Að lifa hversdagslífinu án sjónar

2. nóv, 2021Áhugavert efni, Fróðleikur

Blind og sjónskert börn og þeir sem missa sjón síðar meir á lífsleiðinni þurfa oft þjálfun í að tileinka sér athafnir daglegs lífs. Þó sjáandi fólk spái lítið í hversdagslegum verkum á borð við að þvo þvott, sópa gólf, hella í glas og elda mat getur verið mikil vinna að ná færni á þessu sviði án þess að nota sjónina. 

Flest sjáandi börn herma eftir þeim sem eldri eru þegar kemur að því að tileinka sér athafnir daglegs lífs. Eins og gefur að skilja fara blind og sjónskert börn á mis við það og þess vegna þurfa þau sérstaka þjálfun til að þau dragist ekki aftur úr jafnöldrum sínum. Slíkt veldur oft lélegri sjálfsmynd, auk þess sem það gerir börn afar ósjálfbjarga og óþarflega háð öðrum. Því er nauðsynlegt að hefja þjálfun í athöfnum daglegs lífs, hér eftir skammstafað A.D.L., frá unga aldri. 

Margt fólk í lífi blindra og sjónskertra barna getur komið að þjálfun þeirra í A.D.L., til dæmis foreldrar, og aðrir fjölskyldumeðlimir, vinir, kennarar sem áður hafa kennt blindum eða sjónskertum börnum, auk þess sem Sjónstöðin býður upp á þjálfun í A.D.L. frá sérmenntuðum kennurum á því sviði. 

.

Eftirfarandi atriði flokkast undir A.D.L.:

    • Persónulegt hreinlæti, t.d. að fara í bað, greiða sér, raka sig,  mála sig, bursta tennur o.fl. 
    • Klæðnaður, t.d. að velja klæðnað, þekkja klæðnað í sundur til að vita hvaða föt passa saman, þvo föt o.fl. svo er mikilvægt að börn læri að klæða sig sjálf eins fljótt og hægt er, auk atriða á borð við að finna fötin sín sjálf, hneppa, renna rennilás, setja á sig belti, reima skó og ganga frá fötum. 
    • Þættir sem snúa að mat, t.d. að nota hnífapör, skera mat, nota eldavél og bakaraofn á öruggan hátt, og annað sem gert er í eldhúsinu. 
    • Peningavitund, svo sem að halda skipulagi á peningaveski, þekkja í sundur mismunandi mint og peningaseðla, borga með korti, sjá um eigin fjármál, nota netbanka o.fl. 
    • Hreinlæti á heimili, m.a. að ryksuga, skúra, sópa gólf, vaska upp, þurrka af, nota hreinlætisvörur á öruggan hátt o.fl. 
    • Heilsa og lyfjanotkun, t.d. að flokka lyf og gera sér grein fyrir eign heilsufari og þáttum sem valda ofnæmi. 

Allar ofangreindar athafnir daglegs lífs er nauðsynlegt að blind og sjónskert börn tileinki sér, óháð því hvort aðrar fatlanir spili hlutverk eða ekki. Það er afar misjafnt hversu góðri færni börn ná í A.D.L., en það fer allt eftir þjálfun, áhuga og þroska hvers og eins. Þó er mikilvægt að öll börn fái þjálfun í A.D.L. og að skýr markmið séu sett fyrir framtíðina. Margir hafa það að markmiði að geta á fullorðinsárum búið sjálfstætt, án nokkurar utanaðkomandi aðstoðar á meðan aðrir þurfa á búsetuúrræði með stuðningi að halda. Hvort sem einstaklingar eru að læra að borða með hnífapörum eða elda heilu réttina, þá er áherslan að gera þá eins sjálfstæða og hægt er. A.D.L. snýst um valdeflingu og að gefa öllum einstaklingum, óháð sjónskerðingu tækifæri til að byggja upp sjálfstætt líf með góða sjálfsmynd og sjálfsvirðingu að leiðarljósi.

Iva Marín Adrichem
2. nóv. 2021