Punktaletur, einnig kallað blindraletur, er upphleypt letur byggt á sex punkta einingum (sellum (e. cells)). Hægt er að raða punktunum upp á 63 mismunandi vegu og mynda þannig 63 mismunandi tákn. Með því er hægt að mynda alla stafi stafrófsins, tölustafi, greinarmerki og alls kyns tákn. Ákveðin samræming er milli stafrófa sem notast við latneskt letur, þar með talið íslenska punktaletursstafrófið, en hafa ber í huga að þær punktasamsetningar sem tákna séríslenska stafi og broddstafi geta táknað aðra bókstafi í öðrum tungumálum.

Til að lesa megi punktaletur með fingrunum verða punktarnir að vera upphleyptir og til þess eru ýmsar leiðir.

Punktaletursprentari

Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin á einn stóran punktaletursprentara sem prentar á pappír af risastórri rúllu og sker hverja síðu fyrir sig jafnóðum. Á hverja blaðsíðu komast 27 línur og 33 stafabil í hverja línu.

Punktaletursprentarar til einkanota eru fyrirferðaminni.

Ritvél

Sérstök ritvél er notuð til að skrifa letrið, svokölluð punktaletursritvél (stundum nefnd Perkins-ritvél). Ritvélin hefur sex skriftartakka, þrjá vinstra megin og þrjá hægra megin, en á milli þeirra er takki sem slegið er á vilji menn gera bil á milli orða.

„Notetaker“

Braille-lófatölva, öðru nafni „notetaker“ sem hefur innbyggðan punktaletursskjá og tengingu við punkta- og svartletursprentara. Tækið er sérstaklega hugsað fyrir börn á aldrinum 4-12 ára.

Punktaletursskjár

Svokallaðir punktaletursskjáir (e. Braille displays) eru tæki sem tengja má við tölvur eða snjalltæki og birta texta úr þeim með því að lyfta upp mismunandi punktum á punktasvæðum (sellum). Stærð tækjanna fer eftir fjölda slíkra sella, sem geta verið frá 14 upp í 80.

Úthlutun punktaleturshjálpartækja:

Flest þessara tækja er hægt að fá úthlutað á fimm ára fresti, eigi viðkomandi rétt á því skv. mati sérfræðinga. Nánari upplýsingar er að finna undir „Hjálpartæki.“