Ráðgjöf

Starfar þú á menntastofnun eða frístundaúrræði?

Sjónstöðin veitir ráðgjöf til skóla og frístundaúrræða fyrir börn. Öll börn og námsmenn sem eru notendur Sjónstöðvarinnar eru með ráðgjafa hjá Sjónstöðinni sem veitir ráðgjöf varðandi sjónskerðingu viðkomandi og þau hjálpartæki sem standa til boða.

Börn og námsmenn geta fengið ýmiskonar hjálpartæki sem nýtast í námi svo sem forrit í tölvu, talgervil, aðlagað námsefni, gleraugu, stækkunargler og hvíta stafi. Ráðgjafar í umferli geta metið aðgengi og komið með tillögur að úrbótum sé þess óskað.

Sjónstöðin býður upp á kennslu í jákvæðri sjónörvun sem stuðlar að aukinni færni í sjónrænni skynjun barna með alvarlega sjónskerðingu eða heilatengda sjónskerðingu (CVI). Gott samstarf er við aðrar opinberar stofnanir t.d. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins auk helstu hagsmunasamtaka svo sem Blindrafélagið.

Starfar þú með fólki á atvinnualdri?

Sjónstöðin veitir ráðgjöf til vinnustaða, búsetukjarna, félagsþjónustu og annara sem koma að þjónustu við sjónskerta og blinda einstaklinga. Öll ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og í samráði við einstaklinginn. Ráðgjafar frá Sjónstöðinni geta heimsótt vinnustaði og heimili og lagt mat á aðstæður og aðgengi og komið með tillögur að úrbótum miðað við þarfir hvers og eins. Ráðgjafar veita margvísleg ráð til einstaklinga til að auka sjálfstæði þeirra í athöfnum daglegs lífs.  

Öllum blindum og sjónskertum einstaklingum stendur til boða mat, kennsla og úthlutun á sjónhjálpartækjum svo sem tölvutengd tæki og forrit, talgervil, aðlagað afþreyingarefni, gleraugu, stækkunargler/tæki og hvíta stafi. 

Gott samstarf er við aðrar opinberar stofnanir t.d. Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins auk helstu hagsmunasamtaka svo sem Blindrafélagið. 

Starfar þú með öldruðum?

Sjónstöðin veitir ráðgjöf til aðstandenda og starfsfólks félagsþjónustu og stofnana s.s dvalarheimila og hjúkrunarheimila. Öll ráðgjöf er einstaklingsmiðuð og í samráði við einstaklinginn. Ráðgjafar frá Sjónstöðinni geta heimsótt heimili og stofnanir sé þess óskað. Lagt er mat á aðgengi og komið með tillögur að úrbótum sem miðar að því að auka sjálfstæði í athöfnum daglegs lífs.  

Öllum blindum og sjónskertum eldri borgurum stendur til boða mat, kennsla og úthlutun á hjálpartækjum svo sem tölvutengdum tækjum og forritum, afþreyingarefni á punktaletri, gleraugum, stækkunarglerjum, hljóðspilara og hvítum stöfum. 

Veitt er ráðgjöf um samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og gott samstarfi er við Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, félagsþjónustu og hagsmunasamtök eins og Blindrafélagið.  

Félagsráðgjöf

Á Sjónstöðinni er félagsráðgjafi starfandi sem notendur og aðstandendur þeirra geta leitað til sér að kostnaðarlausu. Félagsráðgjafi veitir stuðning og ráðgjöf vegna félagslegra réttinda/úrræða og aðstoðar við umsóknarferli sé þess óskað. Dæmi um úrræði geta tengst tekjum viðkomandi, stuðningsþjónustu, búsetuúrræði og fleira.  

Tímapantanir eða samband við félagsráðgjafann fer fram með því að hringja í síma 545-5800.  

Ráðgjöf og kennsla í athöfnum daglegs lífs 

Markmið með kennslu í athöfnum daglegs lífs er að auka sjálfstæði og færni notanda.  

Í samvinnu við sérfræðinga Sjónstöðvarinnar er fundin lausn á vandamálum tengdum sjónskerðingu. Lausnin getur falist í að nota sérstök hjálpartæki og læra tækni við að gera hlutina á nýjan hátt. Snýst það meðal annars um almenn heimilisstörf og skipulag. Einnig eru veittar ráðleggingar um lýsingu og litaskil ásamt vali á tækjum.  Til þess að árangur náist þarf viðkomandi að vinna með sérfræðingum í að nota hjálpartæki rétt og beita vinnubrögðum sem kennd eru.  

Tímapantanir eða samband við ráðgjafa fer fram með því að hringja í  síma 545-5800.   

Ráðgjöf og kennsla í umferli 

Markmið með umferliskennslu er stuðningur til sjálfstæðis og hvatning til virkni.   

Umferli snýst um að læra aðferðir og leiðir til að komast frá einum stað til annars innan dyra sem utan. Umferliskennsla nýtist þeim eru með litla eða enga sjón eða þeim sem eru með sjónúrvinnsluerfiðleika. Áttun í umferli er mikilvæg svo og kennileiti og skynjun á umhverfinu.  Mikilvægt er að styðja við uppgötvun, frumkvæði öryggi og sjálfstraust.  

Tímapantanir eða samband við ráðgjafa fer fram með því að hringja í            síma 545-5800.  

Sérkennsluráðgjöf 

Markmið með sérkennsluráðgjöf er jákvæð sjálfsmynd, valdefling, virkni og þátttaka.    

Á Sjónstöðinni eru starfandi sérkennsluráðgjafar til stuðnings notendum í námi. Sérkennsluráðgjafarnir gera athugun og mat á sjónnýtingu nemandans ásamt að veita kennslu og ráðgjöf til nemenda og kennara um hentuga kennsluhætti. Hægt er að hafa samband við sérkennsluráðgjafa í síma 545-5800  

 

Sjónfræðiráðgjöf 

Markmið með sjónráðgjöf er að leggja mat á sjónnýtingu notenda og í samráði finna bestu mögulegu lausn á sjónhjálpartækjum sem eru í boði og gagnast viðkomandi. Ráðgjafar veita fræðslu um orsakir sjónskerðinga og þá þjónustu sem er í boði.          

Hægt er að hafa samband við sjónfræðinga í síma 545-5800.  

Tölvu- og tækni 

Tölvu- og tækniráðgjafi aðstoðar notendur við að finna tæknilausnir sem henta fyrir blinda og sjónskerta notendur í námi, vinnu og daglegu lífi. Ráðgjöfin felst meðal annar í því að fara yfir aðgengisstillingar sem tækin bjóða upp á og finna forrit og lausnir sem henta.  

Ráðgjafi veitir líka ráðgjöf til aðstandenda og fagfólks sem kemur að þjónustu við notendur.  

Tímapantanir eða samband við tölvu- og tækniráðgjafa fer fram með því að hringja í síma 545-5800.