Bókin Einn skóli fyrir alla (155 bls.) á PDF-formi.

Öll börn hafa sams konar langanir og þörf fyrir öryggi, ástúð, gleði, vináttu og náin tengsl við annað fólk. Öll börn hafa þörf fyrir að tilheyra einhverjum hópi, einnig fötluð börn og börn með annars konar sérþarfir. Þessi bók gefur innsýn í tilveru blindra og sjónskertra barna, hvernig leik- og grunnskólar, ásamt frístundaheimilum, geta skipulagt starfsemi sína á þann hátt að þau geti tekið virkan þátt í því sem fram fer. Í bókinni er lögð áhersla á félagsmótun barna, félagsþroska þeirra og þar af leiðandi fjallar hún aðallega um samskipti og leik barna frá því að þau eru lítil og þangað til þau eru komin af stað í grunnskóla.

Sjónskerðing er fötlun sem hamlar þeim sem við hana búa í samskiptum og við upplýsingaröflun. Til að draga sem mest úr áhrifum hennar þurfa mörg blind og sjónskert börn á stuðningi fullorðinna að halda til að geta tekið virkan þátt í leik og starfi. Stuðningurinn þarf hins vegar að vera meðvitaður og vel skipulagður svo að hann snúist ekki upp í andhverfu sína.

Höfundar bókarinnar eru tveir uppeldisfræðingar sem eru að auki foreldrar sjónskertra barna. Með þessari bók vilja þeir deila með sér af þekkingu sinni og hversdagslegri reynslu. Bókin byggir á fræðilegum kenningum sem fléttað er saman við atvik úr daglegu lífi. Einnig eru notuð aðferðarfræðileg dæmi um það hvernig leikskólar, grunnskólar og frístundaheimili geta stuðlað að „einum skóla fyrir alla“.