A.D.L. umhverfið og ferðalög
Leiðir til að bæta umhverfið
Leitast skal við að gera byggingar og umhverfi þeirra sýnileg sjónskertum, með því að leggja áherslu á eftirfarandi atriði:
- að gert sé ráð fyrir einföldu, rökréttu skipulagi sem gott er að muna.
- að notuð séu skörp litaskil (andstæðir litir og litbrigði).
- að notuð sé rétt lýsing, sem er viðeigandi og dreifist jafnt.
- að gert sé ráð fyrir snertingu, hljóðum, ilmi og lofthreyfingu til að skynja umhverfið.
- skýr, vel staðsett skilti.
- hurðir þurfa að skera sig úr veggnum, hurðir eða dyrakarmar geta verið í öðrum lit en veggurinn.
- húnar og handföng geta verið í öðrum lit en hurðir.
- mottur á gólfi ættu að vera í litum sem skera sig frá gólfinu.
- skörp skil milli stólsetu og gólfs gera stólana sýnilegri.
- annar litur á tröppunefi gerir hverja tröppu sýnilegri.
- auðveldara er að finna koddann ef koddaverið er í öðrum lit en sængurverið.
Skipulag umhverfis
Til að auðvelda blindum og sjónskertum að rata utandyra skal skipuleggja gönguleið með leiðarmerkingum. Auðveldara er að rata ef gönguleiðir mynda rétt horn hver á aðra. Á torgum og í anddyrum getur leiðarmerking á stétt og á gólfi gefið til kynna hvert gönguleið liggur. Kennileiti getur verið gosbrunnur, sem er um leið hljóðmerki. Tré, runnar og blóm geta gert sjónskertum kleift að skynja hvar þeir eru staddir, við það að finna ilm og lofthreyfingu frá gróðrinum.
Innra skipulag bygginga skal vera einfalt og rökrétt. Nota skal sama skipulag í allri byggingunni við ýmis hönnunaratriði, þannig að ekki þurfi t.d. að enduruppgötva staðsetningu ljósarofa í hverju herbergi. Raða skal lyftuhnöppum í eina talnaröð. Mikilvægt er að snagar í þröngum almenningssalernum séu ekki staðsettar þannig að hætta sé á að maður reki augað í þá.
Skörp litaskil
Samhæfa skal notkun dagsbirtu, lýsingar og lita til að gera umhverfið skýrara. Með réttri notkun lýsingar og lita má auðvelda sjónskertum að átta sig á rými, taka eftir mikilvægum byggingarhluta og forðast gildrur. Til að mynda skörp litaskil milli tveggja flata skal velja liti sem mynda dökk/ljós skil. Því er gott að nota mettaða liti með ómettuðum eða misljósa liti saman. Það eru t.d. skarpari litaskil ef notaður er ljósblár litur á dökkbláan bakgrunn en ef notaður er rauður litur á bláan með sömu mettun og litbrigðum.
Skörp litaskil má nota til að aðgreina innganga, hurðir, handlista, tröppubrúnir, dyrasíma, rofa, handföng og húna frá umhverfinu. Einnig skal merkja glerveggi og hurðir í augnhæð fyrir börn og fullorðna.
Til að minnka skil milli birtunnar úti og inni að degi til er best að nota ljósa liti á glugga, loft og veggi og ljós gluggatjöld. Mótbirta getur framkallað glýju. Gott er að aðgreina gólf frá veggjum með dekkri lit svo allt renni ekki saman í eina heild. Einnig má setja gólflista sem aðgreinir sig í lit frá veggjum og gólfi.
Lýsing
Rétt lýsing tryggir að sjónskertir nýta sjónina betur. Nægileg lýsing, vel hönnuð ljós og rétt staðsetning þeirra eru nauðsynlegir þættir til að forðast glýju, glampa og óæskilegar sjóntruflanir vegna skuggamyndunar. Í anddyri er mikil birta mikilvæg, svo auðveldara sé að aðlagast þegar komið er inn úr dagsbirtunni.
Hljóð og hljómburður
Til að hljóð í umhverfinu komi að gagni sem leiðarvísir skal hljóðvist vera hagstæð. Hljóð frá eigin fótataki og staf er mikilvægast. Hljómburður í rými skal vera í samræmi við eðli þess og notkun, svo auðvelt sé að átta sig á hvar maður er staddur. Flestir skynja rými með stuttum ómtíma sem lítil en rými með löngum ómtíma sem stór. Hljóðmerki geta auðveldað sjónskertum að rata að inngöngum og lyftudyrum. Allar upplýsingar, t.d. um samgöngur skulu vera bæði mynd- og hljóðrænar.
Þegar blindir eða sjónskertir einstaklingar ferðast
Á ferðalögum er ýmislegt sem gott er að hafa á bak eyrað.
Hvíti stafurinn er alþjóðlegt tákn blindra og sjónskertra. Þeir sem ekki nota hvíta stafinn að jafnaði geta fengið svokallaðan merkistaf að láni hjá Miðstöðinni. Merkistafurinn er stuttur, samanbrjótanlegur stafur sem auðvelt er að taka fram þegar þörf er á og gefur öðrum í umhverfinu upplýsingar um að viðkomandi sé sjónskertur. Við öryggisleit er tekið tillit til þess að stafurinn er hjálpartæki og er hann því leyfður um borð í flugvélum.
Barmmerki er annað auðkenni en á því er mynd af einstaklingi með hvítn staf. Barmmerkin eru fáanleg hjá Blindrafélaginu.
Sjónaukar eru hjálpartæki sem Miðstöðin úthlutar. Þeir geta gert sjónskertum einstaklingum kleift að sjá á ýmis skilti og skjái sem veita upplýsingar um komur og brottfarir.
Blindir og sjónskertir eiga rétt á þjónustu í flughöfnum samkvæmt Evrópureglugerð. Aðstoð er veitt samkvæmt óskum, svo sem við innritun, við öryggisleit og fylgd gegnum flugstöðina. Ekki er greitt sérstaklega fyrir þessa þjónustu. Best er að óska eftir aðstoð strax við bókun flugs til þess að forðast tafir þegar komið er á flugvöllinn.
Farþegar, sem fara um Keflavíkurflugvöll, geta sótt um aðstoð hjá farmiðasölu og flugrekendum. Einnig er hægt að óska aðstoðar í þjónustusíma 425 6500, senda á netfangið prm@kefairport.is eða sækja um á netinu www.kefairport.is. Alltaf þarf að sækja um með minnst 48 klukkustunda fyrirvara.
Mikilvægt er að taka fram hvernig aðstoðar er þörf. Taka þarf fram upplýsingar um blindu eða sjónskerðingu, hvort farþegi getur gengið upp og niður stiga, getur gengið stuttar vegalengdir eða hvort farþegi notar eigin hjólastól (venjulegan eða rafknúinn). Einnig þarf að taka fram flugnúmer og dagsetningu flugs og bókunarnúmer farseðils.