Vissir þú …?

  • að birtuþörfin sexfaldast á 40 árum
  • að með aldrinum er augað lengur að aðlagast mismunandi birtu
  • að lýsing þarf að vera sniðin að þörfum hvers og eins
  • að með bættri lýsingu aukum við öryggi okkar á ódýran hátt
  • að sólin er besti ljósgjafinn

 

Augað, öldrun og ljósið

Oftast verður fyrst vart við aldursfjarsýni um fertugt. Fólk hættir að sjá skýrt í eðlilegri lesfjarlægð og þarf lesgleraugu. Því eldri sem við verðum því sterkari þurfa gleraugun að vera.

Margir þættir spila inn í öldrun augans. Augasteinninn missir sveigjanleikann, ljósopið minnkar, glerhlaupið gruggast og næmi sjónhimnu minnkar.

Þetta kallar á aukna birtuþörf. Gott er að hafa hugfast að þegar ungt fólk býr sér heimili er þörfin fyrir ljós miklu minni en þegar við verðum eldri en oft gleymist að bæta við ljósgjöfum eftir því sem árin líða. Þegar augnsjúkdómar bætast við öldrun er enn mikilvægara að huga vel að lýsingu.

Þess ber þó að gæta að þegar hindrun verður á ferð ljóssins inn í augað þá dreifist það í auganu og getur valdið ofbirtu. Það er því að mörgu að huga þegar við veljum lýsingu.

 

Góð ráð varðandi lýsingu

Lýsing þarf að vera sniðin að þörfum hvers og eins og ráða verkefnin því hversu mikið ljós við þurfum. Auk þess þurfa sjónskertir einstaklingar sérsniðna lýsingu á mörgum stöðum.

Við hleypum inn meiri dagsbirtu með því að halda gluggum hreinum og gardínum frádregnum. Forðist samt beint sólarljós innanhúss, það skapar ofbirtu.

Litir í herbergjum skipta líka miklu máli hvað varðar birtu og vellíðan. Til dæmis endurkastar hvítur flötur um 80% af ljósi en dökkur bara 10%.

Góð lýsing þarf að vera í stigum og göngum innanhúss. Reynið að varast myrk svæði með því að dreifa lýsingunni og forðist mikinn birtumun milli herbergja.

Í eldhúsi er gott að hafa sérstaka lýsingu í og undir skápum og yfir eldavél.

Í baðherbergi ætti að vera ljós yfir vaski og góð lýsing yfir spegli eða sitthvoru megin við hann.

Þarft er að hafa góða almenna lýsingu og næturlýsingu í svefnherbergjum. Einnig sveigjanlegan leslampa sem skermir af birtu yfir rúmi og ljósarofa við rúmið.

Í stofu þar sem dvalið er löngum stundum þarf að vera bæði vinnulýsing og hvíldarlýsing. Góður vinnulampi við borð eða stól þar sem lesið er eða handavinna er unnin er nauðsynlegur. Gott er að hafa möguleika á að deyfa eða auka lýsingu eftir þörfum í stofunni.

 

Hafa ber í huga við val á vinnuljósi, að velja lampa sem:

  • er stöðugur en sveigjanlegur
  • auðvelt er að kveikja á og slökkva
  • auðvelt að þrífa og skipta um peru
  • hefur góðan skerm til að verjast ofbirtu
  • hitnar ekki of mikið.

Halógenperur gefa bjartasta og hvítasta ljósið en þær hitna mikið sem er ókostur.

Flúorljós og sparperur eru bjartar og ódýrar og hitna ekki jafn mikið og halógenperurnar.

 

1. útg. 2009
2. útg. júlí 2012