Síðasti miðvikudagur í apríl ár hvert er Alþjóðadagur leiðsöguhunda. Leiðsöguhundar eru gríðarlega öflugt hjálpartæki fyrir blint og alvarlega sjónskert fólk og veita notendum mikið frelsi og aukið öryggi við að að komast um í umhverfi sínu, innan dyra sem utan. Einnig eru þess mörg dæmi að þeir hafi rofið félagslega einangrun notenda sinna og stuðlað að virkari þátttöku þeirra í samfélaginu.
Sjónstöðin úthlutar leiðsöguhundum á hverju ári, að undangengnu mati á umsækjendum og aðstæðum þeirra. Kaup á þjálfuðum leiðsöguhundum eru m.a. fjármögnuð með sölu leiðsöguhundadagatalsins, sem Blindrafélagið stendur fyrir, og árið 2022 rann afrakstur af sölu Rauðu fjaðrar Lionshreyfingarinnar til kaupa leiðsöguhundum.
Eftirfarandi er texti eftir leiðsöguhundanotanda, skrifaður með augum leiðsöguhundsins.
Frásögn leiðsöguhunds
Sælt veri fólkið. Ég heiti Gaur og er leiðsöguhundur. Þegar ég var hvolpur bjó ég hjá fósturfjölskyldu í Svíþjóð. Þar lærði ég góða hundasiði og hvernig ætti að vera góður og prúður hundur. Svo, þegar ég var orðinn stærri, fór ég í skóla til að læra að verða leiðsöguhundur. Í skólanum var ég með mitt eigið hundaherbergi og lærði að leiðbeina fólki í gegnum ýmiskonar aðstæður, allt frá því að fara í rólegheitum um fáfarnar götur yfir í mjög krefjandi aðstæður þar sem ég þurfti að fara í gegnum fjölfarnar verslunargötur, verslanamiðstöð og lestarstöð. Í skólanum voru margir hundar og meðal annars bræður mínir, Lubbi og Vísir. Það eru ekki allir hundar sem komast í gegnum allan skólann og við bræðurnir vorum mjög stoltir þegar við útskrifuðumst frá Kustmarkens, sem er skólinn sem við vorum í. Eftir útskrift fórum við í ferðalag, fyrst í bíl og svo í flugvél og svo í annan bíl og enduðum í sóttkví þar sem við vorum í svolítið langan tíma.
Eftir sóttkvína tók alvara lífsins við. Fyrst var ég hjá leiðsöguhundaþjálfaranum, sem ég er búinn að vera að vinna með síðan, og svo fékk ég að hitta manneskjuna mína. Það var ást við fyrstu sýn.
Eftir að ég fékk manneskjuna mína þurftum ég og leiðsöguhundaþjálfarinn að kenna manneskjunni hvernig maður á að komast um. Það var svo lítið erfitt að kenna manneskjunni að gera hlutina rétt en það hafðist á endanum. Nú er ég búinn að kenna honum hvernig á að komast á milli staða á öruggan hátt. Það er mikil vinna og mikil ábyrgð að sinna svona manneskjum og þess vegna þarf ég að vanda mig mjög mikið þegar ég er í vinnunni.
En það er nú ekki hægt að vera alltaf í vinnunni. Manneskjan mín er dugleg við að gera skemmtilega hluti með mér og ég fæ oft að hitta hundavini mína. Skemmtilegast finnst mér að vera í vinnunni og svo er næst skemmtilegast að leika við hundavini mína á svæðum þar sem við megum vera laus.
Nú langar mig að segja ykkur frá því sem ég og manneskjan mín gerðum á Sumardaginn fyrsta.
Við vöknuðum snemma um morguninn og fórum í góðan göngutúr. Ég þurfti að finna gangstéttarkanta, staura, gönguljós og tröppur. Ég þurfti að passa vel upp á manneskjuna mína því hann er ekki góður í að sjá hluti. Eftir göngutúrinn fengum við okkur að borða og tókum svo leigubíl upp í Mjódd þar sem við tókum strætó upp á Akranes. Þar heimsóttum við konu sem er vinkona mín og á oft góðgæti í ísskápnum sínum.
Eftir heimsóknina fórum við í langan göngutúr. Þar þurfti ég aftur að finna ýmis kennileiti, hjálpa manneskjunni minni yfir götu og eftir að hafa verið mjög duglegur vinnuhundur fórum við að leika okkur niðri á Langasandi. Eftir það fórum við í heimsókn og ég fékk bað í garðinum og eftir það var ég mjög þreyttur og lagði mig undir borði úti í garði. Eftir afslöppunina fórum við aftur heim til vinkonu minnar sem á ísskápinn og fengum okkur að borða. Svo tókum við strætó heim, í bæinn og svo kom ég heim. Það var gott að geta komist upp í sófann minn og slappað af. Þetta var góður fyrsti dagur sumars og vonandi verður sumarið gott.
Takk og bless
Gaurlaugur Guðvarður Þorkelsson Steindal