Vikuna 6. – 10. september sóttu starfsmenn Sjónstöðvarinnar / Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar námskeið og vinnustofur hjá Gwyn McCormack um hugmyndafræði hennar, Positive Looking. Sú hugmyndafræði gengur m.a. út á sjónþjálfun ungra barna og að aðlaga umhverfið í kennslustofum og skólarýmum með tilliti til skarpra litaskila og aukins aðgengis. Önnur nálgun sem farið var yfir kallast Step In – Step Out og gengur út á að barn með viðbótarþarfir (e. additional needs) fær sjálft að óska eftir aðstoð, á eigin forsendum frekar en eftir tilfinningu þess sem aðstoðar. Bæði markviss sjónþjálfun og Step In – Step Out geta verið foreldrum og öðrum aðstandendum góð verkfæri til að styðja við þroska barnanna.

Þetta námsefni hefur Gwyn verið að innleiða í Bandaríkjunum og Bretlandi undanfarin tvö ár, við mikla ánægju þeirra sem tekið hafa þátt, og hugmyndafræði hennar ætti að geta komið mörgum börnum hér á landi til góða.

Á vef Positive Eye Ltd. má lesa meira um hugmyndafræðina og á YouTube-rás Positive Eye má finna myndbönd tengd hugmyndafræðinni.