Þegar þú ætlar að lesa, skrifa og gera allt mögulegt með sjóninni og öðrum skilningarvitum.
Gerð og þýðing þessa bæklings var samstarfsverkefni ýmissa norrænna stofnana og samtaka, og kom út árið 2009 eða 2010. Hér er hægt að skoða bæklinginn sem PDF-skjal.
Þótt sjónin versni getur þér samt gengið betur
Þegar sjónin versnar skyndilega eða smám saman getur verið erfitt að hugsa jákvætt. Samt sem áður eiga þeir sem þjást af aldurstengdri hrörnun í augnbotnum (AMD) von.
Það er mikilvægt að fá aðstoð fljótt. Farðu til augnlæknis eða sjónfræðings sem hefur reynslu af augnsjúkdómum. Takmarkið er að fá hjálp strax þó að vandamálið sé ekki orðið alvarlegt. Það er sama hve illa maður sér, takmarkið á að vera að geta lesið dagblöð með þeirri sjón sem maður hefur. Til þess er hægt að nota margvíslegar gerðir af stækkunarhjálpartækjum.
Fyrst er notast við tæki sem sjónfræðingurinn þinn getur útvegað þér en síðan getur þú fengið aðstoð sérfræðinga frá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.
Aldursbreytingarnar í sjónu leiða ekki til blindu en þær hafa mikil áhrif á skörpu sjónina eða miðjusjónina sem versnar mishratt eftir því hvort um þurrt eða vott tilfelli er að ræða.
Til eru hjálpartæki eins og stækkunargler, sterk lesgleraugu og stækkunarhjálpartæki með skjá sem geta komið að gagni.
Með því að nota alltaf sterkari og sterkari lesgleraugu eða rafbúnað er hægt að viðhalda getunni til að lesa og leysa mörg verkefni með hjálp sjónarinnar.
Í þessu hefti eru myndir af fólki sem tekst á við margvísleg vandamál þó að það eigi við sjónskerðingu að stríða. Aftast í heftinu eru viðtöl við nokkra einstaklinga sem hafa verið sjónskertir í nokkur ár. Þeir segja stuttlega frá ástandi sínu og hvernig þeir hafa tekist á við sjónskerðinguna.
Með því að taka lítil skref og hugsa um einn dag í einu gengur þér betur. Sérfræðingar með sérhæfða menntun og reynslu geta stutt þig og hjálpað þér í þeim nýju aðstæðum sem þú ert í. Það er verkefni ráðgjafa hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni þinni að sjá til þess að auka sjálfstæði þitt og sjálfstraust.
Þrjú stig aldursbreytinga í gula blettinum
FYRSTA STIGIÐ: Þegar litlir blettir í gula blettinum í augnbotninum skemmast hefjast erfiðleikar við lestur. Bókstafur getur horfið úr orði og jafnvel heilu orðin úr setningum. Beinar línur eins og dyrakarmar skekkjast og gat virðist vera í miðjunni á myndum á vegg. Samt sem áður er hægt að lesa i smáan texta með lítilli stækkun. Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að hafa góða lýsingu svo að „gatið í myndinni“ virðist minna. Hægt er að fá stækkun með því að skipta venjulegum lesgleraugum út fyrir sterk lesgleraugu eða stækkunargler sem veita stækkaða og greinilegri mynd á nethimnunni.
Afleiðingarnar eru þær að maður verður að halda textanum nær sér, kannski í 15-20 sentímetra fjarlægð í stað 33-45 sentímetra áður, annars les maður „eins og venjulega.“
ANNAÐ STIGIÐ: Nú er töluvert erfiðara að lesa dagblöð, sjá textann á sjónvarpinu eða smáatriði í fjarlægð. Skemmdum flekkjum í gula blettinum hefur fjölgað og þeir sem eru með vota tilfellið af aldursbreytingum kvarta yfir því að sjá „hlykkjótt“. Beinar línur verða hlykkjóttar.
Nú verður maður að sitja nær sjónvarpinu. Það er ekki skaðlegt fyrir augun að sitja einn metra frá sjónvarpinu. Þá verður líka að fara nær öðrum hlutum til að sjá þá betur. Einnig þarf að nota enn sterkari lesgleraugu sem stækka myndina nokkrum sinnum, jafnvel þrefalt, og lestrarfjarlægð verður 8-15 sentímetrar.
Í raun er það hin stutta fjarlægð sem veitir stækkunina en sterku gleraugun gera myndina greinilega á nethimnunni. Oftast eru bæði augun notuð en ef þörfin fyrir stækkun eykst þarf að lesa með betra auganu eingöngu. Sérútbúin lesgleraugu, stækkunargler og góð lýsing, ásamt sjónauka og kíkisgleraugum fyrir mikla fjarlægð eru eðlileg hjálpartæki á þessu stigi.
ÞRIÐJA STIGIÐ: Þegar maður getur ekki lengur lesið fyrirsagnirnar í blöðunum er miðjusvæðið því sem næst óvirkt. Oft hefst þetta stig þegar ör hafa myndast í gula blettinum á nethimnunni og eðlileg ljósboð berast ekki til heilans. Nú verður maður að læra að lesa með því að beina augunum til hliðar við textann sem á að lesa og halda honum mun nærri sér.
Þá getur verið gott að nota stækkunartæki með skjá til að stækka textann.
Að lesa mjög nálægt með sjónglerjum
Í SEnior-bæklingnum „Komdu nær“ getur þú séð og dæmt um hvaða stækkun þú þarft til að lesa venjulegan texta. Finndu út hvaða stækkun þú þarft á að halda og hvaða stækkunaraðferð hentar þér best. Gott er að hafa samráð við sjónfræðing eða sjónráðgjafa. Sjáðu til þess að þú lærir að hreyfa textann fyrir framan augun/ gleraugun ef þú þarft að halda textanum nær þér en 10 sentímetra og að þú þjálfir þannig BNP fyrir lestur.
BNP er besti nethimnupunkturinn og þýðir að þú getur lesið án þess að hafa virkan gulan blett, annaðhvort með gleraugum eins á myndinni til vinstri …
… eða með hjálp rafbúnaðar
Sjónráðgjafi hjálpar þér að finna út hvort þú getir notað stækkunartæki til lestrar. Til eru nokkrar gerðir tækja og það fer eftir stækkunarþörfinni og því hversu flókið tæki þú getur notað hvað hentar þér best.
Lestu með eyranu
Margir einstaklingar velja að hlusta á hljóðbækur í stað þess að lesa. Það eru ekki aðeins þeir sem eiga erfitt með að lesa vegna sjónskerðingar sem velja að nota hljóðbækur. Hljóðbækur eru lesnar inn á geisladiska sem hægt er að spila í flestum geislaspilurum. Til eru sérstakir spilarar, svokallaðir daisy-spilarar, sem auðvelda fólki að skipta á milli kafla eða blaðsíðna og gera lestur hljóðbókarinnar mun þægilegri fyrir sjónskerta. Þeir sem geta ómögulega lesið prentað letur eða aðeins fáein orð í einu geta sótt um að fá daisy-spilara að láni hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni.
Það getur verið gott að hlusta á þægilega rödd lesa skemmtilega bók á meðan maður slappar af, vinnur húsverkin eða eldar matinn.
Málaðu með löngum strokum
Þegar sjóninni hrakar verður erfiðara að greina smáatriði. Það er samt mikilvægt að halda áfram að mála, smíða, gera handavinnu og sinna áhugamálum, en maður verður að velja það sem ekki krefst of mikillar nákvæmni.
Það getur verið erfitt að mála gluggakarm en það er auðveldara að bera á parket. Það er erfitt að teikna andlit á fólki en maður getur málað með stórum pensilstrokum og málað mynd sem sýnir hlutina eins og maður sér þá.
Mikilvægt er að halda áfram að vera virkur og hreyfanlegur. Ef maður þarf að nota hjálpartæki þarf að komast að því hvað er til á markaðinum, þjálfa sig í að nota það og nota það með stolti og gleði!
Að horfa á sjónvarp
Þú getur vel setið nálægt sjónvarpinu án þess að augun í þér skaðist. Ef þú ert með skerta sjón getur þú fengið stærri mynd á augnbotninn með því að færa þig nær tækinu. Hversu nálægt þú átt að sitja er háð mörgum þáttum.
Ef sjón þín er mjög léleg getur þú setið mjög nálægt sjónvarpsskjánum til að sjá betur og jafnvel næstum því eins vel og áður. Annar möguleiki er að nota kíkisgleraugu sem stækka myndina þannig að þú getir setið í hefðbundinni fjarlægð í sófanum eða eftirlætis hægindastólnum.
Í dag eru flest sjónvörp flatskjáir og þeir eru með skýrari mynd en eldri tækin.
Það er kostur að nota stóran sjónvarpsskjá því þá stækkar myndin á nethimnunni á tvennskonar hátt. Annars vegar vegna lítillar fjarlægðar og hins vegar vegna stærri myndar.
Það er einnig gott að staðsetja sjónvarpsskjáinn svolítið hærra en venjulega því þá er auðveldara að sjá sjónvarpsmyndina án þess að þurfa beygja sig niður.
Texti sjónvarpsins er sendur út sem gervirödd í sumum sjónvarpsþáttum og er það kostur sem vert er að kanna. Hinsvegar getur verið erfitt að útvega sér búnaðinn og læra að nota hann.
Sittu nær sjónvarpinu ef þú vilt sjá betur. Það er engin geislun frá skjánum sem getur skaðað í þér augun. Það er einnig gott að setja skjáinn á hærra borð þannig að þú getir setið beint fyrir framan textann.
Með kíkisgleraugum er hægt að sitja lengra frá sjónvarpinu. Þessi hjálpartæki virka best þegar maður sér meira en 0,1. Finndu út hvað er best fyrir þig!
Svona getur þú skrifað
Tússpennar
Notaðu tússpenna þegar þú þarft að skrifa eitthvað niður. Skrifaðu stóra og greinilega bókstafi þegar þú ætlar að skrifa niður símanúmer, heimilisfang eða nafn, svo ekki sé talað um innkaupalistann – þá þarftu ekki að nota gleraugu eða stækkunargler til að lesa það sem þú hefur skrifað, þú stækkar einfaldlega textann.
Skrifaðu án þess að sjá hvað þú skrifar
2 lítrar mjólk
1 ostur
1 pakki kex
1 líter súrmjólk
1 agúrka
grænar baunir
Ef þú þarft að skrifa langt minnisblað er hægt að skrifa minni texta án þess að sjá sjálfur hvað skrifað er. Þegar þú ætlar að lesa textann getur þú notað sjóngler, oftast svolítið veikari gler en venjulega, þar sem skrifaði textinn er oftast stærri en prentaður texti.
Skriframmi fyrir undirskriftir
Til að auðvelda undirskriftir er sniðugt að nota skriframma. Biddu þann sem vill fá undirskriftina þína að setja rammann á réttan stað. Þú getur líka beðið þann sem vill undirskrift þína að setja fingurinn þar sem þú átt að byrja að skrifa nafnið þitt. Það skiptir ekki svo miklu máli hvort þú skrifar á línuna eða ekki.
Æfðu þig í að fylla út eyðublöð með sjónhjálpartækjunum þínum
Á eyðublöðum er oft mjög lítill texti sem segir manni hvað maður á að skrifa og hvar. Þá þarf að nota sterk lesgleraugu og staðsetja pennann á milli gleraugnanna og eyðublaðsins. Notaðu til dæmis skrifplötu sem er sett á borð eða stand á gólfinu. Það er miklu betra en að beygja sig yfir borðið.
Breiðar línur gera þér kleift að skrifa jafnt
Með hjálp breiðari lína á pappírnum er auðveldara að skrifa, bæði með og án sjóntækisins. Hafðu stafina stóra. Prófaðu og þú kemst að raun um hvernig það er!
Skrifaðu með aðstoð stækkunartækis
Æfingin skapar meistarann og eftir nokkra þjálfun finnur þú að það verður auðveldara að skrifa undir stækkunartækinu.
Það sem gerir þetta erfitt er að þú verður að horfa á skjáinn en ekki pappírinn eða pennann þegar þú skrifar.
Lyklaborðið er með greinilegustu skriftina
Með því að læra að skrifa á lyklaborð er auðveldara að skrifa læsilega skrift.
Það er best að skrifa á lyklaborðið án þess að þurfa að horfa á hvar maður setur fingurna, eða með því að æfa fingrasetningu. Það er síðan hægt að stilla stærðina á textanum sem kemur fram á skjánum og vera með skýra leturgerð.
Að spila með spilum
Með kíkisgleraugum getur áhugasamur briddsspilari sinnt ástríðu sinni áfram. Með tvöfaldri virkni kíkisgleraugna er mögulegt að sjá þau spil sem eru á „hendi“ og þau spil sem eru á borði. Fyrir marga verður það því eðlilegast í heimi að vinna í bridds. Einnig eru til spil með stærri táknum sem er auðveldara að sjá.
Sjáðu og saumaðu
Góð lýsing og einföld kíkisgleraugu (staðallausn) geta hjálpað þér að halda áfram að sauma og gera við föt þó að sjónin sé skert. Það er alltaf einhver í fjölskyldunni sem þarf á hjálp að halda frá þeim sem kann að sauma. Prófaðu og þá sérðu að þú getur meira en þú heldur – jafnvel þó að það taki lengri tíma.
Prjóna og hekla
Ef maður er vanur að gera handavinnu vill maður gjarnan halda áfram að sinna henni. Sokkar eða peysa frá ömmu eru vel þegnar gjafir, jafnvel þó að þær séu gerðar undir stækkunarlampa. Allir geta þurft hjálp við prjónauppskrift en það þýðir ekki alltaf að maður sjái illa.
Að horfa á leiksýningu
Á tónleikum getur verið gott að nota sjónauka sem maður festir í umgjörð þannig að ekki þurfi að halda um hann allan tímann.
Litlir handsjónaukar geta líka verið heppilegir. Sumir segja að það sé eins og að horfa á sjónvarp þegar sjónauki með stækkun skapar nærveru við það sem maður vill sjá betur, til dæmis andlitstjáningu og hreyfingar leikaranna.
Skilti sem vísa veginn og sýna tímann
Á flugstöðvum skiptir miklu máli að vita brottfarartíma véla og frá hvaða hliði þær fara. Þegar þú notar sjónauka skaltu fyrst horfa á hlutinn sem þú vilt sjá. Síðan beinir þú sjónaukanum að honum, stillir fókusinn og lest upplýsingarnar. Þetta gengur fljótt fyrir sig og það er ánægjulegt að geta bjargað sér sjálfur á ferðalögum.
Túlkun á óskýrum myndum
Þegar maður sér ekki smáatriðin lengur er hægt að þekkja einstaklinga eða hluti með aðstoð annarra auðkenna. Hæð einstaklingsins, göngulagið og ekki síst hvernig röddin hljómar hjálpar til og það getur verið gott að segja „Hæ Ásta, situr þú hér og málar.“ Að þekkja ekki aftur fólk getur verið erfitt. Biddu vini þína um að segja til nafns þegar þeir mæta þér. Gerðu það!
Njóttu myndlistarsýningar
Erfitt getur verið að túlka listaverk og þá er mikilvægt að sjá þau eins vel og hægt er. Með sjónauka getur maður greint og séð það sem maður vill, nánast rétt eins og aðrir. Það skiptir máli að hafa þor til að taka sjónaukann fram og fá þannig góða mynd af raunveruleikanum og því óhlutbundna.
Ljós í tilveruna
Það er mikilvægt að lesa við gott ljós. Ekki vegna þess að augun skaðist vegna lélegrar lýsingar heldur til þess að þreyta ekki augun og sjálfan sig of mikið.
Í góðu ljósi nýtist sjónkerfi augans best, sjáaldrið verður lítið, dýptarfókusinn verður nákvæmari og myndin verður betri og skýrari. Góð þumalfingursregla segir að þeir sem eldri eru þurfi að minnsta kosti fimm sinnum sterkara ljós en þeir sem eru tvítugir.
Passaðu að ljósið endurkastist ekki í augun
Sjáðu til þess að ljósið frá leslampanum komi ofan frá eða frá hliðinni þannig að það endurkastist frá pappírnum án þess að þú fáir glampa í augun. Ljósgjafinn á ekki að lýsa beint í augun á þér því þá aðlagast augun röngu ljósmagni og myndin verður ekki skýr. Þeir sem eru með ský á auga eða aðra sjónskerðingu geta verið sérstaklega viðkvæmir fyrir glampa í augunum. Þá getur verið betra að lesa við daufa lýsingu frekar en við alltof sterka. Fáðu upplýsingar um það hvað hentar þér best.
Lýsing á heimilinu
Hjá sérfræðingum á Þjónustu- og þekkingarmiðstöðinni getur þú fengið ráðleggingar varðandi betri lýsingu, til dæmis í eldhúsinu eða á baðherberginu.
Hver má keyra bíl?
Reglur um sjón eru mismunandi eftir löndum. Á Íslandi verður þú að sýna vottorð frá augnlækni varðandi sjónina þegar þú tekur bílpróf eða endurnýjar ökuskírteini. Sjónin verður að vera minnst 0,5 þegar bæði augu eru mæld samtímis. Ef maður er eineygður verður sjónin að vera minnst 0,6 og viðkomandi verður að hafa aðlagast því að vera eineygður í að minnsta kosti sex mánuði. Þá þarf sjónsvið einnig að vera eðlilegt til hliðanna. Engar reglur segja til um hámarksaldur ökumanna ef heilsan er í lagi en margir hætta að keyra bíl fljótlega upp úr áttræðu.
Sjáðu fjarlægðina úr fjarlægð
„Myndavélabrellan“ þýðir að þú tekur mynd með stafrænni myndavél (jafnvel farsíma) úr fjarlægð. Síðan setur þú upp sterku lesgleraugun þín eða stækkunarglerið og horfir á andlitið, töfluna eða götuskiltið sem þú annars gast ekki séð nema með því að fara mjög nálægt. Þetta er góð aðferð þegar maður vill sjá hvernig einstaklingar líta út eða til að skoða útsýni.
Passaðu hálsinn
Ef þú þarft að hafa litla fjarlægð þegar þú lest eða skrifar er gott að nota skrifplötu. Þá þarftu ekki að beygja hálsinn eða bakið í hvert skipti sem þú þarft að fylla út eyðublað.
Svo er líka auðveldara að setja pennann á milli sjóntækisins og pappírsins.
Vandamál með sólarljós
Notaðu vönduð sólgleraugu með vörn gegn útfjólubláu ljósi. Hægt er að sérútbúa filter-gleraugu með gulum lit sem skerpa birtuskil og veita vernd gegn hættulegum geislum frá sólinni án þess að taka frá þér of mikla birtu. Það er líka góð hugmynd að nota derhúfu til að varna því að sólin skíni í augun.
Að kaupa inn
Það getur verið erfitt að lesa á verðmiða og finna tilboð þegar maður sér illa. Biddu um hjálp og notaðu stækkunargler svo að þú getir betur séð verð, fyrningardagsetningu og aðrar upplýsingar. Ef fleiri gerðu eins og þú yrði það eðlilegra og myndi ekki vekja neina eftirtekt.
Rétt stilling á ofninum
Hægt er að telja hve margir smellir heyrast ef ofninn eða eldavélin er með stillitakka sem smellir. Einnig er hægt að merkja takkana svo að þeir sjáist betur eða setja á þá upphleyptar merkingar svo hægt sé að lesa þá með fingrunum. Þegar stilla þarf þvottavélina eða hitann á ofninum er gott að hafa stækkunargler með ljósi við höndina.
Skeiðklukka með stórum stöfum
Þegar við eldum skiptir máli að sjóða eða steikja ekki of lengi og að brauðið brenni ekki. Notaðu skeiðklukku með stórum merkingum og tölum. Þú getur jafnvel tekið klukkuna með þér út í garðinn eða út á svalir og fylgst örugglega með tímanum.
Að finna réttu hlutina og búa til góðan mat
Það er mikilvægt að geta séð vel í eldhúsinu en ef sjónin er slæm er nauðsynlegt að nota önnur skilningarvit eða bæta upp sjóntapið með sjóntækjum og þekkingu.
Maður getur notað tilfinninguna fyrir litum og formum þegar maður velur mjólk, súrmjólk, léttmjólk eða undanrennu, þar sem pakkningarnar hafa mismunandi liti og form. Góð lýsing yfir vinnusvæði eldhússins skiptir líka miklu máli þegar verið er að elda mat. Hugsaðu líka um birtumuninn og litamuninn þegar þú raðar matnum á fat. Hvítan fisk á dökkan disk og dökkan mat á hvítan disk.
Við sjáum illa en höfum það gott
Anne Kristin Lystad, 54, Noregi
Haustið 2006 greindist ég með breytingar í augnbotninum og byrjaði að finna fyrir erfiðleikum með að horfa á móti birtu. Ég varð óörugg að keyra bílinn og átti líka erfitt með að sjá andlit fólks ef ljósi var beint að mér. Ári seinna höfðu þessi einkenni dreift sér í bæði augun og líf mitt gjörbreyttist. Ég hætti að vinna og fór í veikindaleyfi. Það varð erfitt að elda mat og erfitt að fylgjast með heimavinnu dótturinnar.
Ég varð óþolinmóð og saknaði nemenda minna og samstarfsfélaga í vinnunni. Ég vildi byrja að vinna aftur eins fljótt og hægt væri og haustið 2007 byrjaði ég að vinna hlutastarf en ég geri mér grein fyrir því núna að það var of snemmt.
Það tók tíma að fá þau hjálpartæki sem ég þurfti og að læra að nota þau. Í raun er ég ekki ennþá alveg búin með það ferli.
Í vinnunni hef ég fengið mitt eigið herbergi með tölvu, stækkunartæki og góðu ljósi. Ég hef hjálpartæki heima sem gera það að verkum að ég get hjálpað til með heimaverkefni, lesið sjálf og horft á sjónvarp.
Mér finnst enn svolítið erfitt að elda mat en ljósi punkturinn er að ég er byrjuð í „matar- og menningarklúbb“ þar sem eru fleiri í sömu aðstöðu og ég. Ég hef lært mikið af þeim og við getum gefið hvert öðru styrk og góð ráð.
Henning Stensgaard, 73, Danmörku
Ég hef notað sterk lesgleraugu í tvö ár og nota þau til þess að lesa smáan texta, klippa neglur o.s.frv. Núna er ég líka með stækkunarbúnað sem hægt er að tengja við tölvuna mína og það auðveldar mér að lesa lengri texta og lestrarhraðinn er orðinn eðlilegri. Ég vinn líka töluvert við tölvuna mína með myndir sem ég hef tekið.
Nú hef ég haft stækkunartæki í nokkrar vikur og sé marga möguleika opnast fyrir mér. Ég get t.d. lesið notkunarleiðbeiningar með öllum sínum skýringarmyndum. Ég get líka sett saman einfalda hluti og einmitt núna hef ég safnað saman öllum fjarstýringum á heimilinu og lært alla stillingarmöguleika á þeim, þar á meðal á þeirri fjarstýringu sem tilheyrir mínu sjónvarpi.
Ég teiknaði og málaði þegar ég var yngri og nú er ég byrjaður á því aftur – eftir að ég fór á eftirlaun. Ég hef reynt að mála með vatnslitum undir myndavélinni á stækkunartækinu, en það krefst mikillar æfingar að horfa á skjáinn en ekki á pensilinn eða blaðið.
Það er yndislegt að geta séð allt málverkið með öllum sínum smáatriðum.
Ég þarf enga hjálp í hversdagslífinu að undanskilinni vinnu í garðinum. Ég sé ekki muninn á grasi, arfa og öðrum blómum, en ég á góðan granna sem hjálpar mér. Í sumar fer ég á námskeið í lýðháskóla. Efnið er „þróun Danmerkur frá árinu 1900“ og ég hef mjög mikinn áhuga á sögu, svo að þetta er eitthvað fyrir mig.
Gullbritt Danhage, 73, Kalstad, Svíþjóð
Ég reyni að hitta systur mínar tvær, bróður minn og dóttur eins oft og áður en nú tekur það lengri tíma. Áður hafði ég bílinn og gat keyrt en nú verð ég að taka lestina til Straumstaðar þar sem þau búa.
Ég er þrátt fyrir aldurinn mjög áhugasöm um ljósmyndun og að hlaða inn myndum í tölvuna. Ég skrifa líka afmæliskveðjur og hamingjuóskir til allra ættingja í tölvunni og þá nota ég stækkunarforrit og stækkunartækið mitt góða.
Þegar ég fer út er ég oftast með hvítan staf til að gefa til kynna að ég sé sjóndöpur af því að ég hef enga ástæðu til að skammast mín fyrir það að sjá illa. Það er jú oft eldra fólk sem sér illa og þar að auki er það ekki mér að kenna.
Fyrir þremur árum kom ég fyrst til Sjónstöðvarinnar í Svíþjóð og þar hef ég fengið góða hjálp með sjóntæki og stækkun, bæði nær og fjær, og lært að nýta mér það.