Leiðsöguhundurinn Zero kom til okkar í byrjun ágústmánaðar. Eins og forverar hans kemur Zero frá Svíþjóð en hann er ræktaður og þjálfaður í Kustmarkens Hundtjänst AB. Zero var í góðu yfirlæti í einangrun hjá Einangrunarstöðinni Höfnum áður en hann kom til okkar hingað á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð. Hann er stór og stæðilegur svartur labrador með ljúfan og skemmtilegan karakter. Á næstu vikum tekur við aðlögun og samþjálfun Zero með væntanlegum vinnufélaga og vin, sem felur í sér að væntanlegum notanda er kennt á hundinn, hvernig á að vinna með hann í beisli, umferli í nánasta umhverfi og umönnun. Þetta ferli er sniðið að hverjum og einum og unnið er að því að gefa bæði Zero og notanda hans tækifæri til að kynnast hvor öðrum og byggja upp traust og öflugt vinnu- og vinasamband. Við hlökkum mikið til að fá að kynnast Zero betur og fögnum komu hans í hóp ört stækkandi hóps leiðsöguhunda á Íslandi.