Tveir starfsmenn Sjónstöðvar rötuðu í frétt á Vísir.is um helgina, í tengslum við samstarfsverkefni Sjónstöðvar, Hopp Reykjavikur og leiðsöguhundadeildar Blindrafélagsins um vitundarvakningu varðandi umgengni á gangstígum og gangstéttum. Það er því tilvalið að minna fólk á mikilvægi góðrar umgengni nú þegar haustið er gengið í garð og styttist í mögulega vetrarfærð.

Leiðsöguhundar eru þjálfaðir í að upplifa sjálfa sig sem 2 metra háa og breiða til að gera ráð fyrir nógu miklu rými fyrir notandann og því er það oft svo að leiðsöguhundur stoppar við aðstæður þar sem manneskja ein og sér gæti annars smeygt sér, t.a.m. á milli tveggja kyrrstæðra bíla. Aðskotahlutir á gangstétt geta því valdið hundunum vandkvæðum þegar þeir þurfa að velta fyrir sér hvað sé nægjanlegt pláss fyrir „tveggja metra breiðan hund“ sem ber ábyrgð á sjónlítilli manneskju. Á hundurinn að fara hinum megin við hindrunina, af gangstéttinni og nær akvegi? Eða út í runna til að skapa meira pláss fyrir notandann?

Burtséð frá leiðsöguhundum og notendum þeirra þá eru margir samfélagshópar sem líða fyrir aðskotahluti í gangveginum. Þeir sem ferðast um í hjólastólum, með barnavagna eða göngugrindur, og allir þeir sem af einhverjum ástæðum eiga erfitt um gang geta þurft að beita sér öðruvísi eða taka á sig krók þegar á vegi þeirra verður illa lagt farartæki, hvort sem það er hlaupahjól, reiðhjól eða bíll.

Höfum i huga að tillitssemi kostar ekkert og er yfirleitt frekar auðveld ef fólk bara man eftir henni.

—–

Á vef Sjónstöðvarinnar má finna leiðbeiningar í umgengni við leiðsöguhunda, sem birtar voru í tilefni Alþjóðadags leiðsöguhunda sem er 26. apríl ár hvert.