Síðasti sunnudagur í september ár hvert er Dagur sjónhimnunnar á heimsvísu (World Retina Day), og honum er ætlað að stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi sjónhimnunnar og ýta undir leit að lækningu við ýmsum sjónhimnutengdum sjúkdómum, svo sem sjónukyrkingi / RP (Retinitis Pigmentosa).
Sjónhimnan er viðkvæmur vefur aftast í auganu, sem breytir ljósi í myndir og sendir þær til heilans. Hún þjónar svipuðum tilgangi og filma í myndavél; ljósinu er beint í brennidepil á þennan ljósnæma vef og framkallar þar mynd af því sem horft er á.
Retinitis Pigmentosa (RP) eða sjónukyrkingur er nafn sem notað er um nokkra arfgenga hrörnunarsjúkdóma í sjónhimnunni. Einkenni RP tengjast hægfara hrörnun á stöfum og keilum, og með tímanum missir fólk sjónina, í mismiklum mæli þó.
Vitað er að margir mismunandi arfgengir þættir valda RP. Allir RP sjúkdómar eiga það hinsvegar sameiginlegt að hæfni sjónhimnunnar til að taka á móti ljósi minnkar. Vandamálið getur átt rætur sínar í ýmsum hlutum sjónhimnunnar, en þó fyrst og fremst stöfum og keilum. Í flestum tilvikum koma fyrstu einkenni RP fram milli 10 og 30 ára aldurs.
Það er ýmislegt hægt að gera til að vernda augun og sjónina:
Farðu reglulega í augnskoðun.
Þú getur verið með alvarlegan sjúkdóm, án einkenna. Sumir augnsjúkdómar geta þróast hratt ef þeir eru ekki meðhöndlaðir.
Ekki reykja / hættu að reykja.
Reykingar geta dregið úr blóðflæði til augnanna með því að valda þrengingu æða og fólk sem reykir er 3 til 4 sinnum líklegra til að fá aldursbundna augnbotnahrörnun.
Borðaðu hollan mat og hreyfðu þig.
Borðaðu vítamínauðugan mat. Ofþyngd, kyrrseta og hár blóðþrýstingur eru áhættuþættir sem geta valdið sjúkdómum í augum.
Verndaðu augun fyrir sólarljósi.
Notaðu hatt og sólgleraugu með að minnsta kosti 98% vörn gegn útfjólubláum geislum sólarinnar.
Notaðu öryggisgleraugu.
Notaðu viðurkennd öryggisgleraugu þegar þú stundar íþróttir eða vinnur með verkfæri.