Að vera blindur felur óhjákvæmilega í sér ákveðnar hamlanir þegar kemur að samskiptum sem flestir eiga í án orða og nota því sjónina. Blindir eða verulega sjónskertir einstaklingar missa t.d. af látbragði, bendingum, svipbrigðum og öðrum hlutum sem flestum finnst sjálfsagðir og taka ekkert endilega eftir. Því er algengt að fólki bregði eða verði óöruggt þegar það á í samskiptum við fólk sem ekki sér. Ýmsar spurningar vakna, t.d. hvort, og þá hvernig, eigi að aðstoða blinda einstaklinga eða hvort nota megi orð á borð við „sjáumst“ eða „horfa“.

Við þessum vangaveltum eru auðvitað engin rétt eða röng svör. Öll erum við auðvitað mismunandi og með ólíkar þarfir og það á við um blinda sem sjáandi. Sumir líta á eigin blindu eða sjónskerðingu sem mikla fötlun og þurfa því mikla aðstoð og tilsögn á meðan aðrir eru afar sjálfstæðir og kæra sig ekki um aðstoð frá ókunnugu  fólki. Svo eru enn aðrir sem eru með starfsmenn á eigin vegum sem ráðnir eru til þess að vera nokkurs konar augu vinnuveitanda síns og aðstoða eftir þörfum og óskum viðkomandi. Ef maður gerir sér ekki grein fyrir því hvort blindan einstakling vanti aðstoð er auðveldlega hægt að komast að hvort svo sé með því að spyrja hreint út. Setningar eins og „vantar þig hjálp?“ eða „má bjóða þér aðstoð?“ eru sjálfsagðar og þá er sett í hendur einstaklingsins sjálfs hvort hann þiggi aðstoð eða ekki. Flestum finnst þægilegra að vera spurðir og því telja flestir ókurteisi ef tekið er fram fyrir hendurnar á þeim, t.d. með því að leiða óumbeðið yfir götu eða taka af þeim hluti.

Þegar fólk er ekki vant því að umgangast einstaklinga sem sjá lítið eða ekki, veltir það oft fyrir sér hvort ýmis konar orðalag tengt daglegum athöfnum sé viðeigandi, eða gæti hreinlega virkað stuðandi. Þar má m.a. nefna orð sem tengjast sjón, á borð við lesa, horfa, sjá og sjást. Þó svo blindir og sjónskertir noti önnur skynfæri til að gera ofangreinda hluti eru flestir, bæði blindir og sjáandi, lítið að elta fyrir sér gildi þessara orða í daglegu tali og líta bara á þau sem eðlilegan hluta af tungumálinu. Að aðlaga orðræðuna að veruleika blindra eða sjónskertra getur einnig orðið frekar kjánalegt og þvingað, eins og að segja „Varstu búinn að hlusta á nýjasta þáttinn?“ eða „Hvaða bók ertu að snerta núna?“. Það skiptir máli fyrir alla að eiga samskipti sem flæða vel og virka óþvinguð og fyrirhafnarlaus og því er best að aðlaga orðræðu sem minnst, nema ef blindur eða sjónskertur einstaklingur biður um það sjálfur.

Þegar fólk verður óöruggt á það til að bregðast skringilega við aðstæðum. Algengt virðist vera að fólk sem finnur til óöryggis í samskiptum við blinda og sjónskerta forðist að tala við viðkomandi og á það til að tala um hinn blinda eða sjónskerta í þriðju persónu, að honum viðstöddum, við þann sem er með honum. Eins og gefur að skilja jafngildir skortur á sjón ekki skorti á heyrn, skilningi eða greind og því er ekkert því til fyrirstöðu að eiga bein og milliliðalaus samskipti við blindan eða sjónskertan einstakling. Langflestu fullorðnu fólki finnst dónalegt og niðurlægjandi ef talað er um það, en ekki við það, þegar það er fullfært um að svara fyrir sig sjálft og þar eru blindir eða sjónskertir engin undantekning.

Í raun eru því engar sérstakar umgengnisreglur sem hafa þarf í huga þegar átt er í samskiptum við blinda eða sjónskerta einstaklinga. Líkt og í samskiptum við flesta aðra, eru tillitsemi, gagnkvæm virðing og opin framkoma lykillinn að velgengni og þægilegum samskiptum.

Iva Marín Adrichem
28. júlí 2021