Í austanverðu Þýskalandi hefur hefur bær einn verið að þróa umhverfi og samfélag sem aðlagast að þörfum blindra og sjónskertra hraðar og betur en víðast hvar. Bærinn leggur metnað sinn í vera blindrabær – á þýsku Blindenstadt.

Marburg er háskólabær í Þýskalandi, um 130 km austur af Köln og 75 km norður af Frankfurt, þar sem búa um 76 þúsund manns. Í bænum er einn af elstu háskólum Þýskalands, Philipps-Universität Marburg sem var stofnaður árið 1527, en það er ekki eina merkilega menntastofnun Marborgar. Þegar fyrri heimstyrjöld geisaði sem hæst var skóla fyrir unga menn, sem misstu sjón í stríðinu, komið á fót þar til að veita þeim tækifæri til mennta. Sú stofnun, sem í dag kallast Blista (stytting úr  Blindenstudienanstalt), er enn starfrækt og hefur síðan þá fætt af sér og fóstrað ótalmargar uppfinningar fyrir blinda og er sífellt að bæta við.  Blista býður ráðgjöf þeim sem vilja vinna að því að fækka aðgangshindrunum, hvort sem er varðandi nýbyggingar eða aðstöðu sem þegar er til staðar.

Bæjaryfirvöld leggja metnað sinn í að skapa bæ og samfélag án hindrana. Vegna aukins fjölda sjónskertra íbúa og nemenda í bænum er starfsfólk verslana og í öðrum þjónustustörfum mjög meðvitað um þarfir þeirra, strætisvagnabílstjórar eru þjálfaðir í að stöðva vagnana þannig að blindum veitist auðvelt að stíga inn og út, og margir veitingastaðir og kaffihús bjóða upp á matseðla með punktaletri.

Ýmsar viðbætur hafa byrjað í Marburg, sem síðan hafa breiðst út um allt Þýskaland, svo sem gangbrautarljós með hljóðmerkjum. Einungis þrenn gangbrautaljós í bænum eru hljóðlaus, og við þau læra blindir nemendur að hlusta eftir umferð og þekkja hljóðin þegar bílar stoppa og aðrir taka af stað. Gangstéttar er merktar með upphleyptum rákum og doppum sem auðvelda fólki með þreifistaf að skynja hvar gangbrautir og strætóstoppistöðvar eru, sem og svæði þar sem meiri aðgæslu er þörf. Fleira vinnur með bænum; landslagið er mishæðótt sem auðveldar fólki að staðsetja sig í umhverfinu, eftir því hvort það er að fara upp eða niður í móti.

Samstarf Blista og Philipps-háskólans hefur m.a. falist í að auka aðgengi nemenda þvert á námsdeildir. Lögfræði og sálfræði hafa lengst af verið hvað vinsælust meðal blindra nemenda, enda fög sem byggð eru að mjög miklu leyti á rituðu máli sem auðvelt er að lesa með talgervlum, punktaletursskjám eða stækkunartækjum. Nú eru kennarar og nemendur farnir að vinna að því að ryðja leiðina að náttúruvísindum, sem löngum hefur verið mörkuð margvíslegum hindrunum fyrir blinda. Efnafræðikennarinn Tobias Mahnke bendir á að það sé engin ástæða til að hans fag sé bundið við hina sjáandi: „Mannlegt auga getur ekki séð sameindir, né heldur frumeindir, og samt er efnafræðinám afskaplega sjónrænt. Hvers vegna er það? Það ætti ekki að vera blindum sérstaklega í óhag, þar sem hinir sjáandi geta heldur ekki séð neitt af þessu.“
Háskólinn býður einnig upp á 60 eininga / 2 ára meistaranám í kennslu blindra og sjónskertra, sem kennt er í samstarfi við Blista,

Carl-Strehl-skólinn er sérskóli frá miðstigi grunnskóla og upp í framhaldsskóla (5.-13. bekk) sem býður upp á sérhæft nám fyrir blinda og sjónskerta nemendur. Frá haustinu 2018 hefur skólinn tekið inn fáeina sjáandi nemendur á ári, sem þá stunda sitt nám með blindum samnemendum og nota fjölskynja (e. multisensory) kennsluefni , og geta þá nýtt sjónina til viðbótar.

Að auki bjóða ýmis íþróttafélög bæjarins upp á klúbbastarf fyrir blinda; þar með talinn róður, fótbolta, reiðnámskeið, klifur og skíði.

Uwe Boysen, blindur dómari á eftirlaunum og fyrrum forseti félags blindra og sjónskertra nema og fagfólks í Þýskalandi (D.V.B.S.), segir sitt mat vera að sú samkennd og sjálfsbjargarviðleitni sem hefur þróast í Marburg leiki stórt hlutverk í nýsköpun blindra og sjónskertra; „Það veitir manni hugrekki, og maður þorir að prófa eitthvað nýtt.“
Leon Portz, aðfluttur vegna náms, segir að þó hann hafi upplifað margt af því sem finna má í Marburg víða annarsstaðar þá sé þetta yfirgripsmikla net sem fyrirfinnst í bænum sérstakt.

 

 Gréta Hauksdóttir, 21. sept. 2021.
Lauslega byggt á grein Sophie Hardach; The school that created a city for the blind

Vefkrækjur á tengt efni:
Blista (á þýsku)
Marburg – opinber síða (á þýsku, en vefurinn býður upp á Google Translate)
Philipps-Universität Marburg – Philipps-háskólinn í Marburg (á ensku)
D.V.B.S. – Deutscher Verein der Blinden und Sehbehinderten in Studium und Beruf e.V. (á ensku)