Mánudaginn 30. maí s.l. fór fram kynning á þróunarverkefninu „Að hugsa sér“ sem eru þreifibækur fyrir blind börn á aldrinum 0 – 6 ára. Hugmyndin að þessu verkefni kviknaði á sýningu Gerðar Guðmundsdóttur listakonu; „Skynjun – Má snerta“ í ágúst 2019. Rannveig Traustadóttir og Ásta Björnsdóttir, ráðgjafar á Sjónstöðinni, áttu mjög skemmtilegt samtal við Gerði sem leist vel á hugmynd þeirra um þreifibækur og benti á hönnuði sem gætu mögulega tekið þátt í svona verkefni. Ninna Þórarinsdóttir hönnuður var tilbúin í þetta verk og árið 2020 fékk Sjónstöðin styrk úr Barnamenningarsjóði og frá Blindrafélaginu til að hanna, þróa og útbúa bækurnar. Meðhöfundur við sögugerð var Eygló Svala Arnarsdóttir. 

Útkoman var alls 4 bækur; tvær fyrir aldurshópinn 0-3 ára og tvær fyrir 3-6 ára. Sem stendur er bara til eitt eintak af hverri bók en útbúið verður viðbótareintak af þeim öllum síðar á árinu. Þessum bókum verður úthlutað eins og öðrum hjálpartækjum Sjónstöðvarinnar, og fylgja því barni sem úthlutunina fær á meðan það hefur not fyrir hana.  

Aðgengi að þreifibókum hefur ekki verið mjög mikið, hvorki á Íslandi né annarsstaðar í heiminum. Það var því mikið ánægjuefni fyrir Sjónstöðina að fá tækifæri til að vinna að þessu þróunarverkefni. Langur tími fór í undirbúning, þróun og hönnun sem var aðallega í höndum Ástu, Rannveigar og Ninnu. 

Þreifibækur gefa börnum tækifæri til að lesa og upplifa með skynjun fingra og handa. Þar sem blind börn þurfa að nota önnur skynfæri en sjón við lesturinn þá nægir til dæmis ekki að teikna upphleypta mynd af kisu þegar sýna á kött á mynd heldur verður að vera hægt að finna fyrir honum með snertingu. Mjúk áferðin skiptir máli en ekki endilega hvernig kötturinn er í laginu. Með þreifibókum fá börnin tækifæri til að túlka myndir, læra um mismunandi áferð og form og kynnast punktaletrinu. Í þessum bókum er hluti sögunnar líka skrifaður með punktaletri sem hugsað er fyrir „þykjustulestur “. Gott er að hvetja barnið til að renna fingrunum eftir textanum til að fá tilfinningu fyrir punktaletrinu.  

Bækur byggja á reynslu barna sem gerir þeim kleift að láta hugmyndaflugið ráða ferðinni við lesturinn og gerir bækurnar spennandi og áhugaverðar. Textinn í þreifibókum tekur mið af því að virkja önnur skilningarvit en sjónina. 

Það er ósk okkar að þreifibækurnar veiti blindum börnum ánægju og ýti undir jákvæðar og lærdómsríkar samverustundir. 

MEÐ BARN Í FANGI OG BÓK Í HÖND 

 

Eygló, Gerður, Ninna, Rannveig og Ásta

Frá vinstri: Eygló Svala Arnarsdóttir, Gerður Guðmundsdóttir, Ninna Þórarinsdóttir, Rannveig Traustadóttir, Ásta Björnsdóttir.

Ninna segir frá verkefninu Að hugsa sér.

Hönnuður bókanna, Ninna Þórarinsdóttir, segir frá ferlinu við hönnun þeirra.