Í dag voru afhent verðlaun og viðurkenningar fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu á ráðstefnunni Skapandi opinber þjónusta sem haldin var á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.  

Miðstöðin hlaut viðurkenningu fyrir nýsköpun í opinberri þjónustu og segir eftirfarandi um verkefni Miðstöðvarinnar, uppbyggingu starfseminnar og hugmyndafræði:

„Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda var stofnuð 2009. Helstu verkefni hennar eru ráðgjöf, kennsla og endurhæfing. Hugmyndafræði Miðstöðvarinnar er að sinna notendum, aðstandendum, kennurum og öðrum úr nærumhverfinu. Þjónustan fer fram í því umhverfi sem notandinn er í og á hans forsendum svo sem inná heimili, skóla, vinnustað, í tómstundaiðju og öðru til að stuðla að virkni, vinna gegn félagslegri einangrun og auka sjálfstæði. Hjá Miðstöðinni er hver einstaklingur metin út frá eigin getu og þörfum.  Þetta háa þjónustustig og aðferðafræði um fyrirbyggjandi þjónustu  þar sem hið opinbera sýnir frumkvæði að því að hafa samband við einstaklinga og tryggja þjónustu og ráðgjöf hefur vakið athygli og ánægju viðskiptavina Miðstöðvarinnar og aðferðafræðin hefur vakið athygli erlendis. Með stofnun Miðstöðvarinnar hefur þjónusta við blinda, sjónskerta  og daufblinda einstaklinga batnað til muna og sjálfstæði notenda aukist.“

Í umsögn valnefndar kemur m.a. fram að hún telji að uppbygging starfseminnar sé til fyrirmyndar og feli í sér að hugmyndafræði um að þjónusta einstakling með sérþarfir á forsendum hans sé raunverulega hrint í framkvæmd með einstökum árangri, sem hefur leitt til straumhvarfa fyrir skjólstæðinga stofnunarinnar og stuðningskerfi hans.   Verkefnið skiptir skjólstæðinga stofnunarinnar miklu, það hefur mikið almannagildi og hefur þegar skilað mælanlegum árangri.  Hægt er að yfirfæra hugmyndafræði þess á aðra þætti opinberrar þjónustu.     

Nánari upplýsingar má finna á  www.nyskopunarvefur.is

  ""