Dagana 11. – 15. september 2022 verður Daniel Kish á Íslandi í boði Blindrafélagsins. Í tengslum við heimsókn hans verða kynningar og námskeið bæði í litlum hópum og einstaklingsmiðuð. 

Daniel Kish er framkvæmdastjóri World Access for the Blind og sinnir kennslu og þjálfun um víða veröld. Hann er með meistaragráðu í þroskasálfræði og sérkennslufræðum. Daniel er auk þess fyrsti blindi einstaklingurinn í Bandaríkjunum til að öðlast gráðu í áttun og umferli.  

Framlag Daniels til rannsókna á skynjun ýmiskonar er víðtækt en á ferli sínum hefur hann vakið mesta athygli fyrir færni og kennslu á sviði hlustunar, í því að skynja rými og í því að nýta til þess endurkast hljóðbylgna (echolocation).  

Daniel og nemendur hans hafa sýnt fram á að blinda þarf ekki að takmarka virkni og sjálfstæði að eins miklu leiti og flestir telja.  

Daniel er talsmaður þess að blindir einstaklingar skilgreini eigin markmið og upplifi árangur. Með skipulagðri þjálfun í hlustun, sem hann kallar flass sónar (flash sonar) eða endurkast hljóðs er blindum gert kleift að stunda daglegar ferðir og auka bæði öryggi og sjálfstæði sitt.    

Síðustu árin hefur það verið markmið Daniels að deila reynslu sinni og þekkingu á þessu sviði með blindu fólki um allan heim. Óhætt er að fullyrða að með viðleitni hans og færni í því að deila aðferðum sínum hefur hann vakið gríðarlega athygli.  

Í undirbúningsnefnd heimsóknarinnar eru Hlynur Þór Agnarsson frá Blindrafélaginu, Vala Jóna Garðarsdóttir og Rannveig Traustadóttir frá Sjónstöðinni. 

Dagskrá verður kynnt þegar nær dregur.  

Fyrirspurnir og forskráningu má senda Sjónstöðinni á netfangið vala.gardarsdottir@midstod.is eða rannveig.traustadottir@midstod.is eða Blindrafélaginu á netfangið hlynur@blind.is .


Vefsvæði World Access for the Blind – waftb.net

Daniel Kish