Að hella í glas eða annars konar ílát getur verið mikil áskorun fyrir blinda og sjónskerta, sérstaklega þá sem hafa notast við sjónina í daglegu lífi framan af lífsleiðinni. Slíkt getur krafist æfingar en hér á eftir fylgja nokkur atriði sem hægt er að nýta sér á meðan verið er að komast í æfingu.

  1. Gott er að æfa sig að hella yfir vaski. Það getur sparað þrifnað ef eitthvað hellist út fyrir.
  2. Ef hellt er úr fernu, flösku eða annars konar íláti með stút, getur verið gott að taka um stútinn og beina honum að glasinu áður en hellt er.
  3. Mörgum reynist auðveldara að hella úr fernum með tappa sem hægt er að skrúfa af. Þar með er stúturinn sýnilegri og ekki þörf á að opna fernuna með skærum, og gott er að hafa það í huga við innkaup.

Hér koma 7 aðferðir sem geta hjálpað þér við að hella í glas og jafnframt til að forðast að þú hellir niður. Fyrsta aðferðin er sjónræn en hinar leggja áherslu á önnur skynfæri. Að sjálfsögðu er algjörlega persónubundið hvaða aðferð menn vilja tileinka sér og fer það eftir styrkleikum og aðstæðum hvers og eins.

1. Litamunur.

Ef munur er á lit ílátsins sem hellt er í og lit vökvans er hægt að nýta sér muninn til að átta sig á því hvort ílátið sé orðið fullt. Til dæmis væri hægt að hella kaffi í glæran eða hvítan bolla eða vatni í dekkra ílát.

2. Að nota fingur

Til að átta sig á magni vökva í ílát nýta margir sér þá aðferð að setja efsta hluta vísifingurs í ílátið. Þegar vökvinn er kominn upp að fingrinum er ílátið orðið fullt.

Ef vökvinn er volgur eða nálægt líkamshita getur verið erfiðara að átta sig á því þegar hann snertir fingurinn. Eins og gefur að skilja er þessi aðferð ekki hentug þegar um heitan vökva er að ræða, þar sem þá er hægt að brenna sig á fingrinum. Til að forðast sýkla er ráðlegt að sótthreinsa hendurnar áður en hellt er í ílátið. Þetta á sérstaklega við þegar skenkja á öðrum í glas.

3. Vökvaskynjari

Ef þú vilt heldur nýta þér hjálpartæki við að hella í ílát eru ýmsar gerðir af vökvaskynjurum í boði. Vökvaskynjarar eru lítil og þægileg tæki sem passa í vasa og veski. Á þeim eru tveir litlir málmpinnar sem nema mjög auðveldlega vökva. Tækið er hengt yfir brúnina á glasinu þannig að pinnarnir eru ofan í því.  Skynjarinn gefur frá sér lágt væl þegar vökvi kemst í snertingu við pinnana. Einnig eru til skynjarar sem titra og eru þeir sér í lagi hentugir fyrir daufblinda einstaklinga. Vökvaskynjararnir nýtast ekki aðeins við að hella í glös og bolla, en þeir þykja afar þægilegir þegar fljótandi fæðu er hellt í skálar, t.d. súpu eða jógúrt. Vökvaskynjarar eru ekki meðal hjálpartækja sem Miðstöðin úthlutar til notenda, en þeir fást á sanngjörnu verði í verslun Blindrafélagsins í Hamrahlíð 17.

4. Að nota heyrnina

Hægt er að þjálfa heyrnina til að vita hvort ílát með vökva er orðið fullt. Því hærra sem vökvinn er kominn í ílátið, því hærra hljóð heyrist. Þetta er aðferð sem þarf að þjálfa og eins og gefur að skilja er fólk misfljótt að því. Til að heyra hljóðið betur er gott að halda ekki í ílátið sem hellt er í og passa að ekkert rekist í það sem getur dempað hljóðið.

5. Að nota borðtennisbolta eða korktappa

Borðtennisboltar og korktappar fljóta upp í vökva.  Því nýtist þetta við að vita hvort ílát sé fullt, án þess að þurfa að reiða sig á sjón. Ef hönd er lögð yfir ílátið og borðtennisboltinn eða korktappinn nemur við höndina er það vísbending um að nægur vökvi sé kominn í ílátið. Borðtennisboltar þola sjóðandi vökva og eru því sniðugir, til dæmis þegar te er hellt í bolla.

6. Að nota hita

Ef heitum vökva er hellt í ílát er hægt að finna utanvert hve mikill vökvi er í því. Ef hiti vökvans nær upp fyrir brún má ætla að ílátið sé fullt. Þó krefst þessi aðferð svolítillar þolinmæði, þar sem það getur tekið tíma fyrir ílátið að hitna. Ef ílát er þykkt getur einnig verið erfitt að nýta sér hitamuninn.

7. Að nýta þyngd

Ef maður áttar sig á því hve þungt fyllt ílát er, getur verið auðvelt að nota það sem viðmið. Þessi aðferð krefst þó þjálfunar og þolinmæðisvinnu, þar sem það getur tekið tíma að átta sig á þyngdinni sem gefur til kynna að ílátið sé fullt. Ef nota á þessa aðferð er gott að einfalda sér lífið og vera með ílát af sömu eða svipaðri gerð á heimilinu.

 

Ef þig eða aðstandanda vantar aðstoð við að tileinka sér að hella, eða annars konar athafnir daglegs lífs vegna blindu eða sjónskerðingar, er upplagt að heyra í ráðgjöfum Miðstöðvarinnar sem munu veita alla þá aðstoð sem þarf.

Gangi þér vel!

Iva Marín Adrichem
16. júlí 2021