Að mála sig án sjónar

23.09.21Áhugavert efni, Fróðleikur

Þó að sjón sé lítil eða engin er mikilvægt fyrir flesta að líta vel út og vera öruggir um útlit sitt. Einfaldast er að nota sjónina við hversdagslega hluti, á borð við að mála sig en þó er vel gerlegt að reiða sig á önnur skynfæri við það. Í þessari grein eru leiðbeiningar í skrefum hvernig er hægt að bera á sig andlitsfarða, þrátt fyrir litla eða enga sjón.

Hvaða farði passar mér?

Gott er að hafa hugmyndir um hvaða förðunarvörur og litir passa best fyrir húð þína. Ef þú ert ekki viss hvað hentar þér best gæti verið sniðugt að fá ráðleggingar snyrtifræðings eða förðunarsnillings í þínum innsta hring.

Undirbúningur

Ef þú vilt farða þig fyrir framan spegil er góð lýsing lykilatriði. Best er að lýsa spegilinn upp frá hægri og vinstri og einnig að ofan. Þannig nýtist skugginn til að sjá betur hvað þú ert að gera. Þó skal varast að lýsingin skíni ekki í augun og trufli þar með sjónina. Spegill með stækkun getur nýst sjónskertum vel en það er persónubundið og fer eftir eðli sjónskerðingar hversu mikla stækkun hver og einn þarf. Einnig getur verið gott að nota spegla sem hægt er að draga að sér og stjórna stöðu spegilsins eftir því sem þér finnst  þægilegast.

Þegar þú berð á þig farða er gott að geta haft olnbogana á borði til stuðnings. Einnig hjálpar mörgum að búa sér til fasta rútínu og nota förðunarvörurnar alltaf í sömu röð. Gott er að hafa allar förðunarvörurnar á sama stað áður en hafist er handa. Ef þú átt erfitt með að þekkja í sundur pakkningarnar sem vörurnar eru í, er ekki galin hugmynd að merkja þær með punktaletri eða litríkum merkimiðum.

Dagkrem

Gott er að nota dagkrem til að vernda húðina fyrir utanaðkomandi áhrifum, t.d. fyrir sólargeislum eða kulda. Að sama skapi verndar dagkremið húðina fyrir áhrifum förðunarinnar. Best er að dreifa kreminu jafnt yfir lófana áður en hendurnar eru notaðar til að bera það á andlitið. Þannig er komið í veg fyrir klessur á andlitinu.

Grunnfarði, t.d. meik eða litað dagkrem

Farði á borð við meik og/eða litað dagkrem er notaður til að gefa húðinni jafnari lit og gljáa. Litur farðans skal valinn eftir því sem kemst næst þínum náttúrulega húðlit. Ef þú notar farða í túpu eða pumpu getur það hjálpað þér að ákvarða hæfilegt magn. Ef ýtt er á pumpuna eða kreist úr túpunni gefur það þér jafnt magn farðans í hvert skipti. Áður en þú byrjar að setja á þig farðann er gott að taka hárið vel frá andlitinu og passa að fötin séu varin fyrir blettum. Þetta er t.d. hægt að gera með hárböndum og fötin er auðveldlega hægt að verja með því að vefja um sig sjali. Ef þú ert rétthent/ur er gott að setja svolítinn farða á vinstra handarbakið. Dýfðu vísifingri hægri handar í farðann á vinstra handarbakinu og settu nokkrar doppur  á andlitið. Gott er t.d. að setja eina doppu á hvora kinn, eina á ennið, eina á nefið og eina á hökuna. Því næst er hægt að nota fingurna til að dreifa farðanum um andlitið. Til að tryggja að farðanum sé dreift jafnt er gott að byrja frá miðju og vinna sig þaðan út með andlitinu. Til að forðast sjáanlega rönd verður að dreifa farðanum sérstaklega vel í kringum eyrun, hálsinn og hársvörðinn. Ef fjarlægja þarf leifar er gott að strjúka mjúklega meðfram augabrúnum og niður eftir andlitinu.

Púður

Þegar farðinn hefur verið settur á er púður oft sett yfir til að gefa húðinni jafnt og matt yfirbragð. Gott er að velja sér fremur litlaust og duftkennt púður. Til að bera púðrið á er notaður sérstakur púðurbursti. Gott er að nota sterkari höndina til að halda um burstann á meðan hin er notuð til að halda við púðurdósina. Til að ná sem mestu púðri upp úr dósinni er best að snúa burstanum vel í dósinni svo nægilegt magn púðurs festist í hárunum. Til að fjarlægja óþarfa púður af burstanum er æskilegt að slá létt í dósina með burstanum. Því næst er burstanum beint að andlitinu og púðrið borið á ennið, nefið og hökuna. Því næst er gott að taka hreinan púðurbursta og strjúka honum kerfisbundið eftir andlitinu til að fjarlægja púðurleifar. Þá er gott að byrja að ofanverðu og færa sig svo niður. Ef þú telur þig vera með hrukkur er æskilegt að nota eins lítið púður og mögulegt er, þar sem púðrið getur gert hrukkurnar meira áberandi. Því er líka gott að hafa í huga að forðast að púðra húð sem er viðkvæm fyrir hrukkum, t.d. í kringum augun. Með notkun púðurs er aðalatriðið að koma í veg fyrir glansandi enni, nef og höku.

Kinnalitur

Kinnalitur gefur andlitinu náttúrulegan og ferskan blæ. Hægt er að fá kinnalit bæði í púður- og kremformi. Eins og gefur að skilja er hentugast fyrir þá vilja reiða sig á snertingu að skynja magn og dreifingu með fingurgómunum. Því hentar kremkinnalitur oftast betur en púðurliturinn. Ef þú berð á þig kremkinnalit er best að setja hann á þegar þú hefur borið á þig farðann og nota síðan púður eftir á, þar sem kremkinnalitur getur myndað rendur og flekki ef hann er settur yfir púður. Ef þú vilt frekar nota kinnalit í púðurformi er hins vegar best að bera hann á sig eftir að þú hefur sett matta púðrið á andlitið. Eins og áður segir er kremkinnalitur borinn á með fingurgómunum. Yfirleitt finnst fólki best að nota til þess vísifingur og/eða löngutöng. Það eru til nokkrar góðar aðferðir til að finna hvar kinnaliturinn á að vera. Til dæmis er hægt að brosa við spegilmynd þinni og koma þannig auga á lögun kinnbeinanna sem eru svolítið í laginu eins og epli. Liturinn finnst þannig líka ef þú kemur við kinnarnar þegar þú brosir. Önnur góð aðferð er að soga inn kinnarnar meðan liturinn er borinn á. Þá geturðu sett fingur ofan við eyrað og annan fingur á kinnbeinið, undir auganu. Þannig ramma fingurnir inn svæðið þar sem liturinn á að vera. Þegar kinnaliturinn er borinn á sig er gott að byrja næst nefinu og hreyfa sig svo mjúklega sífellt utar á kinnbeinin.

Augnskuggi

Augnskuggi getur gert augun stærri og meira áberandi í andlitinu. Flestum þykir auðveldast að nota augnskugga í púðurformi. Það getur verið þægilegt að bera á sig augnskugga í beinni stöðu, t.d. sitjandi bein/nn við borð með báða olnboga uppi á því. Einnig er nauðsynlegt að loka augunum og lyfta upp hökunni á meðan þú berð augnskuggann á þig. Gott er að nota fingurgómana þegar augnskuggi er settur á. Best er að setja vísifingur beggja handa í dósina með augnskugganum og snúa fingrunum í dósinni til að ná augnskugganum upp. Til að dreifa augnskugganum sem best þannig að hann verði jafn báðum megin, er gott að nudda vísifingrunum saman áður en augnskugginn er borinn á augnlokin. Því næst leggurðu vísifingur á mitt augnlok sitthvoru megin og nuddar augnskugganum að ytri augnkróknum. Þaðan nuddarðu alveg þar til komið er að innri augnkróknum. Þetta er endurtekið nokkrum sinnum og gott er að venja sig á að hætta á miðju augnlokinu, á sama stað og þú byrjaðir. Með þessari aðferð tryggirðu að augnskugganum sé vel dreift yfir augnlokin.

Maskari

Ef þú vilt leggja áherslu á augun og láta augnhárin líta út fyrir að vera lengri, er tilvalið að nota maskara til þess. Að setja á sig maskara er mikil nákvæmnisvinna og getur verið erfitt að gera það vel með litla eða enga sjón. Ef þú ert óörugg/ur við að setja á þig maskara er einnig hægt að láta mála á sér augnhárin á snyrtistofu. Eini munurinn er að það lætur augnhárin ekki líta út fyrir að vera þykkari, líkt og maskari gerir. Augnháramálning gerir augu með ljós augnhár dekkri, en fyrir þau sem eru með dökk augnhár breytir augnháralitun litlu sem engu.

Þegar maskari er borinn á er notaður sérstakur maskarabursti. Þeir fylgja nær alltaf með túpunum sem maskarinn er keyptur í. Þegar túpan er opnuð verður að passa að opna hana í einni hreyfingu og alls ekki kreista túpuna því þá getur komið loft á milli og maskarinn orðið kekkjóttur. Til að ná nægum maskara á burstann er best að nota fínlegar snúningshreyfingar. Ef þig grunar að of mikill maskari sé á burstanum er sniðugt að strjúka honum smávegis meðfram servíettu til að taka umframmagnið. Áður en þú setur maskarann á augnhárin er gott að setja bómullarhnoðra á skaft burstans, alveg við hárin. Þetta auðveldar hreyfingar með burstann. Sumir burstar eru með stuttu skafti og þá er óþarfi að nota bómullarhnoðrann. Þegar maskarinn er settur á er best að halda um túpuna með þumalfingri og vísifingri og koma sér fyrir í góðri stöðu. Til að forðast að stinga burstanum óvart í augað er gott til viðmiðunar að leggja fingur á neðri augnhárin áður en maskarinn er settur á. Best er að halda burstanum kyrrum, lóðrétt undir efri augnhárunum og blikka augunum þannig að augnhárin strjúkist meðfram burstanum. Til að tryggja að jafnmikill maskari sé báðum megin er gott að telja hve oft augunum er blikkað.

Ef þú ert að setja á þig maskara í fyrsta skipti og ert óörugg/ur getur verið þægilegt að æfa sig án þess að nota eiginlegan maskara. Það er t.d. hægt að gera með því að nota vísifingur eða skola maskarabursta undir vaski og þurrka hann með servíettu.

Augnblýantur

Til að leggja enn frekari áherslu á augun er hægt að nota augnblýant. Mælt er með því að nota ekki of hvassar línur og nota helst augnblýant með mýkri oddi til að mynda mýkri línur. Það er einnig til þess að ekki þurfi að þrýsta eins mikið á augnlokin. Meðan augnblýanturinn er settur á er gott að styðja hendinni sem heldur á blýantinum á kinnina og nota hina höndina til að stýra oddi blýantsins. Best er að halda eins nálægt oddinum og hægt er til að hafa aukna tilfinningu fyrir því hvað þú ert að gera, án þess að nota sjónina. Línan sem dregin er á ekki að vera í kringum augað, heldur aðeins undir því. Gott er að byrja innst og færa sig svo utar. Gott viðmið er að línan hætti við enda augnháranna. Ef eitthvað fer út fyrir er lítið mál að fjarlægja það með eyrnapinna. Ef þér finnst erfitt að draga línu með augnblýanti er líka hægt að setja á sig dökkan augnskugga með eyrnapinna með sömu aðferð og notuð er við að setja á sig augnblýant. Til að spara sér þessa vinnu hafa sumir einnig kosið að láta húðflúra augnblýantslínur kringum augun.

Augabrúnir

Augabrúnirnar eru afar áberandi hluti af andlitinu og ákvarða því mikið um útgeislun þess. Hægt er að ýkja augabrúnir með því að nota sérstakt augabrúnapúður eða blýant. Púðrið gefur náttúrulega og mjúka útgeislun á meðan blýanturinn skerpir augabrúnirnar. Hér verður aðeins talað um notkun púðurs, en einnig er algengt að fólk láti lita á sér augabrúnirnar hjá snyrtifræðingi. Þegar púður er notað til að lita augabrúnir er gott að nota annað hvort maskarabursta eða sérstakan bursta sem fylgir augabrúnapúðri. Einnig er hægt að nota fingur eða eyrnapinna. Gott er að fylgja hárunum og byrja innst.

Varalitur

Góð aðferð við að setja á sig varalit getur verið að nudda vísifingri nokkrum sinnum yfir litinn, setja fingurinn því næst á miðja efri vörina og dreifa litnum bæði að hægra og vinstra munnviki. Svo er hið sama gert við neðri vörina og vörunum nuddað saman til að dreifa litnum jafnt yfir varirnar. Ef þú hefur sett of mikinn lit á varirnar eða litað út fyrir er hægt að kyssa pappírsþurrku og fjarlægja litinn úr munnvikunum með því að strjúka þurrkunni eftir þeim.

 

Gangi þér vel!

 

Iva Marín Adrichem
23. sept. 2021