Skráning er hafin á 10. norrænu ráðstefnuna um sjónráðgjöf (Nordisk Kongres i Synspædagogik) sem haldin verður 7. – 9. september 2022 í Billund í Danmörku. Ráðstefnan er ætluð fagfólki sem starfar með sjónskertum og blindum einstaklingum á öllum aldri. 

Dagskráin er komin á netið og upplýsingar um vinnusmiðjur, og þess ber að geta að Ásta og Rannveig frá Sjónstöðinni verða með vinnumiðju um þreifibækur fyrir ung börn og Vala Jóna verður með aðra um Vapit-Vip verkefnið 2016-2019. 

Nánari upplýsingar er að finna á vef ráðstefnunnar; www.nordisksynkongress.com , og þær eru reglulega uppfærðar. 

Ráðstefnugjald er 7025 DKK, en þeir fyrstu 200 sem skrá sig fá gjaldið á tilboðsverði, eða 5690 DKK.  

Ráðstefnustaður: LEGOLAND Hotel & Konference, Aastvej 10B, 7190 Billund, Danmörku. 

———-

Um ráðstefnuna segir m.a. þetta: 

Í samfélagi þar sem sífellt eru settar fram auknar kröfur um sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt einstaklingsins er mikilvægt að leggja áherslu á félagslega þátttöku og nám án aðgreiningar. Hvað geta sjónráðgjafar og aðrir gert til þess að skapa jöfn skilyrði fyrir einstaklinga með sjónskerðingu eða blindu á öllum aldri, í mismunandi aðstæðum og umhverfi. 

 Nauðsynlegt er að beina athyglinni að nýrri þekkingu og rannsóknum á sviði félagslegrar þátttöku og náms án aðgreiningar sem og aðgengis í samfélaginu. Með ráðstefnunni skapast auk þess rými til að miðla reynslu og þekkingu milli fagfólks á Norðurlöndunum. 

Ráðstefnan samanstendur af fyrirlestrum, veggspjöldum og vinnusmiðjum auk þess sem framleiðendur og söluaðilar hjálpartækja kynna nýjustu tækni og hjálpartæki.