Miðstöðin hefur þýtt og gefið út handbókina Út á vinnumarkaðinn, sem upprunalega var unnin af Evrópsku blindrasamtökunum (European Blind Union) árið 2016. Handbókin er ætluð blindu og sjónskertu fólki á atvinnualdri og veitir hagnýtar upplýsingar sem gott er að hafa í huga þegar sótt er um starf. Með þessari handbók geta blindir og sjónskertir skoðað styrkleika sína, hæfni, kunnáttu og viðhorf auk markmiða í starfi. Í handbókinni eru einnig kenndar leiðir til að búa til öfluga ferilskrá og kynningarbréf. Auk þess sem farið er yfir ráð um hvernig best er að undirbúa sig undir atvinnuviðtal.

Á Miðstöðinni er starfandi náms- og starfsráðgjafi sem veitir ráðgjöf og upplýsingar um nám, störf, námskeið, sí- og endurmenntun. Bókið tíma ef þið óskið eftir að fá aðstoð við leit að starfi.