Ertu að velta fyrir þér að sækja um leiðsöguhund? Ertu forvitin/nn að vita hvað hundurinn getur gert fyrir þig? Carmen hefur notað leiðsöguhund í 8 ár og fer yfir hvað hafa ber í huga til að hundur geti nýst sem best.

Áður en Carmen fékk leiðsöguhund þekkti hún ekkert til hunda og hafði aldrei átt hund áður. Hún ráðleggur fólki, áður en það sækir um hund, að velta vel fyrir sér hvernig hundur geti nýst sem hjálpartæki, hvort það að hafa hund hæfi lífstíl viðkomandi og eins hvaða kröfur þurfi að standast. Auk þess er gott að vera meðvitaður um sem flesta kosti og galla þess að hafa leiðsöguhund.

Kröfur til notenda leiðsöguhunda

Til að eiga möguleika á að vera úthlutað leiðsöguhundi þarf að standast eftirtaldar kröfur:

  • Nauðsynlegt er að geta bjargað sér í umferli utandyra og vera fær um að ganga ákveðnar leiðir upp á eigin spýtur. Þó svo að leiðsöguhundurinn hjálpi mikið þegar kemur að því að komast á milli staða verður notandi hans að vera með grundvallarleiðir á hreinu til að geta kennt hundinum þær sjálfur.
  • Hundurinn verður að hafa nóg að gera. Það þýðir að hundurinn verði að vinna að meðaltali í u.þ.b. eina til tvær klukkustundir á DAG.
  • Það er nauðsynlegt fyrir leiðsöguhunda að komast út í frítíma að lágmarki fjórum sinnum á hverjum degi. Eins er mikilvægt að hundurinn fái að ganga laus í um það bil hálfa klukkustund á dag.
  • Notandi verður að vera fær um að hirða sjálfur um hundinn og sinna hans helstu grunnþörfum. Þar undir fellur til dæmis að gefa hundinum að borða, þrífa eftir hann  og fara með hann til dýralæknis.

Kostir og gallar

Eins og flestu í heiminum fylgja leiðsöguhundum kostir og gallar. Gott er að vega og meta þá hvern upp á móti öðrum og að sjálfsögðu er einstaklingsbundið hve þungt hvert atriði vegur.

Kostir við að nota leiðsöguhund eru m.a. það að mun minni orka fer í að rata á milli staða, fólk gengur hraðar með hund en með staf, aðstoð hundsins veldur því að notandinn er ekki eins háður öðru fólki, og hundur getur leitað að kennileitum í umhverfinu á borð við kantsteina, strætóskýli og umferðarljós. Auk þess er leiðsöguhundur einn sá tryggasti vinur og félagi sem hægt er að hugsa sér.

Gallarnir geta aftur á móti verið þeir að hundar þurfa að fara út minnst fjórum sinnum á dag í öllum veðrum, þeir fara talsvert úr hárum, fólk getur verið með ofnæmi fyrir þeim, notandi verður að laga sig að þörfum hundsins og gera sér grein fyrir því að hundurinn er háður því að honum sé sinnt vel. Hundurinn er einnig viðverandi allan daginn, öfugt við t.d. hvíta stafinn sem einfaldlega er hægt að ganga frá inn í skáp. Því er afar æskilegt að tilvonandi notendur séu miklir dýravinir og geri sér grein fyrir því að leiðsöguhundur er í senn vinnutæki og gæludýr.

Eftir að hafa byrjað að nýta sér krafta leiðsöguhunds fannst Carmen hún hafa breyst úr frekar óöruggri manneskju í sjálfstæða konu sem er óhrædd við að fara út og ganga yfir götur án aðstoðar. Hún vonar að eftir lestur þessarar greinar hafir þú áttað þig betur á hlutverki og tilgangi leiðsöguhunda og notenda þeirra. Að lokum óskar Carmen öllum tilvonandi leiðsöguhundanotendum góðs gengis og góðrar skemmtunar.

ÍMA
Byggt á hollenskri grein. Upprunalegu heimildina má lesa hér.