Alþjóðlegi sjónverndardagurinn er haldinn annan fimmtudag í október ár hvert, sem í ár er 14. október. Tilgangur dagsins er að beina athygli almennings út um allan heim að blindu og sjónskerðingu, endurhæfingu blindra og sjónskertra og vörnum gegn sjónmissi, og þema dagsins i ár er „Elskaðu augun“ (e. Love Your Eyes).
Ýmis bjargráð og hjálpartæki standa blindum og sjónskertum til boða og mikilvægt er að kynna sér sem flest þeirra þegar fólk er að missa sjón. Í tilefni sjónverndardagsins munu Blindrafélagið og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð efna til opins húss með vöru- og hjálpartækjasýningu kl. 13-15 og samkomu kl. 15-17 með fræðsluerindum, afhendingu viðurkenninga og undirritun samstarfsyfirlýsingar.
Viðburðurinn verður á 2. hæð i húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17.
Á sýningunni mun Þjónustu- og þekkingarmiðstöð vera með stafi, stækkunargler og fleira til sýnis, og sem þeir sem þurfa að skipta út eða láta kíkja á stafi eða stækkunargler geta komið með þau og fengið úrlausn sinna mála á staðnum.
Önnur fyrirtæki sem kynna sína þjónustu eru:
- Jenile, sem sýnir hjálpartæki fyrir heyrnarskerta
- Öreind með stækkunartæki frá L.V.I.
- Örtækni með hljóðspilara og stækkunartæki frá Humanware
- Blindrafélagið mun sýna NaviLens, leiðarlínur, snjallstaf og BlindShell takkasíma
- Hljóðbókasafn Íslands verður með kynningu á sinni þjónustu.
Klukkan 13 hefst samkoma inni í sal Blindrafélagsins með formlegri dagskrá þar sem undirrituð verður samstarfsyfirlýsing milli Lions og Blindrafélagsins um að sala á rauðu fjöðrinni 2022 verði til styrktar Leiðsöguhundaverkefni Blindrafélagsins.
Nýir leiðsöguhundar verða kynntir og munu Már Gunnarsson og Svanhildur Anna Sveinsdóttir segja frá reynslu sinni að fá leiðsöguhund. Björk Arnardóttir leiðsöguhundaþjálfi hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð mun segja frá leiðsöguhundaverkefninu sem er samstarf Blindrafélagsins og miðstöðvarinnar.
Einnig verður undirritaður samningur erfða- og sameindalæknisfræðideildar Landspítala og Blindrafélagsins um uppsetningu á nýrri greiningartækni til að finna sjúkdómsvaldandi breytingar í genum sem valda arfgengum hrörnunarsjúkdómum í sjónhimnu.
Blindravinnustofan
Um þessar mundir eru liðin 80 ár frá því að Blindravinnustofan hóf starfsemi, en hún var stofnuð í þeim tilgangi að veita blindum einstaklingum atvinnutækifæri. Þó svo mikið hafi breyst þá eiga blindir og sjónskertir einstaklingar enn í vandræðum með að fá vinnu. Í tilefni þessara tímamóta þá mun starfsfólk Blindravinnustofunnar veita nokkrum samstarfsaðilum sérstakan þakklætisvott fyrir verðmætt framlag til atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.
—
Um daginn á vef Alþjóða heilbrigðismálastofnunar (W.H.O.)
og á vef Alþjóðastofnunar um forvarnir gegn blindu (I.A.P.B.)