Hér má nálgast textann sem PDF-skjal.

Tvær hendur snerta saman bangsa

Fullorðnir og barn geta notað hendurnar saman við að skoða, rannsaka og læra. Sá fullorðni leggur þá oftast sínar eigin hendur varfærnislega yfir hendur barnsins. Með þessu er hægt að tala um sameiginlega athygli í aðstæðunum og um leið verður gagnkvæmur skilningur á því sem verið er að gera.

Forvitnar og virkar hendur hafa afgerandi þýðingu fyrir þroska barnsins á mörgum sviðum. Með því að snerta og skoða hluti á skipulagðan hátt fær barnið mikilvægar upplýsingar um form, lögun og stærð. Barnið notar hendurnar líka við lestur og skrift og til að tileinka sér ýmsar aðrar upp­lýsingar. Allt þetta er háð góðri skynjun í höndum og fingrum.

Sameiginleg athygli

Sjáandi barn fær oftast staðfestingu á sameiginlegri athygli með því að barn og fullorðinn horfa og hlusta saman. Með sameiginlegri notkun handa blinds barns og fullorðins beinist athyglin að sama hlut eða athöfn á sama tíma. Með þessu skynjar barnið áhuga hins fullorðna. Áhugi barns fyrir hlutum og umhverfi sínu hefur þýðingu fyrir reynslu og nám. Áreiti í kringum barnið eru ekki alltaf áhugaverð nema barnið fái hvatningu og stuðning við að rannsaka og upplifa. Sameiginleg notkun handanna gegnir því lykilhlutverki.
Dæmi: Barn vill sýna nýju skóna sína og tekur hönd hins fullorðna og leggur yfir skóna og þau skoða/„horfa“ saman.

Útskýring á hlutum og athöfnum

Stundum er tilgangurinn með sameiginlegri notkun handa að kenna/sýna barninu flóknari hluti eins og að hella í glas. Þá getur verið gott að sitja fyrir aftan barnið og framkvæma athöfnina saman. Með sameiginlegri hreyfingu finnur barnið betur fyrir aðgerðinni.

Skilningur á orðum og hugtökum

Sameiginleg notkun handa getur stutt barnið í að skilja ýmis orð og hugtök. Með því að nota samtímis hendur/snertingu og orð/hugtök fær barnið betri tengingu og skilning á merkingu orða. Hér má t.d. nefna boltaleik, bílaleik, kubbaleik o.s.frv. Sama gildir um athafnir eins og að opna og loka, ganga upp/niður o.s.frv.

Samskipti, traust, tími og friður/ró

Sameiginleg notkun handa krefst góðra samskipta, trausts og tíma. Það getur líka skipt máli að áreiti í aðstæðum séu ekki of mikil og truflandi. Það tekur lengri tíma og krefst meiri athygli þegar barn þarf að nota önnur skynfæri en sjónina til að læra og upplifa.

Hvatning

Það er ekki sjálfgefið að barnið hafi alltaf áhuga á því að rannsaka og prófa nýja hluti. Það skiptir því máli að undirbúa barnið og gera hlutinn/athöfnina áhugaverða t.d. með því að segja: „Ég er með sniðugan hlut sem ég ætla að sýna þér,“

Tillitsemi við sameiginlega notkun handa

Einstaka sinnum getur barni fundist óþægilegt að snerta t.d. klístraða hluti, lifandi dýr eða eitthvað sem er mjög heitt eða kalt. Ef hinn fullorðni verður var við þetta ætti snertingin að eiga sér stað skref fyrir skref.

  1. Hinn fullorðni byrjar að skoða hlutinn með sinni hendi.
  2. Hinn fullorðni býður barninu að leggja sína hönd yfir hönd hins fullorðna. Þá getur barnið rannsakað hlutinn með hinum fullorðna eða tekið ákvörðun um að taka við og fært hendi hins fullorðna frá.
  3. Hinn fullorðni getur svo lagt báðar hendur sínar yfir hlutinn og hvatt barnið til að leggja jafnframt sínar hendur yfir hendur hins full­orðna. Hinn fullorðni tjáir sig um sína upplifun af hlutnum um leið og hann hreyfir hendurnar. Hendur hins fullorðna eru eins og „leiðsögumaður“ sem leiðir ferðina og hendur barnsins eru „ferðamaðurinn“ sem fylgir.
  4. Með auknum áhuga barns er hægt að skipta um hlutverk. Barnið færir hendur sínar yfir hlutinn og hendur hins fullorðna hvíla varlega yfir höndum barnsins. Barnið tekur frumkvæði og er leiðsögu­maðurinn, meðan hendur hins fullorðna hafa tekið við því hlutverki að vera ferðamaðurinn.

Mikilvægt er að leggja mat á aðstæður hverju sinni m.t.t. sameiginlegrar notkunar handa. Stundum getur það verið truflandi fyrir barnið og ekki nauðsynlegt eða æskilegt að nota þessa aðferð. T.d. ef barnið er að skoða texta þá geta hendur hins fullorðna heft lesturinn. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að hinn fullorðni sé ekki of stýrandi/ráðandi í þessari sam­eigin­legu upplifun. Þessi aðferð á alltaf að vera á forsendum barnsins.

Tekið saman af Rannveigu Traustadóttur,
janúar 2022