Bæklingur um punktaletur fyrir foreldra og kennara.

Hér má nálgast bæklinginn sem PDF-skjal. 

Áður en barn byrjar að lesa

Að lesa upphátt fyrir börn örvar málþroska þeirra og það gildir einnig um blind og sjónskert börn. Blind börn þurfa að fá sömu tækifæri og sjáandi börn og það fá þau með því að hafa aðgang að áþreifanlegum og upp­hleyptum myndum. Þess vegna er mikilvægt að fullorðnir lesi upphátt og noti þreifibækur fyrir ung blind börn.

Þreifibók inniheldur texta sem er bæði á punktaletri og svartletri ásamt áþreifanlegum myndum. Áþreifanlegar myndir hafa mismunandi áferð og eru í sterkum litum til að auðvelda sjónskertum börnum að greina þær. Barnið getur líka þreifað á punktaletrinu og lært að skilja og átta sig á að punktaletrið er eitthvað sem tengist lestri.

 

Byrja að lesa

Mikilvægt er að barn hafi aðgang að bókum á punktaletri sem eru ætlaðar ungum börnum. Í allra fyrstu þreifibókunum er gott að hafa stærra línubíl og sleppa ákveðnum punktaleturstáknum, svo sem tákni fyrir stóran staf og punkti í lok setningar. Punktaletursbækur þurfa að vera aðgengilegar fyrir alla aldurshópa til að æfa lestur.

Punktaletursbækur eru til á mismunandi formi:

  • Einfaldar þreifibækur með stökum áþreifanlegum myndum og stökum orðum á punktaletri.
  • Punktaletursbækur með áþreifanlegum myndum og punktaleturstexta.
  • Upprunaleg bók á svartletri og sama bókin á punktaletri þar sem fullorðinn getur haft aðgang að upprunalegu bókinni og stutt barnið í lestrinum.
  • Upprunaleg bók þar sem búið er að bæta við punktaletursblaðsíðu (á gegnsæju formi) á viðeigandi staði í bókinni. Þá geta sjáandi og blind börn lesið saman og/eða fullorðnir blindir lesið fyrir sjáandi börn.
  • Hljóðbók sem einstaklingur getur hlustað á og lesið samtímis í punktaletursbók eða á punktaletursskjá.

 

Þegar barn getur lesið flóknari texta

Vinsælar barna- og unglingabækur þurfa að vera aðgengilegar á punktaletri. Hægt er að setja einstaka þreifimyndir í bækurnar. Fræðibækur geta verið áhugaverðar og hvatt til punktaleturslesturs.

 

Leiðin að punktaletri

Punktaletur samanstendur af upphleyptum punktum sem viðkomandi les með fingrunum. Punktaletur er blindum jafn nauðsynlegt og svartletur er fyrir sjáandi; fyrir skrift, lestur, tómstundir, yndislestur og tölvunotkun.

Kunnátta í punktaletri felur í sér að einstaklingur geti skrifað, lesið og einbeitt sér að textanum og túlkað á eigin máta.

 

Aðgengi að punktaleturs- og hljóðbókum

Sjónstöðin – þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu sér um útgáfu á punktaletursbókum. Notendur geta óskað eftir bókum sem þeir vilja fá á punktaletri með því að hafa samband í síma 545 5800 eða á netfangið midstod@midstod.is.

Hljóðbókasafnið sér um útlán á hljóðbókum. Þar er hægt að hafa samband í síma 545 4900 eða á hbs.is.

 

Rannveig Traustadóttir þýddi úr sænsku, 2020.
Unnið úr efni frá Myndigheten för tillgängliga medierwww.mtm.se .