Mikil vitundarvakning hefur verið undanfarið um leiðsöguhunda og hafa notendur með hunda verið mjög sýnilegir og duglegir að kynna þá. Leiðsöguhundar hafa komið reglulega hingað til lands í gegnum Blindrafélagið síðan 1998, og nú eru alls 12 hundar „í notkun.“ Allir hafa þeir verið af Labradorkyni, enda þykir sú tegund henta langbest til starfsins, og núverandi leiðsöguhundar koma flestir frá sænska ræktandanum Kustmarkens Hundtjänst AB. Flestir þeirra hafa jafnframt verið rakkar (karlkyns) en það er mest fyrir tilviljun og tíkur eru ekkert síðri.
2021 var frábrugðið fyrri árum því nú komu 3 leiðsöguhundar og þétt hver á eftir öðrum. Frá því í lok sumars hefur því æði mikið verið að gera hjá Björk Arnardóttur, hundaleiðsöguþjálfara Sjónstöðvarinnar, við samþjálfun, göngutúra og alls kyns aðlögun. Tveir hundanna sem komu í ár, þeir Loki og Max, fóru til notenda sem ekki hafa áður haft slíkan hund, en Elsa er þriðji hundur síns notanda. Hundunum finnst mjög gaman að vinna og þeir hlífa sér ekkert svo það þarf aðeins að fylgjast með þeim og hafa vit fyrir þeim svo þeir ofgeri sér ekki, sérstaklega þegar þeir fara að eldast. Starfsaldur leiðsöguhunda er því um 8-10 ár þó lífaldur sé lengri og nokkrir þessara tólf hunda eru annar eða þriðji leiðsöguhundur síns notanda.
Það gera ekki margir sér grein fyrir því hve mikil og löng vinna felst í því að samþjálfa leiðsöguhund og notanda hans. Notandinn þarf að vera búinn að kynna sér vel eina eða fleiri ákveðnar leiðir áður en hann fer, með aðstoð hundaþjálfara, að kenna hundinum leiðina. Oft er það leiðin út í matvörubúð, á vinnustaðinn eða í skólann. Auk þess þurfa bæði hundurinn og notandinn að læra hvor á annan í athöfnum daglegs lífs, t.d. er hundinum kennt að gera þarfir sínar á ákveðinn hátt eða ákveðinn stað og notandinn lærir á hvernig best sé að hirða upp eftir hundinn. Fyrir utan samþjálfun þarf svo að passa upp á það að hundurinn fái reglulega hvíld en líka reglulega örvun. Leiðsöguhundur er ekki eins og önnur hjálpartæki sem hægt er stinga inn í skáp eða ofan í skúffu þegar notandi þarf á ekki því að halda.
Til þess að geta nýtt sér þjónustu leiðsöguhunds þarf notandinn að geta áttað sig á umhverfinu, bæði innanhúss og utandyra. Leiðsöguhundur er ekki GPS-tæki og notandi sem ekki veit hvernig hann snýr eða hvert hann sé að fara getur ekki stjórnað hundinum. Áttun og umferli er hægt að þjálfa upp áður en viðkomandi fær hund, sé þörf á því. Björk segir þetta vera krefjandi verkefni en mjög fjölbreytt; hún hefur verið inni á vinnustöðum, uppi í háskóla og úti um allt að samþjálfa.
Reikna má með að í hverja samþjálfun fari tími þriggja vinnuvikna sem dreifist yfir lengri tíma og að það taki upp undir ár fyrir parið að samræmast fyllilega. Starfi hundaþjálfara er þó langt frá því lokið á þeim tímapunkti, en Björk áætlar að hún fái rúmlega 10 símtöl að meðaltali í hverri viku frá hundanotendum sem óska eftir viðbótarráðleggingum eða eru með einfaldar fyrirspurnir. Einnig geta slys eða óhöpp átt sér stað einhvern tímann á starfsferlinum og hundurinn farið í kjölfarið að bregðast öðruvísi við en ætlast er til, eða hefur mögulega ekki líkamlega burði til að starfa áfram sem leiðsöguhundur. Í slíkum tilvikum er nauðsynlegt að hafa aðgang að hundaþjálfara sem getur metið stöðuna með notanda.
Á YouTube má sjá áhugavert myndband (rúmar 17 mín.) um leiðsöguhunda í Kanada: Frá goti til eftirlauna.