„ástin er blind“ skrifað með punktaletri.

Á degi hvíta stafsins, 15. október síðastliðinn, afhentu eigendur hönnunarstúdíósins R57 Sjónstöðinni og Blindrafélaginu veggspjöld með áletruninni „ástin er blind“ sem m.a. er ætlað að vekja athygli á punktaletri og mikilvægi þess fyrir fólk með litla sem enga sjón. Veggspjaldið kemur í fimm litaútgáfum og rennur hluti ágóðans við sölu þeirra til Blindrafélagsins.

Punktaletur má finna víða í umhverfinu; á lyftuhnöppum, lyfjapakkningum, leiðbeiningaskiltum og víðar, en lætur yfirleitt lítið yfir sér og ekki víst að margir veiti því athygli. Letrið byggist upp á 6 punktum í tveimur lóðréttum línum sem raða má saman í 63 ólík tákn og standa fyrir bókstafi stafrófsins og ýmis tákn. Stafrófið er í grunninn mjög svipað milli landa, a.m.k. þeirra sem notast við latneskt letur, en sérstafir og tákn geta verið mismunandi.

Á veggspjöldunum sést hvernig „ástin er blind“ birtist á punktaletri, og þeim er ætlað að lyfta þessu stílhreina, fallega og nytsamlega letri upp og gefa því verðskuldaða athygli.

.

.

Elfa Svan­hild­ur Her­manns­dótt­ir, for­stjóri Sjónstöðvarinnar, tekur við veggspjaldi frá Karlottu Hall­dórs­dótt­ur, stofn­andi R57.

Skúli B. Geir­dal, stofn­andi R57, afhendir Sigþóri U. Hall­freðssyni, formanni Blindra­fé­lagsins, veeggspjald.