Ábyrgð og sjálfstæði blindra og sjónskertra barna

20. okt, 2021Áhugavert efni, Fróðleikur

Nauðsynlegt er að aðstandendur og þeir sem vinna með blindum og sjónskertum börnum leitist við að veita börnunum eins mikla þjálfun í að vera eins sjálfstæð og hægt er. Að taka ábyrgð er eitthvað sem öll börn þurfa að læra en flest þeirra gera það með því að sjá hvað hinir fullorðnu gera og herma eftir því. Því er mikilvægt að blind og sjónskert börn fái sérstaklega mikla þjálfun, svo þau læri það til jafns við jafnaldra sína. Eftirfarandi atriði er gott að hafa í huga til að stuðla að þjálfun blindra og sjónskertra barna í sjálfstæði og ábyrgð.

Aldrei gera neitt sem barnið er fært um að gera sjálft. Að gera börn háð öðrum er hvorki greiði við þau né aðstandendur til  langs tíma litið.

Ef barn er ekki fært um að framkvæma tiltekið verk, er best að leiða það í gegnum verkið og draga svo smátt og smátt úr aðstoðinni eftir því sem verkið er framkvæmt oftar og barnið kemst í betri æfingu.

Til að forðast lært bjargarleysi er gott að hvetja börn áfram til að framkvæma athafnir daglegs lífs upp á eigin spýtur.

Svo blind börn læri sem best að rata í umhverfi sínu er sniðugt að láta ákveðin hljóð einkenna staði í þeirra nánasta umhverfi. Þá hafa börnin ákveðin kennileiti til að átta sig á því hvar þau eru stödd. Dæmi um gott hljóð sem hægt væri að nota sem kennileiti er klukka á vegg eða suð í viftu. Þó er mikilvægt að hljóðið sé viðvarandi svo börnin viti að þau heyri það alltaf á sama stað.

Þegar börn vantar aðstoð er hægt að bregðast við með því að sýna þeim mismunandi leiðir til að bjarga sér sjálf í viðkomandi aðstæðum. Einnig er gott að spyrja hvernig börn sæju sjálf fyrir sér að leysa verkefni frekar en að grípa inn í og hlífa þeim við að leysa verkefnin.

Til að ýta undir ábyrgð og virkni er gott að hvetja börn til að taka að sér hlutverk í félagslífi sínu á borð við að taka þátt í nemendafélögum í skólanum eða bjóða sig fram í annars konar ábyrgðarstöður. Þetta bæði valdeflir blind og sjónskert börn og hvetur þau til að sýna frumkvæði.

Nauðsynlegt er að blind og sjónskert börn læri sérstaklega að bera ábyrgð á eigum sínum. Þegar blind og sjónskert börn fara í skóla umgangast þau dýra muni á borð við punktaletursskjá, fartölvu og ýmis önnur hjálpartæki til að auka námsfærni. Því er gott að þau læri snemma að þessi tæki, sem og aðrar eigur þeirra ber að umgangast af ábyrgð og virðingu.

Stundum er talað um „góða álfkonuheilkennið“ þegar börn eru alin upp við að þurfa aldrei að sinna heimilisstörfum. Þá læðist inn sú hugmynd að yfirhafnir hengi sig upp sjálfar, ruslið gangi út upp á eigin spýtur eða maturinn birtist eins og fyrir töfra á borðinu og diskarnir vaski sig upp sjálfir.

Eins og gefur að skilja þurfa öll börn að tileinka sér tiltekt og heimilisstörf. Tiltektartími getur verið tilvalinn til að þjálfa blind og sjónskert börn í skipulagi, ábyrgð og líkamlegum styrk. Það getur verið áskorun að reiða sig á önnur skynfæri en sjónina þegar kemur að því að flokka og skipuleggja og því þarf oft á tíðum að þjálfa blind og sjónskert börn í að flokka leikföng, raða í hillur og skápa þannig að allt sem á að vera þar kemst fyrir, þurrka af og hreinsa til. Til að halda röð og reglu er t.d. hægt að leggja áherslu á flokkun eftir stærðum, áferð eða eftir því til hvers hlutir eru notaðir. Einnig er hægt að nota tiltekt og heimilisstörf til að hvetja börn til hreyfingar, sérstaklega þar sem mörg blind og sjónskert börn skortir daglega hreyfingu. Því er gott að fá þau til að lyfta þyngri hlutum, opna dyr og kenna þeim hluti sem krefjast hreyfingar á borð við að skúra og þurrka af.

Til að gera flokkun einfaldari, svo sem á leikföngum getur verið gagnlegt að merkja ílát, hillur o.fl. með einhverju sem er auðkennandi, t.d. punktaletri eða litríkum merkimiðum. Skipulagshæfileikar eru nauðsynlegir fyrir alla, en þó sérstaklega fyrir blinda og sjónskerta til að vera ekki öðrum háðir og geta lifað sjálfstæðu og ábyrgu lífi. Það gagnast því börnum vel fyrir framtíðina að læra snemma að skipuleggja eigur sínar til að vita nákvæmlega hvar leikföng, föt og annað er geymt. Að sama skapi þurfa aðstandendur eða kennarar að passa sig að færa hluti sem minnst til svo að börnin geti sjálf komið sér upp kerfi eða kennileitum. Þar af leiðandi geta þau með einfaldari hætti sjálf náð í eigur sínar líkt og sjáandi jafnaldrar þeirra gera. Til að æfa sig í góðu skipulagi er til að mynda góð aðferð að láta börn leita kerfisbundið eftir eigum sínum eða hlutum ef þau finna þá ekki, ganga frá hlutum á sinn stað eftir notkun, setja óhrein föt í þvottakörfu og ganga frá því sem þau eru hætt að nota áður en næsti hlutur er sóttur.

Hér er mynd af trékubbum.

Hér er mynd af marglitum Duplo-kubbum.