Rebekkustúkan Bergþóra hefur ákveðið að veita Sjónstöðinni – þjónustu- og þekkingarmiðstöð styrk til kaupa á nýjum „hundabíl“ og augnsmíðastól.

Hundabíllinn sem nú er í notkun til aksturs með leiðsöguhunda milli staða verður 15 ára síðar í þessum mánuði og man fífil sinn fegri. Gert er ráð fyrir komu nýja bílsins í byrjun næsta árs en áður þarf að innrétta hann sérstaklega, meðal annars með því að klæða gólf og heitklæða yfir með slitsterku efni, klæða hliðarhurðar og topp, skipta flutningsrýminu í tvennt með skilrúmi og bæta við loftventli og ljósum á bílinn.

Stóllinn sem Sjónstöðin hefur verið að notast við við augnsmíðar er gamall tannlæknastóll og a.m.k. hundrað ára gamall segja kunnugir, og því líka kominn á eftirlaunaaldur eftir mikla og trygga þjónustu. Í hans stað mun koma rakarastóll sem fluttur verður inn frá Danmörku, skv. ráðleggingum Stefáns augnsmiðs, enda skiptir gott aðgengi að augum meira máli en að hægt sé að halla stólnum.

Sjónstöðin þakkar Bergþórusystrum kærlega fyrir styrkveitinguna.