Hér má nálgast bæklinginn sem PDF-skjal.

Þegar glær eggjahvítuefni augasteinsins verða mött og hleypa illa í gegnum sig ljósi er sagt að ský sé á augasteininum. Sjónin verður þá óskýr eins og horft sé í gegnum hrímað gler. Margir sem komnir eru yfir 60 ára aldur hafa einhvers konar skýmyndun á augasteini. Nokkuð auðveldlega er hægt að meðhöndla meirihlutann af þeim.

Augasteinninn er gerður úr glærum eggjahvítuefnum og er staðsettur fyrir aftan ljósopið og lithimnuna, en það er litaði hlutinn af auganu. Augasteinninn hjálpar til við að beina ljósi í fókus á sjónhimnuna aftast í auganu. Til að myndin verði skörp þarf augasteinninn að vera glær.

Áhrif skýmyndunar á sjónina

  • Óskýr sjón: Þetta er mjög algengt. Sjónin getur orðið óskýr eða þokukennd og þér gæti liðið eins og þú sért með óhrein eða rispuð gleraugu.
  • Glýja: Viðkomandi getur blindast af skæru ljósi.
  • Breytingar á litasjón: Litir gætu virst upplitaðir.

Þessi augnvandamál geta líka verið merki um aðra augnsjúkdóma og ef þessi einkenni eru til staðar þarf að ráðfæra sig við augnlækni. Reglulegar augnskoðanir hjá augnlækni geta hjálpað við að greina ský á augasteini sem og aðra augnsjúkdóma.

 

Ástæða fyrir skýmyndun á augasteini

Ský á augasteini getur komið fram á hvaða aldri sem er. Algengasta tegundin er aldurstengd og ágerist eftir því sem fólk eldist. Í ungu fólki getur ský myndast í tengslum við til dæmis sykursýki, notkun ákveðinna lyfja eða í tengslum við aðra augnsjúkdóma. Börn geta einnig fæðst með matta augasteina eða með svokallaðan congenital cataract.

Ekki er enn að fullu vitað hvað veldur skýmyndun á augasteini. Ýmsir þættir geta haft áhrif og hafa rannsóknir tengt reykingar, mikið sólarljós og slæmt mataræði við skýmyndun. Þá er aukin tíðni skýmyndunar í tengslum við sykursýki vel þekkt.

 

Meðferð

Ein árangursríkasta meðferðin við skýmyndun felst í því að fjarlægja augasteininn. Áður fyrr biðu augnlæknar oft með aðgerð þangað til sjónin var orðin verulega slæm, eða um 10%. Nú er aðgerð yfirleitt framkvæmd um leið og skýmyndunin hefur áhrif á daglegar athafnir eins og akstur, lestur eða vinnu.

Fyrir aðgerðina:
Augað er vandlega skoðað fyrir aðgerðina. Það gæti verið þörf á sérheimsókn til augnlæknis fyrir aðgerð.

Í aðgerðinni:
Yfirleitt er deyfing notuð. Viðkomandi er þá vakandi meðan á aðgerðinni stendur og finnur ekki fyrir neinum sársauka í auganu. Venjulega útskýrir augnlæknir hvað fer fram meðan á aðgerðinni stendur. Meðan á aðgerðinni stendur getur viðkomandi séð hreyfingar en engin smáatriði. Það er hægt að fá svæfingu í staðinn fyrir deyfingu ef nauðsyn krefur. Augnlæknir framkvæmir aðgerðina með hjálp smásjár í gegnum lítinn skurð á auganu. Opið er svo lítið að yfirleitt er ekki er þörf á að sauma það. Aðgerðin tekur aðeins 10 til 20 mínútur.

Í aðgerðinni er augasteinninn fjarlægður og í staðinn sett glær plast- eða sílíkonlinsa svo hægt sé að sjá vel eftir aðgerðina. Afturhýði upprunalega augasteinsins er þó skilið eftir til að veita linsunni stuðning. Linsan kallast „intraocular lens implant“ og er fest varanlega inni í auganu. Það er engin hætta á að augað hafni linsunni.

Aðgerð við skýmyndun er ekki gerð með lasergeislum en stundum er þörf á lasermeðferð eftir á ef afturhýðið verður matt eins og stundum getur gerst.

Eftir aðgerð:
Flestir fá betri sjón strax eftir aðgerð, en það getur tekið nokkra mánuði fyrir augað að gróa til fulls. Viðkomandi gæti áfram þurft að nota gleraugu eftir aðgerð, sérstaklega við lestur, því nýi augasteinninn er venjulega valinn fyrir skýra sjón í fjarlægð.

Ef viðkomandi notaði gleraugu fyrir aðgerðina, til dæmis vegna nærsýni, mun þörfin fyrir gleraugu breytast. Það er hægt að losa fólk við sterk gleraugu með augasteinsaðgerð vegna skýmyndunar. Best er að ráðfæra sig við augnlækni um það mál.

Eftir aðgerð fær viðkomandi augndropa til að nota í um það bil 2-4 vikur. Mælt er með að fá aðstoð ef fólk á í erfiðleikum með að setja augndropana í augað.

Flestir sem gangast undir aðgerðina fara heim samdægurs og munu að öllum líkindum geta haldið áfram með daglegar athafnir. Þó þarf að hafa eftirfarandi í huga:

  • Forðist að nudda augað; ræðið við augnlækni um að nota lepp fyrir augað.
  • Ekki lyfta þungum hlutum og forðist erfiða líkamsrækt og sund.
  • Hafið varann á við hárþvott og forðist að fá hársápu í augað.
  • Forðist að nota augnmálningu þar til læknir segir að það sé í lagi.

Augnlæknirinn getur svarað þeim spurningum sem þú hefur. Hann ákveður einnig hvenær þú getur hafið störf á ný og ekið bíl. Þá ákveður hann hvenær næsta augnskoðun fer fram.

Aðgerð við skýi á augasteini er ein árangursríkasta aðgerð sem völ er á. Minna en 1% sjúklinga verður fyrir ófyrirsjáanlegum vandamálum. Þó er algengt, sérstaklega hjá öldruðum, að sjónskerpan verði ekki fullkomin eftir aðgerðina. Ástæðan er oftast aldurstengdar augnbotnabreytingar.

Eitt algengasta vandamálið eftir aðgerð er þykknun sem oft myndast í afturhýði upprunalega augasteinsins sem skilið er eftir við aðgerðina. Þetta vandamál er auðvelt og fljótlegt að meðhöndla með lasergeislum.

Ef einhverjar spurningar vakna skaltu ráðfæra þig við lækni.

 

Yfirlesið í október 2023, EDJ.