Upplifun þátttakanda af VIVA verkefninu
Undanfarið eitt og hálft ár hef ég, ásamt fjórum öðrum ungmennum, tekið þátt í verkefninu VIVA á vegum Erasmus og Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar. Markmið mín með þátttöku í verkefninu voru að tileinka mér verkfæri sem þjálfa leiðtogahæfni og nýtast til að byggja upp gott og árangursríkt samstarf við annað fólk. Einnig vildi ég kynnast hugmyndum og viðhorfum blinds og sjónskerts fólks frá ólíkum löndum og með mismunandi bakgrunn og menntun. Hið síðarnefnda markmið náðist því miður ekki þar sem heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn og fyrirhuguð ferð á vegum verkefnisins til Rúmeníu féll niður. Því varð fólk að vinna frá sínu landi og alþjóðavinkillinn fór fyrir lítið. Verkfærin sem við tileinkuðum okkur eru notuð í atvinnulífinu og einnig í fræðasamfélaginu, til dæmis hef ég gert sambærilega hluti í nýsköpunaráfanga við Háskólann í Reykjavík. Mér finnst ég skilja betur hvernig gott samstarf verður til og að litlar hugmyndir geta bylt heiminum, bara ef nógu mikill vilji og dugnaður eru fyrir hendi. Einnig er mjög hjálplegt að VIVA skuli hafa birt handbók með ýmsum æfingum, leikjum og verkefnum sem geta nýst í hópefli, leiðtogaþjálfun og samstarfi, en einnig í daglegu lífi.
Hópurinn sem tók þátt í VIVA fyrir Íslands hönd heimsótti og fræddist um störf íslenskra frumkvöðla, með sérstaka áherslu á félagslegt frumkvöðlastarf. Meðal þeirra frumkvöðla sem við heimsóttum má nefna Bergið Headspace, sem er ráðgjafasetur fyrir ungt fólk. Það var afar áhugavert að sjá hvernig ýmsir persónulegir viðburðir í lífi fólks gátu skapað tækifæri til að finna lausnir sem nýst geta öðrum í sambærilegri stöðu.
Þó svo ég sjái sjálfa mig ekki fyrir mér í frumkvöðlastarfi á næstu árum, tel ég afar líklegt að þekkingin á frumkvöðlastarfi og leiðtogaþjálfunin sem ég fékk í gegnum VIVA verkefnið geti nýst mér í námi mínu, vinnu og daglegu lífi.
Iva Adrichem, söngkona og laganemi