fyrir er sérstaklega ætlað fólki sem er eldra en 55 ára. Efnið er hannað þannig að hægt sé að afla sér kunnáttu á netinu með gagnvirkum hætti og er sérstaklega gert fyrir sjónskerta.
Með eVision55+ er stefnt að því að auka hæfni fólks, 55 ára og eldri með skerta sjón, til þess að vera virkir notendur á netinu. Þar er meðal annars hægt að læra hvernig:
- má bæta sér upp sjóntap
- hægt er að bjarga sér í daglegu lífi með skerta sjón
- hægt er að aðlaga tölvuna með tilliti til sjónskerðingar hvers og eins
- hægt er að nýta sér netið
- hafa má samband við skemmtilegt fólk
- fá má holl ráð hjá sérfræðingum
J.O.B.S. MDVI
JOBS MDVI er Leonardo verkefni, sem er evrópskt styrktarkerfi, en það er styrkt af Menntunaráætlun Evrópusambandsins. JOBS MDVI stendur fyrir: “Training for Professionals working with individuals with multiple disabilities and visual impairment on finding jobs and opportunities that benefit society”. Á íslensku gæti þetta útlagst sem: “Þjálfun starfsmanna sem vinna með sjónskertum einstaklingum með viðbótarfötlun til að finna störf og tækifæri við hæfi”. Markmið verkefnisins er að skoða þjálfunarmöguleika fagfólks á þessu sviði sem og að þróa hugmyndafræði eða aðferðir sem munu nýtast sjónskertum einstaklingum með viðbótarfatlanir hvar sem þeir eru staddir í lífinu. Hingað til hefur reynst erfitt í flestum, ef ekki öllum Evrópulöndunum að finna vinnu eða dagúrræði við hæfi þessara einstaklinga. Það er því mikilvægt að starfsfólk og fagaðilar sem vinna með einstaklingum sjái tækifæri en ekki hindranir í því að koma fólki með sjónskerðingu út á vinnumarkað eða í dagúrræði. Miðstöðin leiðir verkefnið og stýrir. Ætlunin er að fá fram upplýsingar um bestu möguleg vinnubrögð og tækifæri sem nýtist fagfólki í vinnu með blindum/sjónskertum einstaklingum með viðbótarfötlun. Mikil breidd er í verkefnahópum þar sem löndin senda hver um sig ólíka fagaðila og stofnanir til að kynna sín verk. Verkefninu er skipt niður í fjögur megin þemu:
- Vinnumiðlun/vinnuþjálfun
- Dagúrræði
- Sjálfshjálp
- Tækni
Í hverju þema er leitast við að finna leiðir og þjálfunarmöguleika fyrir starfsfólk og fagaðila til að efla sig á því sviði. Þannig getur það fær þekkinguna heim í eigið land og umhverfi. Verkefnahópurinn leitast á endanum við að styðja við það sem fram kemur í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar stendur að sjónskert fólk með viðbótarfötlun fái mestu möguleika til atvinnuþátttöku, dagúrræða, samskipta og hæfni til sjálfshjálpar í sínu samfélagi.
ACTIVE (2006-2009)
ACTIVE verkefnið (Active and Creative Transition for Inclusion through Vocational Training and Education) var þriggja ára evrópskt samstarfsverkefni um menntun og atvinnuþátttöku blindra og sjónskertra einstaklinga með viðbótarfatlanir. Markmið verkefnisins var að þróa leiðir til að brúa bilið milli framhaldsskóla og atvinnulífs, atvinnulífs og símenntunar og að auka möguleika á fjölbreyttu náms- og starfsvali.
Þátttakendur í verkefninu voru nemendur, foreldrar og fagfólk sem tengist menntun og endurhæfingu blindra og sjónskertra einstaklinga á aldrinum 16-25 ára. Fulltrúar frá ellefu skólum og þekkingarmiðstöðvum í níu löndum tóku þátt í verkefninu.
J.O.B.S. MDVI verkefnið hófst árið 2011 og er framhald af ACTIVE verkefninu. Áherslan í J.O.B.S. MDVI er á menntun og þjálfun starfsmanna.
SensAge (2011-2014)
SensAge vinnur að því að veita aðgang að gagnagrunni um símenntun (Lifelong Learning) fyrir eldra fólk með skynfæraskerðingu. SensAge er stutt af áætlunum Grundtvig, sem er ein af menntaáætlunum Evrópusambandsins.
Smávegis um verkefnið af vef EASPD.