Þann 15. október ár hvert efnir alþjóðasamfélagsins til vitundarvakningar um hvítan staf blindra og sjónskertra, á degi hvíta stafsins (e. White Cane Safety Day, eða White Cane Awareness Day).

Hvíti stafurinn er öryggistæki að því leyti að hann gerir notandann sýnilegri gagnvart ökumönnum og öðrum vegfarendum, en hann er líka tæki til sjálfstæðis því með honum skannar notandinn umhverfi sitt og þreifar fyrir misfellum og fyrirstöðum á gönguleið.

Til eru þrjár gerðir hvítra stafa:

  • Þreifistafur, sem er langur og léttur og oftast samanbrjótanlegur. Á göngu heldur notandinn þreifistafnum fyrir framan sig til að skima fyrir hugsanlegum hindrunum eða misfellum í veginum, eða til að fullvissa sig um að leiðin sé greið. Stafurinn er líka notaður til að finna hluti og kennileiti og aðstoðar þannig einstaklinginn við að staðsetja sig.
  • Merkistafur er merki til umhverfisins um að notandinn sé sjónskertur. Hann er stuttur og samanbrjótanlegur, og má einnig nota til að þreifa á og finna hluti í umhverfinu.
  • Göngustafur er notaður til stuðnings og til að halda betur jafnvægi. Hægt er að stilla lengdina á honum svo hann hæfi notanda.

Nokkrar áhugaverðar staðreyndir um hvíta stafinn:

  • Göngutæknin með þreifistafnum kemur frá Richard E. Hoover, sérfræðingi í endurhæfingu og fyrrum liðþjálfa úr síðari heimstyrjöld. Með göngutækninni skipti Hoover líka út hefðbundnum stuttum tréstaf fyrir langan og léttan staf sem sniðinn var að mismunandi lengdarþörfum.
  • Í dag eru stafirnir yfirleitt gerðir úr léttum efnum á borð við ál, trefjagler eða koltrefjar (e. carbon fiber). Í Þýskalandi, Bretlandi, Indlandi og víðar hefur verið unnið að þróun og hönnun snjallstafa í mörg ár.*
  • Í sumum löndum notast sjónskertir við grænan staf til að merkja sig, til aðgreiningar frá hvítum staf blindra.  


* Meðal fyrirtækja og stofnana sem hafa komið að hönnun snjallstafa eru UltraCane í Bretlandi og Indian Institute of Technolgy Delhi.

Alþjóðlegt tákn fyrir blinda og sjónskerta vísar í hvíta stafinn.