Auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Minningarsjóðnum „Gefum blindum augum sjón“ á árinu 2023.

Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 15. október 2023.

Markmið sjóðsins er að stuðla að framþróun og nýjungum í augnlækningum með því að veita læknum og vísindamönnum styrk, er leita sér formlegs framhaldsnáms í augnlækningum erlendis eða leggja stund á vísindarannsóknir á því sviði.

Í umsókninni þurfa eftirtalin atriði að koma fram:

  1. Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og netfang.
  2. Helstu atriði úr náms- og starfsferli umsækjanda.
  3. Ef sótt er um styrk vegna framhaldsnáms: Að gefa ítarlegar upplýsingar um námið og áætlun um námsframvindu. Upplýsingar um annan fjárhagslegan stuðning við verkefnið komi einnig fram.
  4. Ef sótt er um styrk vegna rannsóknarverkefnis: Að gefa upplýsingar um heiti rannsóknarverkefnisins, markmið og vísindalegt gildi þess. Hnitmiðuð lýsing á verkefninu, 2-3 málsgreinar, sem verður nýtt til almennrar umfjöllunar og kynningar hljóti verkefnið styrk.
  5. Veigameiri lýsing á rannsóknarverkefninu, ein blaðsíða að hámarki. Fram komi hvernig verkefninu er ætlað að auka við núverandi þekkingu á efninu og hvernig verkefnið samræmist markmiðum sjóðsins. Sé ætlunin að óska eftir stuðningi við hluta af stærra verkefni skal koma fram til hvaða þáttar sótt er um.
  6. Tímaáætlun, fjárhagsáætlun og yfirlit yfir helstu samstarfsaðila í verkefninu. Upplýsingar um annan fjárhagslegan stuðning við verkefnið komi einnig fram.
  7. Nöfn, símanúmer og netföng þeirra sem leita má til um meðmæli.
  8. Gert er ráð fyrir því að styrkþegi skili sjóðnum greinargerð um stöðu verkefnisins innan árs frá afhendingu styrksins.

Hámarkslengd umsóknar er þrjár síður. Farið er með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Stjórn áskilur sér rétt til að veita fleiri en einum umsækjanda styrk, hafna öllum og/eða úthluta styrkjum með öðrum hætti.

Umsóknum skal skila sem viðhengi til Sigríðar Dísu Gunnarsdóttur hjá Sjónstöðinni – þjónustu- og þekkingarmiðstöð (sigridur.d.gunnarsdottir@midstod.is). Áætlað er að úthlutun fari fram í október 2023.

Dánarbú Kjartans Magnússonar (f. 1926, d. 2012) stofnaði sjóðinn til minningar um son Kjartans, Jón Finn Kjartansson, sem fæddist árið 1973 og lést árið 1991. Umsjón með sjóðnum hefur Sjónstöðin – þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón-og heyrnarskerðingu.

Sjónstöðin starfar skv. lögum nr. 160 frá 2008 og heyrir undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.

Markmiðið starfseminnar er að auka möguleika þeirra sem eru blindir, sjónskertir eða með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu til virkni og þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra, með áherslu á stuðning til náms, sjálfstæðs heimilishalds, virkra tómstunda og atvinnuþátttöku. Í því skyni sinnir Sjónstöðin ráðgjöf, hæfingu og endurhæfingu, auk þess að afla og miðla þekkingu á aðstæðum notenda í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum.