Gott viðmót er mikilvægt fyrir einstakling með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu – og það er ekki erfitt að koma rétt fram, ef þú veist hvernig. Nýttu þér þessi einföldu ráð!

1. Skipulegðu rúman tíma fyrir fundinn. Einstaklingar með sjón- og heyrnarskerðingu geta þurft lengri tíma fyrir samskipti og til að taka á móti upplýsingum.

2. Veldu föt í litum sem sjást einstaklega vel í samanburði við lit andlits þíns og handa. Það er auðveldara að skilja tal og hreyfingar ef bæði bakgrunnur og föt eru ólík húðlit þess sem talar.

3.  Veldu stað sem hentar vel til samtals! Gakktu úr skugga um að herbergið hafi bæði góða lýsingu og góðan hljómburð. Dragðu úr eða útilokaðu alveg utanaðkomandi hljóð. Spurðu einstaklinginn hvar væri best að þú sitjir út frá sjón og heyrn einstaklingsins. Gerðu ráð fyrir smá tíma til að þið getið prófað ykkur áfram.

4. Ef túlkur er viðstaddur á fundinum skaltu alltaf beina tali þínu að einstaklingnum með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, ekki að túlkinum. Leyfðu einstaklingnum með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og túlkinum að setjast fyrst. Síðan getur þú sest við hliðina á túlkinum ef það er hægt.

5. Kynntu þig með nafni eða persónutákni og náðu sambandi, það er ekki nóg að bara segja „hæ“. Það hjálpar að klappa létt á upphandlegginn. Talið saman um hvernig snerting er viðeigandi á þessum fundi. Heilsaðu á sama hátt ef þú ferð út úr herberginu og kemur inn aftur.  

6.  Það hjálpar að byrja fundinn á því að lýsa herberginu og umhverfinu þar sem þið eruð. Á meðan á fundinum stendur er gott að setja orð á það sýnilega í herberginu, t.d. viðbrögð, tilfinningar og það sem er gert.

7. Hvað erum við að tala um? Það getur verið erfitt að fylgjast með þegar skipt er hratt um viðfangsefni. Vertu því sérstaklega skýr þegar þú skiptir yfir í nýtt viðfangsefni.

8. Mundu að tala skýrt og ekki of hratt. Það á við um bæði talað mál og táknmál. Ef einstaklingurinn skilur ekki það sem þú ert að segja er betra að umorða það sem þú sagðir í stað þess að endurtaka sömu setningu aftur og aftur.

9.  Það hjálpar oft að nota snertingu í samskiptunum. Þú getur t.d. staðfest eða sýnt að þú ert með á nótunum með léttu klappi á upphandlegginn. Talið fyrst saman um hvernig snerting er viðeigandi.

10. Gerðu hlé ef fundurinn er langur. Það krefst mikillar orku að bæta upp fyrir sjón- og heyrnarskerðingu.

11. Ef þið farið í göngutúr eða gangið um herbergið skaltu bjóða einstaklingnum með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu handlegginn svo hann/hún geti fylgt þér.

12. Ef þú ert ekki viss hvað er rétt – ekki hika við að spyrja!

 

Upprunalega frá Nationellt kunskapscenter för dövblindfragor
Hér má finna útgáfur á fleiri tungumálum, s.s. arabísku, dönsku, ensku, finnsku, samísku, norsku, og spænsku.

Ef smellt er á myndina opnast pdf-skjal sem prenta má út.