Í gær voru ný vesti fyrir leiðsöguhunda afhent á formlegri kynningu samstarfsverkefnis Hopp Reykjavíkur, Sjónstöðvarinnar og leiðsöguhundadeildar Blindrafélagsins. Nýju vestunum er ætlað að vekja athygli á hundunum og minna aðra vegfarendur á að ekki má trufla einbeitingu hunds við vinnu sína, en það vill svolítið brenna við að fólk fari að klappa hundunum, mynda augnsamband og tala við þá enda hundarnir sjálfir forvitnir og mannelskir. Öll slík utanaðkomandi samskipti beina hinsvegar athygli hundanna frá notandanum og umhverfinu í kringum hann, og geta verið ruglandi fyrir báða.
Vestin eru gjöf frá Hopp Reykjavík og framundan eru fleiri samvinnuverkefni Hopp Reykjavíkur, Sjónstöðvar og leiðsöguhundadeildarinnar um vitundarvakningu varðandi umgengni á gangstéttum og í umhverfinu. Ein af áherslum verkefnisins er hvernig notendur Hopp-hjóla skilja við þau. Þetta skiptir leiðsöguhundanotendur miklu máli við að komast leiðar sinnar, en líka alla þá sem eru sjóndaprir, þá sem ferðast um í hjólastól eða með hjálpartæki til gangs, þá sem ýta barnavögnum, kerrum og hjólastólum á undan sér og heilmarga aðra.
Þetta samstarf Hopp Reykjavíkur og Sjónstöðvar, sem hófst í ágúst 2022, hefur verið skemmtilegt og árangursríkt og hafa samræður um þessi mál leitt ýmislegt í ljós gagnvart báðum aðilum. Rafskútur og rafhlaupahjól eru komin til að vera og þeir sem að verkefninu koma eru sammála um að menningarbreyting gagnvart hjólunum þurfi að vera hraðari á báða bóga. Hjólandi vegfarendur og gangandi þurfa að sýna hverjir öðrum tillit í umferðinni en líka að hjólatúrnum loknum. „Það að vera lögblindur og þurfa á leiðsöguhundi að halda er krefjandi líf og fannst okkur samvinna við Hopp vera nauðsynlegt og skynsamlegt skref í því að vekja fólk til umhugsunar,“ segir Júlíus Birgir Jóhannsson, notandi.
Með þessu hefst sameiginleg vegferð til að auka samfélagsvitund varðandi bætta umgengni öllum til hagsbóta, og eru samstarfsaðilar búnir að móta áætlun sem mun líta dagsins ljós smátt og smátt út þetta ár.
Hópur notenda með leiðsöguhunda í nýjum vestum. Mynd: Hekla Flókadóttir /Hopp Reykjavík.