Sunnudaginn 11. september kl. 11:00-12:30 verður fræðslufundur með Daniel Kish. Fundurinn verður haldinn í sal Blindrafélagsins á 2. hæð Hamrahlíð 17 og er öllum opinn en skráning er nauðsynleg.
Daniel Kish er framkvæmdastjóri World Access for the Blind og missti sjón á fyrsta æviári sínu. Hann sinnir kennslu og þjálfun um víða veröld og framlag Daniels til rannsókna á skynjun ýmiskonar er víðtækt. Á ferli sínum hefur hann vakið mesta athygli fyrir færni og kennslu á sviði hlustunar, í því að skynja rými og í því að nýta til þess endurkast hljóðbylgna (echolocation).
Síðustu árin hefur það verið markmið Daniels að deila reynslu sinni og þekkingu á þessu sviði með blindu og sjónskertu fólki um allan heim. Óhætt er að fullyrða að með viðleitni sinni og færni í því að deila eigin aðferðum hefur hann vakið gríðarlega athygli.
Skráning fer fram hjá Blindrafélaginu í síma 525-0000 eða á netfangið blind@blind.is fyrir 5. september. Hádegismatur er í boði Blindrafélagsins.
Fólk er hvatt til að nýta þetta einstaka tækifæri til að koma og hlusta á Daniel Kish.